fimmtudagur, 2. september 2021

"Skaut sjálfa mig í fótinn" í gær

 
Ég sem sagt fór í leikfimitíma á þriðjudaginn og var mjög lúin eftir hann, þrátt fyrir að finnast ég ekki gera neitt ... Ákvað þess vegna að taka því rólega í gær svo ég kæmist nú örugglega í leikfimitímann í dag. Það gekk nokkuð vel framan af degi, ég fór bara í sundið og tíndi smá rifsber úti í garði. Missti mig ekki neitt í þrif eða tiltekt hér innanhúss. 
 
Ljósmyndaklúbburinn minn ætlaði að hittast klukkan fimm úti í Krossanesborgum og ég spurði sérstaklega að því hvort þetta ætti að vera ganga eða ljósmyndaRÖLT. Það var hið síðarnefnda  svo ég hugsaði að þá væri mér óhætt að mæta. Við vorum nú bara fjórar og byrjuðum á gangstígnum en færðum okkur fljótlega af honum og uppá klöpp þar sem við sáum betur yfir. Síðan leiddi eitt af öðru, við röltum lengra út í móa, fundum bláber sem var bara dásamlegt - fullt af berjum og við tíndum upp í okkur hverja lúkuna á fætur annarri.

Svo ákváðum við að færa okkur aðeins og fyrr en varði vorum við komnar töluvert langt frá stígnum. Til að komast inná hann aftur þurftum við að klöngrast í þýfðu undirlendi þar sem maður sá ekki "fóta sinna skil" fyrir háu grasi og reyndi mikið á ökkla og hné. Það hafðist nú allt en í gærkvöldi var ég orðin undirlögð af verkjum í fótunum og er enn í dag. 

Ef ég væri "eðlileg manneskja" færi ég í leikfimina þrátt fyrir smá þreytuverki, en eins mikið og mig langar nú að fara þá væri það ekki gáfulegt. Svo ég verð að bíta í það súra epli að láta skynsemina ráða. Hefði reyndar átt að láta hana ráða í gær - en langaði of mikið að hitta stelpurnar 😉 

P.S. Þetta er bloggfærsla 9/100 í bloggáskorun ársins 2021

 

            

Engin ummæli: