sunnudagur, 9. júní 2013

Ljósmyndarölt með ÁLFkonum

Síðasta miðvikudag var ljósmyndarölt hjá ÁLFkonum. Sennilega hefur veðrið haft sitt að segja, því það var metþáttaka þetta kvöld. Meira að segja ég mætti á svæðið, þrátt fyrir að hafa hugsað með sjálfri mér að líklega væri „gáfulegra“ fyrir mig að vera heima og hvíla mig. En já við röltum í rólegheitum af stað, fyrst í Laxagötu, þar sem gömludansa-tónlist ómaði út á götu úr húsi einu og í ljós kom að þar inni var einhver hljómsveit að æfa sig. Þaðan fórum við niður í Glerárgötu og vöktum mikla athygli flestra vegfarenda, því sú gata er mjög fjölfarin. Þar rakst ég m.a. á skemmtilegt hjólhýsi og rauða fallega túlipana. Svo röltum við enn lengra og stelpurnar voru að æfa sig að „pana“ þegar mótorhjól óku framhjá. Þá nær maður mótorhjólinu eins og kyrru en umhverfið er allt á hreyfingu. Ég var víst orðin frekar lúin þegar hér var komið sögu og sleppti öllu pani. Og þegar ég fann að mig var farið að svima, þá settist ég fyrst inn í strætóskýli og hvíldi mig, en hugsaði svo að ég yrði víst að komast til baka í bílinn aftur ... svo ég ákvað að láta þetta gott heita. Þá hafði ég verið tæpan klukkutíma með stelpunum og haft mjög gaman af.

Ég tók reyndar ótrúlega fáar myndir á þessu ljósmyndarölti og þó að magn sé ekki sama og gæði, þá bara dæli ég þeim hér inn til gamans.


Rétt lagðar af stað. Strax farnar að sjá myndefni.


Gömul hús í Laxagötu. Þetta var „trip down memory lane“ fyrir sumar, sem höfðu átt heima þarna í götunni sem barn.


Mjög frumleg sjálfsmynd eða þannig ... ég endurspeglast í hjólkoppnum á gamla Opelnum.


Þarna kennir ýmissa grasa. Gula húsið í bakgrunni var víst kirkja einhvers trúfélags hér áður fyrr. Þegar við gengum framhjá var hljómsveit að æfa einhvers konar gömludansa-tónlist þar inni og við dilluðum okkur í takt, enda skemmtilega súrrealískt svona á sjóðheitu sumarkvöldi.

Gamli blái Opel Record minnti mig á gamla daga, því pabbi og mamma áttu svona bíl þegar ég var krakki. Nema bara okkar var laxableikur á litinn.


Hér má sjá Glerárgötu og Ráðhús Akureyrar þarna hægra megin bakvið tréð. 



Mér fannst þetta hjólhýsi eitthvað svo skemmtilega krúttlegt og stóðst ekki mátið að smella mynd af því.


Rauðir túlipanar klikka ekki sem myndefni, sérstaklega ekki með kvöldsólina í bakgrunni.


Hér var ég á leið aftur í bílinn, en þá voru komin svona skemmtileg ský, þannig að ég smellti mynd af þeim, þó forgrunnurinn væri ekkert sérlega spennandi.

Annars gengur lífið sinn vanagang. Ísaki gekk vel í prófunum og Andri var líka í prófum hjá flugmálastjórn en á eftir að fá út úr þeim. Hann útskrifast svo formlega úr bóklega flugnáminu á föstudag í næstu viku. Við foreldrarnir höfðum nú ekki verið búin að átta okkur á því að það yrði útskrift úr skólanum, því hann á jú eftir að safna mörgum flugtímum áður en hann er orðinn löglegur atvinnuflugmaður, svo Valur er í veiði á þessum tíma og ég að vinna.

Hrefna kom heim í gær og stoppar fram til 18. júní. Hún er m.a. að halda uppá 10 ára stúdentsafmælið sitt. Það er alltaf svo gaman að fá börnin sín heim :-)

Ég var að vinna í gær og þó ég hafi verið í fríi síðasta miðvikudag þá var ég býsna lúin þegar ég vaknaði í gærmorgun. Þá datt mér það snjallræði í hug að athuga hvort Jón Stefán (sem átti að vinna frá 10-16) væri til í að vinna fyrir mig síðasta klukkutímann, þannig að ég væri bara þrjá tíma í stað fjögurra. Og viti menn, það gerði gæfumuninn. Ég var ekki jafn úrvinda þegar ég kom heim eftir 3ja tíma vinnu, eins og ég er venjulega eftir 4ra tíma vinnu á laugardögum. Það var nú reyndar líka frekar rólegt, en ég notaði tímann til að þrífa eldhúsið og snyrtinguna, og laga aðeins til á lagernum.

Í gærkvöldi var ég meira að segja það hress að ég, Valur og Hrefna fórum út á Svalbarðsströnd og gengum töluverðan spotta, eða frá vitanum í norðurátt og alveg eins langt og hægt var að komast. Já og til baka líka ... ;-)

Svo var ég vöknuð uppúr klukkan sjö í morgun og finn það núna þegar klukkan er að verða ellefu að ég er að verða frekar framlág. En ég er svo sem ekki með neina dagskrá í dag aðra en hvíla mig, og get þá bara gert það.

Engin ummæli: