miðvikudagur, 1. ágúst 2012

Fallin í faðm kolvetnapúkans

eina ferðina enn...

Staðreyndir málsins:
* Ég er alveg hreint svakalegur kolvetnafíkill og hafði gert margar tilraunir til að draga úr kolvetnaáti, áður en mér tókst það s.l. haust.
* Mér líður almennt séð miklu betur ef ég borða minna af kolvetnum
* Blóðsykurinn verður jafnari yfir daginn og ég er ekki stöðugt í þessari rússíbanareið sem samanstendur af aukinni orku í smá stund með eftirfylgjandi orkuleysi, sem leiðir af sér meira kolvetnaát, sem gefur orku í smá stund ... o.s.frv.
* Þegar mér tekst að draga úr kolvetnaáti í lengri tíma þá dregur úr sykurlönguninni með tímanum og ég sakna sykursins ekki neitt

En ........
* Þegar ég dett í lengri þreytuköst og er gjörsamlega orkulaus, svo dögum og vikum skiptir, þá fer ég að leita í kolvetnin því þau gefa mér smá orkubúst, þó stutt sé
* Þetta geri ég gegn betri vitund en mér er hreinlega ekki sjálfrátt
* Kaffi (reyndar ekki kolvetni í því en gefur falska orku), 70% súkkulaði, döðlur og maísflögur eru stóru syndirnar mínar þessa dagana.



Ég fann það sérlega vel síðustu tvær, þrjár vikurnar að ég var að detta í kunnuglegan gír. Það er að segja, að úða í mig mat, sætindum og kaffi til þess að halda haus. Þetta er nokkuð sem ég var búin að gera í mörg ár áður en ég breytti mataræðinu. Og það sem ég lærði á Kristnesi, að hlusta meira á líkamann og hvíla mig, í stað þess að keyra mig áfram, var bara orðinn dauf endurminning. 

Það er reyndar ekki þannig að ég hafi verið á fullu allan daginn, alla daga, bara svona ef einhver skyldi nú fá þá ranghugmynd. En ég er alltaf að berjast við sama vandamálið, að vilja ekki vera eins þreytt og ég er, og þá fer ég að keyra mig áfram, gegn betri vitund. Svo var líka búið að vera meira að gera í vinnunni og það segir fljótt til sín - eins gaman og það er samt.

Nú er ég búin að vera viku í sumarfríi (fyrstu dagana var ég reyndar að vinna í bókhaldi hér heima). En þessa viku hef ég verið skelfilega þreytt og sleppti því m.a. að fara með Vali til Reykjavíkur á þriðjudaginn vegna þess að ég treysti mér hreinlega ekki. Í staðinn lá ég mest fyrir og las og náði loks að slappa aðeins af. Hið sama gerði ég í gær og í dag - og hipp hipp húrra - ég er loks búin að safna pínu ponsu orku. Nógu mikilli til að ég treysti mér í ferðalag. Haha, snillingurinn ég, fer náttúrulega strax að eyða orkunni... en vonandi næ ég líka að safna aðeins í sarpinn í íslensku útilofti :-)

P.S. Ég skrifaði þessa færslu fimmtud. 26. júlí en gat ekki ákveðið hvort ég ætti að birta hana eða ekki... Mér finnst ég alltaf vera að skrifa um sömu hlutina og falla enn og aftur ofan í sömu gryfjuna og skammast mín satt best að segja ofurlítið fyrir það. Vildi óska að ég hefði meiri viljastyrk og sjálfsaga stundum. 
En það er víst bara svona sem ég er, og ég hef ósköp takmarkaða þörf fyrir að sýna umheiminum einhverja glansmynd af mér. Þannig að hér kemur þessi pistill - en ég lofa skemmtilegri pistli von bráðar. Við skruppum nefnilega í smá ferðalag um helgina og þegar ég er búin að fara í gegnum myndirnar þá kemur ferðablogg :-)

P.P.S. Ef aðrir kannast við að vera alltaf að berjast við sömu vindmyllurnar, og hafa stundum betur og stundum verr - þá væri gaman að fá að heyra af því. Þetta geta verið hinir ýmsu hlutir, og þurfa alls ekki að tengjast mat. Þannig að endilega skrifa nokkur orð í athugasemdakerfið, ef þið eruð í stuði. Þeir sem hafa ekki blogger aðgang geta hakað við "nafnlaust" og skrifað svo bara nafnið sitt undir athugasemdina í staðinn.

Engin ummæli: