miðvikudagur, 18. júlí 2012

Allt með kyrrum kjörum

Ég er að reyna að sleppa því að blogga þegar ég er í þreytukasti, svona til að hlífa fólki (öðrum en mínum nánustu, þeir þurfa víst að þola mig gegnum súrt og sætt) við þeim leiðindum. En nú sprakk ég samt á limminu og blogga engu að síður. Skal samt reyna að vera ekki mjög leiðinleg...

Þetta núverandi þreytukast hefur staðið í rúman mánuð og eftir alla bjartsýnina um þarna í júní, þegar ég var hressari í ca. viku eða tíu daga, þá tók svartsýnin að sjálfsögðu aftur völdin (eins og sjá má í þessari bloggfærslu). Núna er ég hvorki bjartsýn né svartsýn, bara einhvers staðar þar mitt á milli.

En eins og sjúkraþjálfarinn minn segir þá upplifir hún að ég sé á ákveðnum stað svona getulega séð, á meðan ég vil vera allt annars staðar. Þetta er endalaus barátta hjá mér, með mismuninn milli þess sem ég get og vil. Ef við setjum það upp á tölulegan kvarða, þá held ég að orkan/getan hjá mér sé ca. 3 eða 4 en ég vil vera á 8 eða 9. Sem er algjörlega óraunhæft, svona ef forsendurnar eru teknar með í reikninginn.

Ég hef samt verið aðeins skárri síðustu 2-3 dagana og vonandi heldur það bara áfram :-)

Fyrir nokkru síðan fékk ég þá hugmynd að sanka að mér gömlum myndarömmum og prófa að setja ljósmyndir í gamla ramma. Ég veit ekki alveg sjálf hvaðan þessi hugmynd kom, en ákvað sem sagt að fara á stúfana og leita að gömlum myndarömmum. Ég fer nánast aldrei í verslanir með notaða hluti (hm já nú datt mér í hug, ég gæti kíkt í verslun Hjálpræðishersins) og aldrei á flóamarkaði, svo þetta er allt saman nýtt fyrir mér. Á laugardaginn síðasta, kíkti ég aðeins í Frúna í Hamborg og Fröken Blómfríði en sá ekkert spennandi þar. 

Eftir hádegi á sunnudeginum datt mér svo í hug að aka í Dæli í Fnjóskadal, þar sem hún Margrét Bjarnadóttir er með flóamarkað. (Þeir sem eru áhugasamir um flóamarkaðinn geta lesið nánar um hann í bloggfærslu Kristínar systur hennar). Við fyrstu sýn sá ég ekki margar gamlar myndir í römmum, en þegar ég nefndi við Margréti að það væru rammar sem ég væri á höttunum eftir, þá fór hún á bakvið og fann nokkra í viðbót. Þegar upp var staðið keypti ég fimm ramma. Einn þeirra er nú reyndar ekki svo gamall en ég ætla að pússa hann upp og mála t.d. með kalkmálningu til að gera hann gamlan eldri í útliti. 


Svo datt mér í hug að það gæti verið gaman að kíkja á nýja kaffihúsið í gamla barnaskólahúsinu að Skógum, og ók þangað. Eins og segir á facebook síðu kaffihússins, þá "svífur þar enn ljúfur sveitaskólaandinn yfir og glugga má í ýmsar gersemar frá skólaárunum." 


Hér má sjá gömlu krítartöfluna í skólastofunni sem nú hefur fengið nýtt hlutverk, og hver man ekki eftir landakortarúllum, sambærilegum þeim sem hanga yfir töflunni. Í lokuðum skápum voru svo ótal margar gamlar skólabækur og þarna var líka gamalt orgel. Veggir og loft er viðarklætt og rúðurnar hæfilega veðurbarðar. 



Ég fékk mér þetta fína jurtate sem búið er til úr birki og fleiri jurtum sem Valgerður taldi upp fyrir mér, en ég er strax búin að gleyma. Svo stóðst ég ekki mátið og pantaði mér hráköku, en hún samanstóð af döðlum, apríkósum og hnetum. Það var voða ljúft að sitja þarna í rólegheitum í smá stund, enda var ég ein á staðnum. 



Síðan ók ég heim södd og sæl. Þegar ég var að renna inn í bæinn fór ég að velta því fyrir mér hvort ég myndi yfirhöfuð nota þessa fínu gömlu myndaramma, eða hvort þeir kæmu til að rykfalla í geymslunni hjá mér... Snillingur...


Heima á ný skrapp ég aðeins út í garð og smellti nokkrum myndum af bleiku blómunum bakvið hús, sem ég man aldrei hvað heita (fletti því upp núna: Biskupsbrá). 


Og af því ég er svo voða ánægð með nýju skóna mína sem ég fékk með 40% afslætti á útsölu, þá smellti ég mynd af þeim líka ;-)



7 ummæli:

Guðný Björg sagði...

Skemmtileg tilviljun að rekast á þessa bloggsíðu einmitt þegar nýjasta færslan er úr Fnjóskadalnum fagra, en þar á ég einmitt heima :D Yndislegt að koma á Ugluna og auðvitað í Dæli líka :) Skemmtilegar myndir.
Bestu kveðjur úr Fnjóskadal :D

Kristín S. Bjarnadóttir sagði...

Og af því að Guðný Björg deildi færslunni þá fann ég hana líka :)

Mikið skrifar þú skemmtilega Guðný og fallegar eru myndirnar eins og alltaf! Svo segi ég bara INNILEGA VELKOMIN í flóamarkaðsheima, það eru skemmtilegir heimar, fullir af möguleikum og heilu ævintýrunum sem oft á tíðum virkja sköpunarkraftinn svo um munar :)

Kristín S. Bjarnadóttir sagði...

ps. Flottir skór :)!!

Guðný Pálína sagði...

Þakka þér kærlega fyrir kveðjuna nafna :)

Og þakka þér líka fyrir falleg orð Kikka. Já það verður spennandi að kíkja oftar á flóamarkaði, ég sé það nú vel á þinni síðu hvað þú ert dugleg að breyta og bæta þær gersemar sem þú finnur :)

ella sagði...

Gamlir rammar eru dýrindi. Þeir eru mjög margir samankomnir á fjölskylduveggnum mínum og Kolaportið, Hertex og Fjölsmiðjan eru fínar uppsprettur. Antikbúðirnar eru eðlilega nokkuð dýrari. Ég bý reyndar svo vel að hafa tök á að skera gler í þá eftir þörfum sem óneitanlega eykur enn möguleikana.

Guðný Pálína sagði...

Já Ella, ég fór einmitt í Hertex á föstudaginn og fann einn vel með farinn ramma :) Á eftir að kíkja í Fjölsmiðjuna. Þetta með að geta skorið glerið sjálf er náttúrulega bara snilld!!

Nafnlaus sagði...

I love the valuable info you supply in your posts. I like your writing style.