fimmtudagur, 28. júní 2012

Lystisemdir í Lystigarðinum

Á morgun kl. 16 opnar ljósmyndasýning ÁLFkvenna í Lystigarðinum hér á Akureyri. Hún er staðsett í næsta nágrenni við nýja kaffihúsið, Café Björk. Í kvöld var verið að setja upp sýninguna og Valur og fleiri karlmenn okkur tengdir komu og aðstoðuðu okkur. Það er að segja, þeir sáu alfarið um að festa myndirnar upp, við gerðum ekki annað en ákveða uppröðun þeirra (en það var nú reyndar ansi flókið verkefni).

Ég er að vinna á morgun til kl. 14 og svo þurfum við að mæta í Lystigarðinn um þrjúleytið til að undirbúa opnunina. Þetta verður langur dagur hjá mér, því til að kóróna þetta, þá er partur af okkur ÁLFkonum líka með í annarri stórri samsýningu, Textílbombunni. Sú sýning verður sett upp annað kvöld og mun ábyggilega taka tímann sinn að setja upp öll verkin, og má búast við að það standi fram á nótt. Ef satt skal segja kvíði ég morgundeginum aðeins og vona að ég nái að standa uppá annan endann allan þennan tíma.

Textílbombu-verkefnið átti að vera litríkt, svo ég tók mynd sem ég átti  og breytti henni til að gera hana að litaBOMBU. Myndir þeirra hinna voru unnar á svipaðan hátt. Síðan eru 5 og 5 myndir settar á fána og þeir hengdir á ljósastaura efst í gilinu. Verður nú pínu spennandi að sjá hvernig þetta kemur út allt saman, því það er óhætt að segja að þetta hafi verið fremur erfið fæðing hjá okkur. En hér má sjá upprunalegu myndina mína -



- og svo endanlegu útgáfuna, þegar búið var að ýkja litina alveg í topp. Ég er ekki vön að vinna myndir svona mikið, en gaman að leika sér aðeins í tengslum við þetta ákveðna tilefni.




2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sýningin er ykkur til sóma og skaðar eigi að setja hana upp á fallegasta staðnum í bænum.
HH

Guðný Pálína sagði...

Takk takk Halur minn kær :)