fimmtudagur, 5. maí 2011

Meira ljósmynda"blaður"

Ekki gat ég nú verið róleg með þessar tvær myndir sem búið var að prenta og líma á fóm. Það var ein önnur sem var alltaf að minna á sig í huganum á mér, svo í morgun dreif ég mig með hana niður í Pedromyndir og lét prenta út. Andri sótti hana svo og fór með hana til Kára sem límdi hana á fóm, svo nú get ég valið úr þremur myndum. Hugsa samt að ég taki pottþétt þessa nýju og svo myndina af blóminu með flugunni. Það er nú frekar fyndið að ég skuli hafa endað á því að vera með makrómyndir en ekki landslagsmyndir, því ég tek jú mun meira af landslagsmyndum. En þennan dag sem ég fór út til að mynda fyrir sýninguna var landslagið allt svo grátt og því kom þetta eiginlega af sjálfu sér. Svo er ein önnur í klúbbnum sem yfirleitt tekur makrómyndir en verður með landslagsmyndir á sýningunni, svo segja má að við höfum bara hlutverkaskipti.

Veðrið var svo dásamlegt í dag, sannkallað sumarveður. Ég ætlaði að fara út með myndavélina í morgun, en eyddi morgninum í þetta stúss með að græja myndina og fara með í Pedromyndir, og svo var ég orðin svo þreytt... þannig að ég um hádegisbilið lagði ég mig svo ég myndi meika að fara í vinnuna. Andri var að fara í flug klukkan tvö og var þar að auki að sendast fyrir mig, svo ég ákvað að ganga í vinnuna í þessu dásemdarveðri. Nokkuð sem ég er að "borga" fyrir núna með þreytuverkjum í fótunum - en það var nú líka vegna þess að ég gekk svo hratt og þá verður það auka álag á vöðvafestur.

Svo komst Ísak að því í dag að á morgun væru lokaskil á bókarskýrslu í íslensku, svo hann þurfti að klára bókina sem hann var þó byrjaður með, og skrifa skýrsluna. Ég var svo að fara yfir þetta núna áðan og koma með smá athugasemdir um lagfæringar. En núna þarf ég að fara að baka fyrir klúbbinn á morgun.

Engin ummæli: