miðvikudagur, 25. maí 2011

Gömlu skólaljóðin hafa verið í huga mér í dag

og þá einkum þau sem tengjast vori og sumari. Ástæðan er sú að söngfuglinn í morgunsundinu var að biðja mig að syngja í gufubaðinu í morgun - og mér duttu engin lög í hug. Hann stakk sem sagt uppá að ég myndi syngja eitthvað sem tengdist vori og sumri. Og ég var alveg tóm. Hefði kannski átt að syngja skátalög fyrir hann, það er helst að ég muni þau, sbr.

Þegar vorsólin leikur um vangann á mér,
þegar veröldin fyllist af söng.
Þegar gróandi um sveitirnar fagnandi fer,
finnst mér gatan í bænum of þröng.
Þá held ég til fjalla, og glatt er mitt geð.
:,: Gríptu stafinn þinn og malinn þinn
og svefnpokann og prímusinn
og tjaldið þitt og komdu bara með.:,:

Þetta er eftir Tryggva Þorsteinsson, fyrrum skátaforingja, sem samdi mörg virkilega falleg skátalög.

En nei nei, ég mundi ekki eftir einu einasta ljóði, svo úr varð að hann söng þá bara með sínu nefi "Nú er sumar, gleðjumst gumar" o.s.frv. Ég skil ekki hvernig maður á miðjum aldri (hm eða ríflega það, veit ekkert hvað hann er gamall) getur munað öll þessi ljóð. Og hann er alveg steinhissa á því að ég skuli EKKI muna þetta. Hehe, en já ég þruma bara einu skátalagi á hann næst!

Engin ummæli: