fimmtudagur, 21. apríl 2011

Skírdagur / Sumardagurinn fyrsti

Ég man nú ekki eftir því að þessa tvo daga hafi borið uppá sama dag á dagatalinu áður, en það þarf nú svo sem ekki að vera rétt því gleymnari manneskja er vandfundin. Mér tókst t.d. í gær að spyrja eina frænku mína hvernig mamma hennar hefði það - sem væri kannski í lagi ef mamma hennar væri ekki dáin. Úff, ég fattaði nú reyndar nánast samstundis hvaða vitleysu ég hefði gert (svipurinn á henni hjálpaði nú til við það) og varð alveg miður mín yfir þessu, en sagt er sagt og ekki hægt að taka tilbaka töluð orð.

Í dag er afskaplega fallegt að horfa út um gluggann. Sólin skín en reyndar er einhver vindur. Það sem það er nú búið að blása mikið hér undanfarið. Bara endalaust rok. Sérlega leiðinlegt á nóttunni þó. Ég sótti mér eyrnatappa eitt kvöldið þegar ég gat ekki sofnað, en þá heyrði ég alltof hátt í suðinu í eyrunum á mér í staðinn, svo það var til lítilla bóta.

Ég sé fram á nokkuð rólega páska, að minnsta kosti vinnulega séð. Ég er í fríi í dag og á morgun, og sunnudag og mánudag. Það er ekki ljóst enn með laugardaginn en þá á ég að vera að vinna frá 13-17, nema Andri bjóði sig fram í að leysa mömmu gömlu af. Það kemur í ljós. Hins vegar hittir þannig á að það er nóg að gera á ýmsum öðrum vígstöðvum. Við áttum miða á tónleika með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands sem eru í dag og stóð alltaf til að fara á. En svo ætluðum við í leikhús í tvígang, og fyrst var Valur veikur og svo Ísak, þannig að við eigum miða í leikhúsið núna á laugardagskvöldið. Loks eru tónleikar með Megasi á sunnudagskvöld og búið að kaupa miða á þá, en það verður bara að koma í ljós hvernig formið á frúnni verður.

Eftir mikla yfirlegu og angist (ok, kannski smá dramatík í gangi hérna) þá ákvað ég að fara ekki í afmælið hennar Hjördísar. Mér finnst það ægilega leiðinlegt, en var hreinlega ekki að treysta mér. Þó það hefði líka verið gaman að hitta fólkið og fá tilbreytingu þá var þetta bara ekki að gera sig núna.

Jæja, ætli sé ekki best að hætta þessu rausi og reyna að gera eitthvað. Þó ekki væri nema reyna að upphugsa hvað á að vera í matinn yfir páskana. Ég fékk þau fyrirmæli frá eiginmanninum áðan, þegar hann fór í ræktina. Nú fer hann bráðum að koma heim og ég ekki búin að hugsa neitt.

Engin ummæli: