laugardagur, 23. apríl 2011

Lífið heldur áfram - sem betur fer :)

Í gærmorgun dreif Valur sig út á reiðhjólinu og hjólaði hring fram í Eyjafjarðarsveit. Á meðan fór ég í sund með Rósu, en henni datt það snjallræði í hug að fara í útiklefann. Það var ansi mikill vindur en sólin skein og funhiti úti þannig að það var mjög fínt að vera í útiklefanum. Þar voru fáir og maður losnaði alveg við hávaðann og lætin sem fylgja því að vera í venjulega búningsklefanum á sólríkum dögum sem þessum. Við syntum nokkrar ferðir og fórum svo í pottinn og svei mér þá ef ég var nú ekki bara rjóð í kinnum á eftir. Svo gengum við líka báðar leiðir í rokinu og það minnti mig á gamla og góða daga, þegar við æfðum báðar sund og gengum daglega á æfingar og heim aftur.

Ég var hálf dösuð eftir sundið og lagði mig um miðjan daginn, nokkuð sem ég geri yfirleitt ekki. Það er að segja, ég legg mig kannski í sófann án þess að sofna, en í gær fór ég inn í rúm og steinsofnaði. Það er nú svo sem allt í lagi, svona í páskafríinu ;-)

Í gærkvöldi komu svo Rósa og Dóra mamma hennar í kvöldmat til okkar. Valur eldaði þessa dýrindis fiskisúpu og ég bakaði súkkulaðiköku, og hvort tveggja var bara mjög gott þó ég segi sjálf frá :-)

Í dag þarf ég að fara að vinna klukkan eitt en er engan veginn að nenna því... bara löt, löt, löt. Svona er það þegar maður kemst á bragðið og er búin að vera í fríi í tvo daga. En mér er nú engin vorkunn því svo fæ ég aftur frí í tvo daga. Úti skín sólin eins og henni sé borgað fyrir það, vantar bara fuglasönginn.

Engin ummæli: