miðvikudagur, 24. nóvember 2010

Mónótón söngur hljómar hér

Já það þýðir ekkert annað en sitja með sveittan skallann og æfa sig. Nú er það bara Betlehemsstjarnan alveg hægri vinstri... Laglínan sem sópran 2 syngur er að hluta til svo hræðilega eintóna að það er hálf erfitt að halda einbeitingunni. En já, ég skal ná þessu!!

Ég svaf illa síðustu nótt og var alltaf að vakna. Þar sem ég var nú einu sinni í fríi í dag ákvað ég að sleppa sundinu og leggja mig aftur þegar Ísak var farinn í skólann. En ég bara lá og lá en sofnaði ekki fyrr en eftir ca. klukkutíma. Þá vaknaði ég korteri seinna því ég hafði stillt klukkuna á hálf tíu, til þess að ég gæti hringt og athugað hvort Andri væri ekki örugglega vaknaður og viðbúinn að ná flugrútunni. Það var nefnilega bara ein flugrúta og hún fór frá BSÍ rúmum tveimur tímum fyrir brottför, en venjulega er nú miðað við að ferðafólk sé komið til Keflavíkur þá, svo það hefði verið slæmt að missa af rútunni. Já já, drengurinn orðinn tvítugur og mamman enn að passa uppá að hann vakni... Ætli maður þurfi ekki aðeins að slaka á klónni með þessi börn og leyfa þeim að passa sig sjálf.

En já, svo var ég bara eitthvað ómöguleg og vissi engan veginn í hvað ég ætti að nota þennan fína frídag. Það voru froststillur úti og ég var að spá í hvort ég ætti að fara út að taka myndir, en þá kom risastór veghefill og fór að hefla snjó í götunni, og lokaði mig inni. Þannig að ég hélt áfram að æða eirðarlaus um húsið og reyndi m.a. að hringja í eina vinkonu mína en hún var ekki heima. Þar til veghefillinn var farinn og þá dreif ég mig bara í kuldagallann og fór út með myndavélina. Það var reyndar skítkalt en ég var nú samt úti í eina tvo tíma eða svo.

Fór síðan í heimsókn til vinkonunnar sem þá var komin heim og ég hef ekki hitt lengi lengi. Einu sinni fórum við alltaf út að ganga saman, en svo fékk hún sér hund og fór í staðinn að fara út að ganga með annarri vinkonu sinni sem líka á hund, og við höfum einhvern veginn ekki fundið sambandinu farveg eftir það. Hún til dæmis kemur aldrei í heimsókn til mín, og ég var nú eiginlega búin að sætta mig við að ef ég vildi hitta hana þá færi ég til hennar eða við hittumst á kaffihúsi. En svo varð ég engu að síður hálf leið á því dæmi öllu saman. Iss piss, það er svo sem ekki eins og ég sé eitthvað að velta mér uppúr þessu, þetta kom bara upp í hugann þegar ég var að skrifa um að við hefðum hist í dag. Og nú er ég svo sannarlega farin að skrifa 100% kellingablogg, eins og Valur myndi kalla það.

En já eftir útiveruna og heimsóknina var ég orðin ótrúlega dösuð eitthvað en fór samt stutta ferð á bókasafnið + í Bónus að kaupa aðeins inn. Það er pínu flókið að vita hvað ég á að hafa í matinn handa okkur Ísak, því matarsmekkur okkar fer ekki beinlínis saman. Ég ætlaði að steikja fisk en þá hafði verið fiskur í skólanum svo hann vildi ekki fisk. Það endaði með því að ég hafði (ógeðslega) kjúklingabita/nagga og hrísgrjón og sæta chilisósu með. En ég finn það að sú sósa er alltof sæt fyrir mig og kveikir á "langar í meiri sykur" takkanum í heilanum á mér. Sem ég er búin að berjast í allt kvöld við að slökkva aftur á...

Jæja ég ætla að hætta þessu bulli og halda áfram að gera ekki neitt.

Engin ummæli: