fimmtudagur, 18. nóvember 2010

Máni mættur á svæðið

Já ég sit hér við skrifborðið og það er eins og við manninn mælt, Máni lætur sig ekki vanta. Hann er kominn á þá skoðun að kjöltan á mér sé ætluð honum einum þegar ég sit hér. Sem er bæði gott og slæmt. Gott af því hann er hlýr og notalegur og malar. Slæmt vegna þess að þá þarf ég að sitja lengra frá sjálfu borðinu og teygja hendurnar inná borðið til að ná með puttana á lyklaborðið - sem er ekki góð vinnustelling.

Annars ætlaði ég nú eiginlega að opinbera það fyrir öllum sem álpast til að lesa þessa síðu hversu mjög ég er farin að kalka. Sem er líklega ekki gott þegar maður er ekki eldri en ég er.

Þannig var mál með vexti að síðasta sunnudag hafði snjóað ógurlega og ófært var um bæinn framan af degi. Andri hafði farið á ball ásamt vinum sínum og fengu þeir nokkrir að gista um nóttina hjá öðrum vinum sem búa í miðbænum. Ísak hafði gist hjá Arnari vini sínum og þegar ég fór að sækja Ísak datt mér í hug að bjóða Andra að ná í hann líka. Sem ég og gerði. Auk Andra voru það tveir vinir hans sem ég keyrði líka heim til sín. Það var ekki búið að moka nema sums staðar og mikill snjór út um allt. Þá fór vinur Andra að tala um hvað þetta væri mikill snjór, hann myndi nú bara ekki eftir svona miklum snjó áður á Akureyri. Ég fór þá að lýsa því fjálglega að það hefði nú verið allt á kafi í snjó árið sem þeir fæddust og ég hefði varla komist með Andra heim af fæðingardeildinni fyrir snjó, því ófært var inn í götuna okkar. Svo skutlaði ég bara strákunum heim og hélt áfram mínu stússi. En seinna um daginn laust því allt í eini niður í huga mér að nú hefði orðið heldur betur slegið út í fyrir mér. Því auðvitað var  Andri fæddur í Noregi og það var Ísak sem við þurftum að klofa snjóinn með í fanginu, hér inn götuna nýfæddan. ÚFF! Ég fékk áfall þegar ég áttaði mig á því hvað ég hafði eiginlega verið að rugla mikið. Og Andri hafði ekki sagt neitt. Líklega ekki kunnað við að leiðrétta mömmu sína þarna fyrir framan vini sína. Þegar ég bar málið undir hann viðurkenndi hann að hafa tekið eftir þessari rangfærslu, og orðið hugsað til þess hvað vinir hans myndu nú eiginlega halda. Því hann hefði jú alltaf sagt þeim að hann væri fæddur í Noregi ...

Ég var nú eiginlega alveg miður mín yfir þessu máli öllu, og þá sérstaklega því að það gæti slegið svona rosalega út í fyrir ekki eldri konu. Þetta er eitthvað sem maður stendur gamla fólkið kannski að því að gera og kímir kannski með sjálfum sér, en þetta er ekki eitthvað sem á að koma fyrir mig... Svo sagði ég konunum í sundlauginni frá þessu í gærmorgun og við hlógum hjartanlega að þessu öllu saman. Og ég fékk að vita að ég væri nú ekki ein um að gera svona gloríur - sem var gott :-)

Engin ummæli: