fimmtudagur, 22. júlí 2010

Smá ferðalag

Við Valur drifum okkur í fyrradag af stað og ókum sem leið lá í Skagafjörð. Með smá viðkomu á Glerártorgi reyndar, þar sem frúin keypti sér "ferðabuxur". Mig hefur nefnilega lengi vantað þægilegar buxur fyrir ferðalög, finnst óþægilegt að vera í gallabuxum í bíl. Var svo heppin að detta niður á buxur sem eru reyndar aðeins í rýmri kantinum en með belti eru þær í lagi.

Við höfðum pantað mat og gistingu í Lónkoti og fórum beinustu leið þangað enda orðin glorhungruð. Við vissum að mikið ætti að vera lagt í matseldina í Lónkoti og urðum ekki fyrir vonbrigðum. Fengum fjórréttaða máltíð og hver rétturinn var öðrum betri. Mikil áhersla er lögð á að nýta það hráefni sem náttúran í firðinum hefur uppá að bjóða. Í forrétt var karrý-kókossúpa með rækjum, í millirétt var lundi, í aðalrétt var steiktur þorskur og heimagerður fjóluís og súkkulaðikaka í eftirrétt.

Eftir matinn fórum við út og gengum um fjöruna fyrir neðan bæinn og tókum aðeins myndir, en skilyrði til myndatöku voru afar slæm þar sem það var þoka og frekar dimmt.

Daginn eftir beið okkar dásemdar morgunmatur. Hvort okkar fékk einn disk hlaðinn ávöxtum, súrmjólk með múslí og brauði og osti. Rabbarbarasaft fylgdi með. Að morgunmat loknum fórum við á Hofsós og syntum aðeins í nýju sundlauginni í sól og rjómablíðu. Versluðum okkur brauð og álegg í nesti og ókum af stað til Siglufjarðar. Stoppuðum reyndar fljótlega niðri við sjó og borðuðum smá nesti.

Næsta stopp var svo í Haganesvík í Fljótum en þangað hefur mig lengi langað að koma en alltaf keyrt framhjá þegar ég hef verið á þessum slóðum. Mér finnst alveg ofboðslega fallegt í Haganesvík og þar var mikið fuglalíf, þá aðallega kríuvarp. Við tókum nokkrar myndir og héldum svo áfram til Siglufjarðar.

Þar ætluðum við að fá okkur gott kaffi á nýjum veitingastað bæjarins, Hannes Boy, sem hlýtur að vera nefndur eftir einhverjum gömlum heimamanni. En þetta er víst bara matsölustaður, þeir eru ekki með kaffi og kökur þar. Í næsta húsi var reyndar hægt að fá vöfflur og kaffi en ekki te... Við keyptum okkur nú samt vöfflur því við vorum svo svöng. Svo tókum við góðan göngutúr um bæinn í góða veðrinu. Ég sá mikinn mun frá því fyrir ca. 10 árum hvað bærinn er orðinn miklu skemmtilegri. Búið að gera mörg gömul hús upp og allt er í betra standi einhvern veginn fannst mér. Á Siglufirði er eiginlega nauðsynlegt að kíkja á Síldarminjasafnið og það gerðum við. Þetta er afskaplega merk heimild um síldarævintýra-tímabilið í sögu þjóðarinnar og gaman að skoða safnið.

Þegar hér var komið sögu ætluðum við að fara aftur á nýja veitingastaðinn og fá okkur að borða - en viti menn - þá var hætt að selja hádegismat og ekki hægt að kaupa mat aftur fyrr en kl. 18. Við urðum hálf hvumsa við þetta en lausnin varð sú að borða nesti á bryggjunni og var það ekki amalegt. Að því loknu ætluðum við í smá bíltúr en enduðum á að keyra upp að skíðasvæðinu.

Þá var hægt um vik að halda áfram upp Siglufjarðarskarð og það gerðum við. Það sem þessi vegalagning og margar fleiri hafa verið mikið þrekvirki á sínum tíma. Við ókum í hægðum okkar yfir skarðið og stoppuðum nokkrum sinnum til að taka myndir og njóta náttúrufegurðarinnar. Við mættum engum bílum á leiðinni en einum hjólreiðamanni hins vegar. Meiri harkan í þessum hjólreiðamönnum! Þegar hér var komið sögu var degi farið að halla og við lögðum í hann heim.

Þetta var bara virkilega góð ferð og ekki spillti veðrið fyrir :)
Bæti við myndum síðar.

Engin ummæli: