sunnudagur, 23. ágúst 2009

Það er líklega ekki mjög gáfulegt

að blogga þegar maður er að drepast úr andleysi. En ég virðist hafa sérstaka tilhneigingu þessa dagana til að gera hluti sem ég veit að eru ekki gáfulegir - svo ég blogga hér með. Og ég blogga af því mér leiðist. Ég hef nefnilega haldið kyrru fyrir í allan dag af því ég hélt að ég væri að verða veik og ákvað að hvíla mig bara vel og rækilega. Þannig að á meðan Valur fór í Mývatnssveit og aðrir fjölskyldumeðlimir dreifðust um bæinn lá ég á sófanum og ýmist var í tölvunni eða las bók. Mér fannst nú bókin, Sjöundi sonurinn eftir Árna Þórarinsson, ekkert sérstök. Hef lesið fyrri bækur hans og fundist þær skárri. En kannski var ég bara ekki í rétta stuðinu.
Í gær var ég hálf slöpp og drusluleg eitthvað og hélt að ég væri komin með svona heiftarlegt vefjagigtarkast. Í nótt vaknaði ég með þvílíku beinverkina og höfuðverkinn að ég hélt að ég væri komin með flensu. Í dag hef ég bara verið slöpp. Undarlegt fyrirbæri svo ekki sé meira sagt. En fegin er ég ef þetta er hvorki gigtin né flensan! Verð vonandi orðin sprækari á morgun.
Í vikunni byrjar Ísak aftur í skólanum og á föstudaginn fer Andri í útskriftarferð með MA. Þann 31. flýgur svo Hrefna aftur til Köben. Það er hætt við því að það verði heldur tómlegt í kofanum þegar það verður. Það hefur verið svo mikið fjör hjá okkur í sumar með gesti og ekkert nema gott um það að segja.

Engin ummæli: