- Anna systir og Sigurður systursonur eru búin að vera hjá okkur í ca. 2 vikur núna. Það er búið að vera virkilega notalegt að hafa þau í heimsókn en því miður fara þau á morgun.
- Ég hef verið að vinna megnið af tímanum sem þau hafa verið hér en átti samt frí um síðustu helgi og tók svo auka frídag í vikunni sem leið.
- Um síðustu helgi fórum við (ég, Valur, Anna, Sigurður og Ísak) austur í Öxarfjörð á föstudagseftirmiðdegi. Þar borðuðum við í Lundi og fórum svo í sund á sama stað og svo í smá bíltúr. Sváfum líka í Lundi um nóttina. Á laugardeginum fórum við á okkar fjallabíl að Hafragilsfossi + Dettifossi + Möðrudal þar sem við borðuðum nesti + að Öskju og Víti + í Herðubreiðarlindir þar sem við hituðum hakk og spaghetti á prímus og borðuðum + í jarðböðin og svo heim.
- Á miðvikudaginn fórum við Anna og strákarnir til Dalvíkur. Þar skoðuðum við Byggðasafnið og vakti þáttur Jóhanns risa sérstaka athygli strákanna. Á eftir fórum við í sund þar sem við Anna suðum okkur niður í heita potti laugarinnar en strákarnir ærsluðust eins og þeirra er von og vísa. Svo var það Kaffi Veró með nýbökuðum vöfflum og volgu kaffilatté. Farin lengri leiðin heim, með viðkomu á Hjalteyri og ekin bæði Kræklingahlíðin og Lögmannshlíðin.
- Svo hefur sundlaugin verið óspart notuð þennan tíma en þar kemst ég ekki með tærnar þar sem Anna hefur hælana, því hún hefur synt bæði 80 ferðir (4 kílómetra) og 100 ferðir (? marga kílómetra...) á meðan ég druslast mínar hefðbundnu 30 (eða jafnvel ekki nema 20 einstaka sinnum).
- Vinnan hefur verið skemmtileg eftir sumarfrí, nóg að gera og nóg af viðskiptavinum. Ferðafólkið lætur sjá sig, bæði innlent og erlent og það væri óskandi að þetta væri svona fjörugt árið um kring :-)
- Andri er að vinna í Pottum og prikum í sumar og stendur sig bara vel strákurinn. Hann er svo að fara í útskriftarferð með MA núna í haust.
- Hrefna og Erlingur komu frá Köben en við sáum frekar lítið af þeim framan af þar sem þau gistu heima hjá foreldrum hans. Nú er hann reyndar farinn út aftur en dóttirin komin heim í gestaherbergið í kjallaranum svo við sjáum meira af henni. Hún byrjar ekki nærri strax í skólanum en hann þurfti hins vegar að mæta í vinnu.
- Valur er líka byrjaður að vinna aftur eftir sumarfrí en svo á hann tvær vikur eftir. Spurning í hvað þær verða notaðar. Það stóð nú alltaf til að mála húsið í sumar en ekki er enn fundinn litur svo það veit enginn hvernig það fer. Ætli það endi ekki bara með því að það verður málað aftur í sama lit - eða ekki málað yfir höfuð.
- Ísak er búinn í vinnuskólanum í sumar. Þetta var nú ekki sérlega mikil vinna en þó betra en ekki neitt. Svo hefur hann verið að æfa fótbolta en tognaði á kálfa og gat ekki verið með ansi lengi vegna þess. Og þegar hann er loks búinn að jafna sig þá er fótboltinn í smá fríi - týpískt!
- Máni og Birta hafa bara verið nokkuð ánægð með sumarið. Sérstaklega sólskins-kaflann mikla. En Máni lenti í slagsmálum og fékk þvílíka sýkingu í höfuðið og þurfti að fara í aðgerð til að hreinsa sárið. Svo tók við sýklalyfjagjöf í 10 daga hér heima en hann hefur jafnað sig vel eftir þetta. Meira segja byrjaður að vaxa smá hárdúnn á skallablettinn aftur.
- Valur á afmæli á morgun, meira hvað tíminn líður alltaf hratt. Mér finnst svo stutt síðan ég var að kaupa fimmtugsafmælisgjöf handa honum. En það er víst komið ár síðan...
- Og nú fer ég að hætta þessu og brjóta saman þvott, hengja upp þvott, taka úr uppþvottavélinni, ryksuga og kannski, bara kannski, skúra gólfið. Ætli það verði nú samt ekki frekar gert í fyrramálið :-)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli