sunnudagur, 25. maí 2008

Ég held að ég láti pípulagningar eiga sig á næstunni

Við erum með kvörn fyrir matarleifar í vaskinum hjá okkur og þegar ég var að ganga frá eftir kvöldmatinn setti ég afganga af fiski frá í gær í kvörnina og gamalt brauð. Skrúfaði frá vatninu áður en ég kveikti á kvörninni, eins og lög gera ráð fyrir. Fyrst í stað gekk allt vel en síðan brá svo við að vatnið fór að koma uppúr hinum vaskanum og eftir smá stund voru báðir vaskarnir hálf fullir en ekkert fór niður. Ég slökkti á kvörninni og skrúfaði fyrir kranann og beið í smá stund, hélt kannski að vatnið myndi sjatna en ekki gerðist það nú. Valur var ekki heima, annars hefði hin ósjálfbjarga eiginkona kallað í manninn sinn. Þannig að ég ákvað að vera sjálfbjarga, sótti fötu fram í vaskahús og setti hana undir rörin inni í vaskaskápnum og skrúfaði svo beygjurnar undan rörunum. Ég var reyndar bara búin að losa aðra þeirra lauslega þegar hin myndarlegasti gosbrunnur varð til þarna inni í skápnum og það frussaðist vatn (blandað fínthökkuðum matarleifum) út um allt. Aðallega á mig og á gólfið. Það fór minnst af því í fötuna. Næsta korterið fór í að þurrka vatnsflauminn innan úr skápnum og af gólfinu en ég ákvað að horfa á björtu hliðarnar. Vaskaskápurinn var nefnilega orðinnn ansi skítugur og þurfti á þvotti að halda, þannig að þetta gat ekki betra verið. Nú er bara spurning hvort ég á að þora að setja beygjurnar undir rörin aftur - eða bíða þangað til Valur kemur heim...

Engin ummæli: