mánudagur, 21. febrúar 2005

Stundum hleypur ímyndunaraflið með mig í gönur

og það gerðist núna í morgun. Þannig var mál með vexti að Andri var hjá félögum sínum í gær að "lana" og hafði lofað að koma ekki seint heim. Ég sofnaði sætt í gærkvöldi og rumskaði ekki fyrr en vekjaraklukkan hringdi í morgun. Valur fór á undan mér fram og sagði "Andri hefur ekki komið heim í nótt, hann hlýtur að hafa gist hjá vini sínum". Sem var auðvitað lógísk skýring á málinu og ég samþykkti með sjálfri mér - a.m.k. í tíu mínútur eða svo. Hann hefur nefnilega gert það áður að gista heima hjá strák í tengslum við svona lan, en þá vissum við af því fyrir fram.

Þarna lá ég í rúminu, hafði ætlað að leggja mig aðeins lengur af því það er vetrarfrí hjá strákunum, en gat með engu móti sofnað. Fór þess í stað að spá í alla mögulega og ómögulega hluti sem gætu hafa valdið því að Andri kom ekki heim í nótt. Og ég get fullyrt að áhorf mitt á þætti eins og "CSI", "Law and Order" og fleiri slíka var ekki til að auka á rósemi mína, heldur þvert á móti. Ég sá hann fyrir mér liggjandi einhvers staðar úti í vegkanti, að einhver geðsjúklingur hefði rænt honum, að ráðist hefði verið á hann.... nefndu það! Loks var mér orðið svo órótt að ég ákvað að hringja í farsímann hans og gefa skít í það hvort ég myndi vekja strákana alla saman. Fór fram, sótti símann - og viti menn. Eftir mér biðu skilaboð frá Andra um að hann myndi sofa heima hjá vini sínum (einn sem er með hálfgerða íbúð á neðri hæðinni heima hjá sér).

Ég varpaði öndinni léttar og skreið aftur upp í rúm en gat auðvitað ekkert sofnað aftur, var orðin alltof upptjúnnuð af þessu öllu saman.

Engin ummæli: