þriðjudagur, 30. júlí 2013

Meira hvað tíminn líður alltaf hratt

Ég man ekki eftir því að þetta hafi verið vandamál þegar ég var krakki en nú þjóta dagar, vikur og mánuðir áfram, án þess að ég fái rönd við reist.

Þessa stundina er það sumarfríið sem mér finnst hafa liðið alltof hratt. Við erum búin að hafa það mjög gott og núna er fjórða vikan í fríi. Ég hefði átt að byrja aftur að vinna í næstu viku, en ég verð hugsanlega viku í viðbót. Það yrði þá nýtt met held ég bara, a.m.k. síðan ég byrjaði að vinna í Pottum og prikum. En mamma og Ásgrímur eru að fara að flytja bráðlega, og ég gæti þá hugsanlega hjálpað eitthvað til í tengslum við flutningana. Að minnsta kosti ef ég er þokkaleg til heilsunnar, en ég hrundi nú reyndar í gigtarkast í fyrradag og gær, en er aftur skárri sem betur fer.

Þegar síðasti bloggpistill var skrifaður þá vorum við að leggja af stað í ferð nr. 2 með hjólhýsið. Við lögðum af stað um hádegi á laugardegi og ókum til Húsavíkur. Þar stoppuðum við og fengum okkur að borða á Naustinu, fiski-veitingastað við höfnina, áður en við héldum áfram austur á bóginn. Við höfðum hugsað okkur að gista á tjaldstæðinu í Lundi í Öxarfirði en þar var svo margt fólk að við nenntum ekki að vera þar. Þá var úr vöndu að ráða. Við vissum að það væri tjaldstæði á Kópaskeri en vissum hins vegar ekki hvort þar væri hægt að tengja hjólhýsið við rafmagn. En við ákváðum að láta á það reyna, enda bæði frekar hrifin af þessum litla bæ og umhverfi hans. Og viti menn, þegar við komum til Kópaskers, þá voru þrjú raftengi á tjaldstæðinu og eitt laust fyrir okkur. Við komum okkur fyrir á besta stað og það gekk eins og smurt að stilla af hjólhýsið. Veðrið var alveg frábær, sól og hiti en smá gola. 

Við byrjuðum á því að fara í smá labbitúr um bæinn, með myndavélar bæði tvö, eins og sannir túristar. Það voru ekki margir á ferli þrátt fyrir þetta dásamlega veður en ýmislegt sem bar fyrir augu. 


Tjaldstæðið er í láginni fyrir aftan þetta rauða hús, en sést sem sagt ekki hér ...


Við fyrstu sýn sýndist mér standa "hárskeri" á þessu skilti en eins og sjá má kallast nafn hárgreiðslustofunnar á við heiti bæjarins.


Við hliðina á hárgreiðslustofunni rákumst við á þennan forláta símklefa. Það er svo fyndið hvað maður er fljótur að gleyma hlutum sem áður þóttu sjálfsagðir, s.s. símklefum.


Fjaran við bæinn er afskaplega falleg, við sátum góða stund á grasbala þarna fyrir ofan og bara nutum útsýnisins.


Útsýnið í hina áttina. Snartarstaðarnúpur þarna hægra megin.


Það var fínn þurrkur þennan dag og gaman að sjá svona „gamaldags“ snúrustaura.


Uppi á holtinu, fyrir ofan barnaskólann (sem sést reyndar ekki á myndinni) má sjá þennan vísi að lystigarði. 


Það veitir víst ekki af að þvo bílana eftir akstur á íslenskum malarvegum.


Lúpínan setur svip á umhverfi sitt, sama hvað fólki almennt finnst um hana.

Eftir gönguferðina borðuðum við sushi í forrétt (hehe já bara lúxus á liðinu, en við keyptum sushi í Naustinu á Húsavík fyrr um daginn) og síðan grillaði Valur kjöt og við sátum úti að borða, þó farið væri aðeins að kólna. Ólíkt því þegar keypt er gisting á gistiheimili, þá er maður í útilegu í hjólhýsi. Og okkur finnst svo gaman að geta borðað úti í góðu veðri. Svo spjölluðum við líka aðeins við aðra Íslendinga á tjaldstæðinu. Þeir voru að flýja veðrið sunnanlands og létu sig ekki muna um að bruna alla þessa leið til að komast í sól og blíðu. 

Ég læt þennan hluta ferðasögunnar duga í bili. Þarf að kíkja aðeins á verkefni sem Hrefna er búin að skrifa og svo er ég líka á fullu að skrá niðurstöður vörutalningar fyrir P&P í Excel skjal. Þannig að það er best að hætta þessu blaðri og bretta uppá ermar ;-)

Engin ummæli: