laugardagur, 22. desember 2012

Stund milli stríða


Mér tókst ekki að halda út ... hér kemur "Mikil vinna - mikil þreyta - mikið samviskubit yfir að gera ekkert heima" bloggfærsla. Skal samt reyna að vera ekki alltof leiðinleg...

En sem sagt, desember hefur flogið áfram og ýmissa hluta vegna þá hefur hann verið ennþá strembnari en venjulega. Ég hef að sjálfsögðu verið að vinna mikið, og þrátt fyrir að hafa reynt að skipuleggja frídaga inn í vinnuáætlunina, þá hefur gengið fremur illa að framfylgja þeirri áætlun.

Sjúkraþjálfarinn minn frá Kristnesi  kom í búðina á fimmtudagskvöldið þegar ég var að vinna, og ég sá það á henni að henni leist nú ekkert alltof vel á fyrrverandi sjúkling sinn. Eftir að hafa yfirheyrt mig um það hversu mikið ég væri að vinna, spurði hún "Og ætlar þú þá að vera fram á sumar að jafna þig?" Ég reyndi að klóra í bakkann og sagði" Tja vonandi ekki alveg svo lengi" en líklega hefur svar mitt ekki verið ýkja sannfærandi, svona miðað við þá staðreynd að ég var jú einmitt fram á sumar að ná mér eftir síðustu jólatörn. Enda sá ég það alveg á svipnum á henni. En sem verslunareigandi þá er ekki hægt að halda sig á hliðarlínunni í jólatörninni, það er bara ekki í boði.

Annars gengur lífið sinn vanagang. Hrefna og Andri eru bæði komin heim í jólafrí og það er ósköp notalegt að hafa þau heima. Ísak er einnig kominn í jólafrí, Birta gamla heldur áfram að gleðja okkur með nærveru sinni, og Valur undirbýr jólin. Það er ekki ofsögum sagt, því ég geri bókstaflega ekkert hér á heimlinu sem telst til jólaundirbúnings.

Ég hef ekkert komist út að taka myndir undanfarið en tók myndina sem fylgir einn morguninn í síðustu viku. Þá komu nokkrir dagar í röð með svo ótrúlega fallegri morgun- og dagsbirtu, sem ég náði því miður ekki að fanga "á filmu". Stökk samt út á stétt einn morguninn og smellti þessari af fjólublárri dögun.

1 ummæli:

Anna Sæm sagði...

Ef litið er fram hjá því hvernig þér sjálfri líður að taka ekki þátt í jólaundirbúningnum, þá vita "allir" að á mörgum heimilum er það aðallega annar aðilinn sem undirbýr jólin og ég veit alveg að Valur gerir það vel :-)
Og mikið er birtan falleg á myndinni. Og takk fyrir spjallið í gær.