þriðjudagur, 30. október 2012

Þá er skammdegið að ná í skottið á mér


Ég hef oft átt erfitt með að halda haus í myrkasta skammdeginu. Ástandið var reyndar verra hér áður fyrr, og sérlega erfitt þegar við bjuggum í Tromsö, því þar var ennþá meira skammdegi en hér á Íslandi. Einn vetrarpart þegar ég var hvorki í skóla né fastri vinnu, átti ég það til að fara með Andra til dagmömmunnar á morgnana, og svo beint heim í rúm aftur þar sem ég svaf til hádegis.

Inni á vef persona.is er skammdegisþunglyndi skilgreint á eftirfarandi hátt:
Einkenni skammdegisþunglyndis eru vanlíðan, sinnuleysi, mikil depurð, svartsýni, lífsleiði, orkuleysi og óeðlilega mikil svefnþörf. Einnig eykst matarlyst, þá sérstaklega löngun í kolvetnaríka fæðu. Því er algengt að fólk með skammdegisþunglyndi þyngist töluvert yfir vetrartímann. Að auki getur skammtímaþunglyndi leitt til þess að fólk forðist félagsleg samskipti og einangri sig.
Ég hef verið viðkvæm fyrir skammdeginu alveg síðan ég var unglingur og það fór versnandi með árunum. Þetta var afar slæmt þegar við bjuggum í Noregi og einhver ár eftir að við fluttum heim, en ég hef skánað mikið hin síðari ár. Mestu framfarirnar komu eftir að við fjárfestum í dagsbirtu-lampa fyrir rúmum tíu árum síðan. Þá sit ég við hann í a.m.k. 30 mín. á dag og ég finn gríðarlegan mun á því að nota hann.

Í morgun þurfti ég ekki að vakna í vinnu og þrátt fyrir að hafa rumskað kl. 9, svaf ég áfram til kl. 10. Þá dauðbrá mér líka þegar ég sá hvað ég hafði sofið lengi. Að vísu er ég ennþá með anga af þessari leiðinda pesti í mér (stífluð í ennis-, nef-, og kinnholum með tilheyrandi slappleika) en það var samt ekki skýringin á þessum mikla svefni. Nei, ég áttaði mig á því að nú var það skammdegið sem var skollið á, og ég ekki búin að sækja lampann góða niður í geymslu.

Annað sem ég mæli með til að berjast við skammdegisþreytu, er að fara út að ganga í hádeginu, þeir sem hafa möguleika á því. Þá er mest birtan úti + öll hreyfing er af hinu góða.

Svo hjálpar það líka til hversu mikið er að gera hjá mér í vinnunni í nóvember og desember, og enginn tími til að detta niður í þunglyndi. Öll samskiptin við viðskiptavinina gefa líka mikið af sér.

Það sem hefur þó hjálpað mér mest að sættast við skammdegið, er ljósmyndaáhuginn. Það að vera úti með myndavélina og reyna að fanga fegurð vetrarins, er bara snilldar"lyf" gegn skammdegisþreytu :-)

Myndina sem fylgir þessari færslu tók ég í desember 2011, rétt hjá Leirunesti hér á Akureyri.

2 ummæli:

Anna Sæm sagði...

Dagsbirtulampi og D-vítamín!!! Allir þurfa meira D-vítamín á veturna :-)

Guðný Pálína sagði...

Já ég gleymdi D-vítamíninu ... Takk fyrir að minna á það, ég var einmitt að kaupa mér D-vítamín um daginn og er byrjuð að taka það!