Kemst vonandi alla leið, segi ekki meira. Vélin átti að fara klukkan sjö í fyrramálið en hefur nú verið frestað til kl. 10 vegna öskufalls. Ég skil reyndar ekki alveg rökin fyrir því að seinka fluginu - en ég flýg með Iceland Express og vélar Icelandair virðast vera á áætlun s.k.v. vefsíðu flugvallarins. Sá reyndar einhvers staðar að flugi frá Alicante var flýtt þar til í kvöld og hallast helst að því að Kaupmannahafnarfluginu sé seinkað af því verið sé að nota vélina í annað. Svo er öllu flugi aflýst seinni part dags. Úff púff, ég sem var eitthvað svo sallaróleg með þetta þegar ég pantaði ferðina, þar sem flug hefur gengið vel undanfarið.
En það væsir svo sem ekki um mig. Ég er eins og kóngur í ríki sínu hér í Engjadal, en mamma og Ásgrímur eru ekki heima um helgina. Það er hálf sorglegt eiginlega að ná ekki að hitta þau, því ég er svo sjaldan á ferðinni hér sunnan heiða og þau sjaldan á ferðinni norðan heiða. En svona er þetta bara stundum. Nú er bara spurningin hvort ég á að fara að prjóna eða lesa eða glápa á imbann.
Og já, svona til upplýsingar, þá er ég að fara til Kaupmannahafnar að heimsækja Hrefnu mína og hitta Önnu systur sem þar verður á ráðstefnu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli