föstudagur, 4. júlí 2008

Tja

Finnst ég svo sem ekki hafa margt að segja.

Er í vinnunni mest allan daginn um þessar mundir og er svolítið lúin. En klukkan er nú líka að verða tíu að kvöldi til... Það var annars pínu skrýtinn dagur í vinnunni í dag. Við vorum að taka upp vörur og það fer dágóður tími í það enda þarf að tékka á verðinu á hverju einasta snitti til að sjá hvort það hafi breyst. Gengisfall íslensku krónunnar sér til þess að yfirleitt er einhver hækkun milli sendinga og maður verður voða glaður þegar vörur eru áfram á sama verði og síðast. Framan af degi var lítil traffík í búðina enda yndislegt veður úti en þegar norðanáttin fór að blása seinni partinn þá fór fólk að streyma að. Fæstir voru þó að kaupa eitthvað, fólk virtist meira vera bara á röltinu - að drepa tímann.

Yfirhöfuð er þó margfalt meiri traffík á Glerártorgi en var í Strandgötunni og lítið hægt að nota tímann í búðinni til að panta vörur, vinna í bókhaldi og annarri pappírsvinnu. Sem þýðir að líklega þurfum við að fara að mæta fyrr í vinnuna svo við fáum extra klukkutíma til að sinna svona hlutum. Svo þarf maður líka að venjast því að gera stærri pantanir því salan er jú meiri :-) Og við þurfum að ráða fleira fólk í haust svo maður verði ekki alveg brjálaður á allri þessari helgarvinnu og nái að safna kröftum annað slagið.

Já, það er ýmislegt sem breytist í tengslum við flutningana á Glerártorg. Eitt af því er kvöldmatartími fjölskyldunnar. Við höfum yfirleitt verið að borða uppúr sex og finnst það voða gott því það lengir kvöldið einhvern veginn. En nú er ég sjaldnast komin heim fyrr en milli hálf sjö og sjö, svo kvöldmaturinn er núorðið á sama tíma hjá okkur eins og öðrum Íslendingum. Sem minnir mig á það þegar við vorum nýflutt til Noregs hérna í den og Hrefna var að leika við krakka úti þá hurfu alltaf allir klukkan fimm og við skildum ekki neitt í neinu. Þá var kvöldmatur hjá þeim! Það fannst okkur á þeim tíma afar undarlegt og héldum okkar síðbúna kvöldmatartíma framan af. Færðum hann svo smátt og smátt framar - en ég held samt að við höfum aldrei borðað klukkan fimm.

Og svo ég haldi þessari maraþonfærslu minni áfram þá er Valur sem sagt farinn af stað áleiðis til Rússlands, Andri er hjá Sunnevu að elda kjúklingapasta (hm, að vísu líklega löngu búinn að elda og borða núna), Hrefna og Erlingur borðuðu úti í Vestursíðu hjá foreldrum Erlings (enda matfaðirinn farinn í veiði eins og áður sagði), Ísak og Sigurður eru inni í herbergi að horfa á mynd og ég ligg í sófanum eina sanna ásamt Mána og með tölvuna í fanginu. Fór reyndar aðeins út áðan og afrekaði að kaupa bók um ljósmyndun sem ég hlakka til að fara með í rúmið á eftir.

Á morgun er ég að vinna frá 12-17 og þyrfti svo helst að elda einhvern ætan kvöldmat. Á sunnudaginn er ég bara að vinna frá 13-15 og þá langar mig til að skreppa eitthvert með strákana eftir vinnu, t.d. til Dalvíkur eða Hríseyjar - en það er ekki þar með sagt að þá langi til þess...

Og þá held ég að blaðurskjóðan hafi ekki meira að segja í bili.

Engin ummæli: