föstudagur, 11. júlí 2008

2 lambalærissneiðar og hálfur poki af Sambó kúlusúkki

Þetta var kvöldmaturinn hjá mér. Eftir 9 tíma vinnudag var ekki beint hægt að segja að andinn væri yfir mér og það eina sem mér datt í hug að elda voru grillaðar pylsur. Hins vegar finnast mér pylsur ekki góðar og ekki fara þær heldur vel í magann á mér þannig að ég greip einn pakka af marineruðum lambasneiðum á hraðferð minni í gegnum Nettó. Þegar heim var komið kveikti ég á grillinu og tókst að grilla bæði pylsur og lamb án þess að eyðileggja hráefnið. Það fannst mér bara nokkuð vel af sér vikið hjá mér því ég hef aldrei grillað kjöt áður (pylsur já en ekki kjöt). Hins vegar kemur kokkur hússins heim annað kvöld (eða það sem er eftir af honum) þannig að heimilisfólk sér fram á betri tíð með blóm í haga.

Í gærkvöldi var himininn svo fallegur að ég gekk út á klöpp og tók nokkrar myndir.

Þessi efri er nú aðeins færð í stílinn hjá mér. Ég dekkti hana aðeins til að ná betur fram mynstrinu í skýjunum.

Þessi neðri sýnir skuggamynd mína bera við grenitréð, við hliðina á húsinu sem Hjördís og Sighvatur áttu heima í (eru flutt suður eins og svo margir aðrir...) Ég sakna hennar alltaf þegar ég geng þarna framhjá.


Á heimleiðinni var ég stoppuð og beðin að taka mynd af furðufiski sem rekið hafði á fjörur tveggja veiðimanna í fjöru nálægt Kópaskeri ef ég man rétt. Og þessi blessaður fiskur heitir Vogamær, hvorki meira né minna.

Engin ummæli: