þriðjudagur, 29. mars 2005

Mikið liðu páskarnir fljótt

Bara allt í einu búnir - og ég sem ætlaði að gera svo margt í páskafríinu... Þetta voru ósköp ljúfir dagar. Við fengum heimsóknir og vorum með fólk í mat nánast á hverjum degi.

Á föstudaginn langa kom vinafólk okkar í mat, þau Sólrún, Oddur, Oddur yngri, Birkir og Lea Margrét, sem búa núna í Hafnarfirði. Ég á Sólrúnu margt að þakka. Við kynntumst þegar við vorum báðar á "óléttunámskeiði" á heilsugæslustöðinni og áttum svo börnin okkar með viku millibili. Ísak fæddist 14. mars og Lea Margrét þann 21. Og þar sem við vorum báðar heimavinnandi gerðum við mikið af því að droppa inn í kaffi/te hjá hvor annarri og þegar krakkarnir stækkuðu léku þau sér mikið saman. Í gegnum Sólrúnu byrjaði ég líka í saumaklúbb og svo síðar að æfa blak og kynntist mörgum góðum konum í kjölfarið. En svo fluttu þau suður og nú hittumst við ekki nema 2-3svar á ári. Gaman samt þegar það gerist!

Á laugardeginum komu svo Sunna, Kiddi og börn og borðuðu með okkur. Valur eldaði dýrindis fiskimáltíð sem samanstóð af grilluðum laxi, cous cous og afar bragðgóðri sósu með (jógúrt, sæt chilisósa og kóríander). Þessu var skolað niður með frönsku hvítvíni og félagsskapur þeirra hjóna svíkur aldrei ;-)

Á páskadag komu dóttirin og tengdasonurinn í mat (eftir að hafa ýjað ítrekað að því hvort þeim yrði ekki örugglega boðið í mat...). Þá töfraði bóndinn fram grillað lambafillé með Bordelais sósu og ofnbökuðum kartöflum. Já, og gleymum ekki rauðvíninu - helmingurinn af því fór nú í sósuna en við bóndinn skiptum hinum helmingnum bróðurlega á milli okkar. Og til að Hrefna slyppi nú við að elda á annan í páskum þá var þeim skötuhjúum boðið í afganginn af mexíkósku kjúklingavefjunum frá föstudeginum.

Engin ummæli: