föstudagur, 25. mars 2005

Dugnaðarforkar

höfum við verið í gær og í dag. Ef mælt væri hver hefði gert mest þá kæmi reyndar í ljós að Valur hefur verið ennþá duglegri en ég - en það er nú ekkert nýtt. Forsaga málsins er sú að eftir breytingar í kjallaranum síðasta sumar þá hafa bækur heimilisins verið á hrakhólum og löngu orðið tímabært að koma þeim fyrir á nýjum stað. Þannig að ég pantaði þrjá Billy bókaskápa úr Ikea og auk þess fengu þrjár kommóður að fljóta með. Ein fór inn í Ísaks herbergi og hýsir þar alls konar dót, ein fór inn í hjónaherbergið og hýsir föt af sjálfri mér og sú þriðja fór í sjónvarpsherbergið þar sem hún hýsir nú tölvuleiki, vídeóspólur og dvd-diska. Bókaskáparnir eru komnir á ganginn í kjallaranum og á bara eftir að raða í þá. Þegar það verður búið ætla ég að ráðast á geymsluna undir stiganum næst!

Annars er bara allt í góðum gír. Ég fór í sund bæði í dag og í gær og synti 14 ferðir báða dagana. Það gerir að vísu ekki nema 300 metra en ég synti rösklega og bætti flugsundi við (reyndar ekki nema hálfri ferð....). Í morgun hitti ég gamla skólasystur í lauginni, hana Rún Halldórs sem núna býr á Akranesi. Kosturinn við páska er sá að þá flykkjast gamlir Akureyringar í bæinn og maður hittir fólk sem maður hittir ekki öllu jafna. En til þess að svo megi vera þarf reyndar að fara út úr húsi, í sund, í fjallið (þegar það er snjór þar..), á öldurhúsin o.s.frv.

Andri og vinur hans voru að skreiðast á lappir eftir að hafa eytt nóttinni í tölvuleiki - ég skil ekki alveg þetta dæmi að þurfa endilega að vaka megnið af nóttinni til að spila tölvuleiki. Það er, af hverju má ekki alveg eins sofa á nóttunni og leika sér á daginn - en það er nú svo margt sem ég skil ekki ;-)

Valur (öðru nafni Halur) situr hins vegar gegnt mér, með tölvu í kjöltunni og nú er það stóra spurningin, er hann að blogga?

Engin ummæli: