mánudagur, 31. mars 2014

Í Keflavík

Það er eiginlega frekar fyndið að ég hafði aldrei komið til Keflavíkur áður en mamma giftist Ásgrími og flutti hingað. Núna er ég farin að rata þokkalega um bæinn (OK kannski ekki sérlega flókið) og finnst þetta bara ágætis staður. Hér hefur greinilega átt sér stað heilmikil uppbygging síðustu árin /áratuginn en því miður á ennþá eftir að peppa gamla miðbæinn meira upp. Þar eru mörg húsanna orðin ansi ósjáleg og í sárri þörf fyrir endurbætur. Hins vegar er heldur betur búið að skvera þennan gamla vatnstank upp, eins og sjá má. Ég fann hann í gær þegar mig vantaði myndefni fyrir ljósmynd dagsins.

En já sem sagt... Við Valur ókum hingað suður eftir vinnu hjá honum á föstudaginn. Kíktum til mömmu um kvöldið þegar við komum, en á laugardeginum fórum við smá rúnt inn til Reykjavíkur með Andra og Freyju. Það er meiningin að kaupa úr handa Andra í útskriftargjöf og það tekur smá tíma að finna „það eina rétta“. Við stoppuðum ekki lengi í höfuðborginni því Andri átti að mæta í flug um kaffileytið. Eftir kaffi fórum við Valur svo aftur í heimsókn til mömmu en um kvöldið fórum við út að borða í Duus húsi. Í gærmorgun brunaði Valur svo aftur af stað norður, svo ekki var þetta langt stopp hjá honum en gaman samt fyrir mömmu að ná að hitta hann aðeins.  
Í dag var svo komið að útskrift hjá mömmu. Ég reyndi að sjæna íbúðina aðeins til í morgun, moppaði gólfin og þreif klósettið svo þetta yrði nú allt eins fínt og á yrði kosið þegar mamma kæmi heim. Um hálf tólf fór ég og sótti Andra sem kom með mér að sækja hana á sjúkrahúsið. Við biðum í smá stund eftir að hitta hjúkrunarfræðing en síðan fengum við hjólastól til að keyra mömmu út í bílinn. Heima á Nesvöllum beið svo Dísa og hafði fengið lánaðan hjólastól í dagvistuninni til að aka mömmu frá bílnum og upp í íbúðina. Það var ágætt að vera ekki að reyna alltof mikið á sig svona fyrsta daginn heima. Andri hjálpaði mér svo að hækka rúmið hennar mömmu upp, með því að setja dýnuna hans Ásgríms ofan á dýnuna hennar, og þá er mamma orðin eins og prinsessan á bauninni, því efst er svo eggjabakkadýna. En hún var náttúrulega búin að venjast rúminu á sjúkrahúsinu og þarf að venjast sínu rúmi uppá nýtt. Ég hringdi svo í Securitas og pantaði öryggishnapp og á von á því að maður frá þeim komi á morgun. Heimahjúkrun mun svo líka hafa samband fljótlega.  
Annars hefur þetta verið tíðindalítill dagur. Mamma náði að sofna aðeins og ég var að prjóna á meðan. Svo hringdi Anna systir á Skype og núna er ég að elda matinn. Ég reyndar klikkaði aðeins á því að mamma á ekki sama úrval af kryddum eins og við heima, svo þetta verður aðeins bragðdaufara og „öðruvísi“ spaghetti bolognese en venjulega. Já svo er ekkert spaghetti heldur ...  
Hér koma svo nokkrar svipmyndir frá laugardeginum, og ein sem Dísa tók af mér og mömmu fyrr í dag. Ég tók reyndar líka mynd af mömmu og Dísu, en brást eitthvað bogalistin í ljósmynduninni og myndin varð eiginlega ekki nógu góð til að birta hana. 









Engin ummæli: