föstudagur, 6. apríl 2012

Heitir bakstrar eru eitt af því sem boðið er uppá í Kristnesi

Þegar ég vaknaði á þriðjudagsmorguninn, öll undirlögð í skrokknum og þar að auki að drepast í öðru hnénu, ákvað ég að prófa heita bakstra. Starfsmaðurinn sem sér um bakstrana vafði utan um mig eftir öllum kúnstarinnar reglum og ég lá á bekk og líktist mest múmíu þegar hann hafði lokið sinni vinnu. Svo fór hann fram en ég lá eftir og ætlaði nú að slaka vel á. Það gekk ekkert alltof vel fyrst í stað þar sem hugurinn var á fleygiferð eins og venjulega. Þar sem hugsanir snúast yfirleitt annað hvort um fortíð eða framtíð, ákvað ég að einbeita mér að nútíðinni, andartakinu, og viti menn, blaðrið í höfðinu róaðist töluvert. Samt ekki meira en svo að allt í einu var ég farin að setja saman einhvers konar ljóð eða textabrot í huganum. Ekki með neinum sérstökum myndarskap samt, þar sem ég kann engar bragreglur. Eftir situr því bara texti sem ég birti hér til gamans.

Slökun

Fyrst í stað heyri ég ekki umhverfishljóðin
fyrir hávaða eigin hugsana.

En síðan laumar taktfastur sláttur veggklukkunnar
sér inn í vitund mína.

Ómur fjarlægra radda, vindgnauð í glugga.
Fuglar að syngja og flugvél á leið inn til lendingar.

Skyndilega verður það svo augljóst,
að ég er aðeins agnarlítill hluti af risagangverki alheimsins

og hugsanir mínar einungis bakgrunnshljóð.



Engin ummæli: