föstudagur, 17. júní 2011

Meira vesenið að vera með heila

Það er að segja, vesenið er kannski ekki akkúrat það að vera með heila, heldur hugsanirnar sem fara í gegnum þennan heila. Ef maður gæti nú bara notað þetta flotta verkfæri til gáfulegra hluta og sleppt öllu ruglinu, en ónei, það er víst ekki í boði.

Um leið og það verður meira að gera í vinnunni þá get ég ekki sofnað á kvöldin af því ég held endalaust áfram að hugsa um þetta og hitt sem ég komst ekki yfir að gera. Svo man ég allt í einu eftir einhverju sem ég hafði gleymt - og hugsa um allt sem fyrirliggur o.s.frv. Síðan fer ég að hafa samviskubit yfir því að ætla í sumarfrí í þrjár vikur og skilja Sunnu eftir með allt sem þarf að gera á meðan. Vandamálið er, að fyrir utan jólavertíðina þá er þetta sá árstími sem mest er að gera, og um leið og salan eykst, þá eykst líka tíminn sem fer í alls kyns utanumhald og stúss. En þegar við erum á fullu að afgreiða viðskiptavini, þá er enn minni tími til að sinna sjálfum rekstrarþættinum. Svo þetta verður pínu súrsætt allt saman.

Annað sem veltist um í þessum heila mínum er sumarfríið. Mig langar að gera eitthvað skemmtilegt og jú jú ég mun gera eitthvað skemmtilegt í fríinu. En hvað á það að vera? Hvert á að fara? Og hvernig skyldi nú heilsan vera? Ætli mér takist að safna mér eitthvað saman, eða verður þetta bara áfram sama þreytubreakdown dæmið alla daga?

Mér finnst samt alltaf jafn merkilegt hvað mér tekst að halda haus á meðan ég er í vinnunni. Það er eins og það sé eitthvað adrenalínflæði sem haldi mér gangandi þar. Eins og t.d. í gær. Þá labbaði ég í bæinn til að sækja vörur og gekk þaðan inná Glerártorg. Var komin þangað um hálf þrjú og svo settist ég ekki niður næstu fjóra tímana. Það leit út fyrir að ætla að vera frekar rólegt en svo var ég bæði að halda áfram að taka upp vörur, og líka á fullu að afgreiða og pakka inn gjöfum og var hreinlega orðin kófsveitt á tímabili. Ekki var heldur tími til að borða. Ég var auðvitað voða glöð að hafa nóg að gera og fá pening í kassann, en þetta þýddi líka að ég stóð varla í lappirnar í gærkvöldi og bara það að fara í sturtu í dag var mér næstum um megn.

En það er þá líka gott að hafa getað hvílt sig í dag því á morgun er ég að vinna - já og svo opnar sýningin okkar á morgun klukkan þrjú. Ég á að vera í vinnunni á þeim tíma, en ef það verður rólegt þá fæ ég kannski að skreppa og kíkja á sýninguna. Ég hef bara séð mynd eftir eina aðra konu og það verður spennandi að sjá myndir hinna. Við erum tíu sem sýnum og hver með okkar ólíka bakgrunn, svo útkoman er án efa mjög fjölbreytt.

Engin ummæli: