Ljósmyndaferðin var mjög skemmtileg. Ég var að vinna fyrri part á föstudeginum og var einhverra hluta vegna ekki komin heim fyrr en um fjögurleytið. Þá átti ég eftir að útbúa nesti og það tók tímann sinn. Skera niður grænmeti í salat og súpu og steikja / sjóða kjúklingalæri til að hafa í súpunni. Auk þess hafði ég keypt harðfisk, 85% súkkulaði, hráfæðiskex og hnetur til að hafa með í nasl. Já og kindakæfu til að borða með kexinu. En af stað fór ég rétt fyrir sex og var komin austur rétt fyrir hálf átta (með stoppi til að taka bensín og nokkrum ljósmyndastoppum).
Hinar stelpurnar voru flestar komnar og allar hressar og kátar. Við borðuðum kjúklingarétt sem ein okkar hafði keypt hráefnið í og eldaði ofan í okkur. Ég var svo heppin að í honum var ekkert sem ég er með óþol fyrir, en reyndar var ríkulegt magn af púðursykri og svo sveskjur, þannig að ég fékk nú í mig slatta af kolvetnum ;) Eftir matinn sátum við og spjölluðum en fórum svo í Partý Alías, sem er spil sem ég hef aldrei spilað áður en fannst mjög skemmtilegt. Um hálf tólf leytið fór svo kokkurinn að elda eftirréttinn, sem ég bragðaði reyndar ekki á, enda var það súkkulaðikaka. Ég fór í háttinn um hálf eitt en þær hinar voru nú eitthvað lengur á fótum. Ein okkar var reyndar hálf slöpp og var farin fyrr í háttinn.
Svo vaknaði ég um áttaleytið í gærmorgun, með sinadrátt, en einhverra hluta vegna er ég alltaf að fá sinadrátt á nóttunni um þessar mundir. Ekki gaman að vakna við það. Nokkrar hinna voru vaknaðar en ekki var nú gott ljósmyndaveður, slydda eða rigning, rok og lágskýjað. Við sátum lengi við morgunverðarborðið og bara spjölluðum um heima og geima, en svo kom að því að við fórum út úr húsi að taka myndir. Það er að segja, allar nema sú sem var orðin veik, og ein önnur sem ók henni til Akureyrar. Það var leiðinlegt, en veikindi spyrja víst ekki að stund eða stað.
Regngallinn kom að góðum notum og eins var myndavélin klædd í plastpoka. Berglind var búin að undirbúa ljósmyndamaraþon, sem fór þannig fram að hver og ein dró miða sem á stóð t.d. blautt, gamalt, hreyfing, á síðasta snúningi o.fl. og áttum við að fara og taka mynd sem tengdist viðkomandi efni og koma svo aftur og draga annan miða og fá nýtt verkefni. Þetta var ótrúlega gaman, þrátt fyrir kröftugt slagveður undir lokin.
Eftir ljósmyndamaraþonið var komið að því að fá sér eitthvað í svanginn og á meðan við sátum og borðuðum gerðist hið ótrúlega. Það hætti að rigna og sólin braust fram úr skýjunum. Þá var bara eitt að gera, drífa sig aftur í útigallann og koma sér af stað í ljósmyndaferð. Áætlunin var að fara hringinn í kringum vatnið og svo í jarðböðin um fimmleytið. Ég dró í efa að við yrðum það snöggar að fara hringinn, svona ef við ætluðum að taka eitthvað af myndum, enda kom í ljós að ég hafði rétt fyrir mér. Við stoppuðum á þónokkrum stöðum og tókum helling af myndum, en mikið var nú kalt. Ég var orðin svo köld og stíf og stirð þegar við komum loks í hús aftur - og þá var klukkan að verða hálf sjö, en ekki fimm eins og talað hafði verið um. Þær hættu reyndar við að fara í jarðböðin því þar er víst ekki gott að vera í svona miklu roki, því þá kólnar vatnið svo mikið af því þetta er svo grunnt (eða eitthvað í þá áttina).
Ég hafði alltaf ætlað heim á laugardagskvöldi því ég vissi að ég þyrfti að borga ríkulega fyrir svona útstáelsi með þreytu daginn eftir. Stelpurnar reyndu mikið að fá mig til að vera áfram en ég stóð fast á mínu. Enda var ég gjörsamlega ónýt af þreytu í dag og þá var nú eins gott að vera komin heim. En þetta var virkilega skemmtilegur túr og ég er svo ánægð með það hvað þetta er frábær félagsskapur sem ég er komin í.