laugardagur, 31. mars 2012

Enginn verður óbarinn biskup

eða þannig. Eftir fremur strembna viku í endurhæfingu er ég heima í helgarfríi og - kemur mikið á óvart - er þreytt og ligg í sófanum við að skrifa þetta. Það er einhvern veginn lúmskt mikil dagskráin þarna og það kemur hálf partinn aftan að manni. Það er að segja, mér fannst þetta nú ekkert svo óskaplega erfitt en á fimmtudegi var ég eins og sprungin blaðra. Þegar þau hin voru að sauma og brasa í tíma hjá iðjuþjálfa, sat ég eins og prinsessa, í stól með fótskemil, púða undir handleggjunum og annan púða við hnakkann, alveg gjörsamlega búin á því, og horfði bara á þau hin.

Og núna nenni ég ekki að skrifa meira í bili, er lika með tölvuna hans Vals og lyklaborðið er eitthvað að stríða mér.

miðvikudagur, 28. mars 2012

Halló!

Bara svona aðeins að láta vita af mér. Tíminn flýgur hér á Kristnesi og ótrúlegt að þetta sé þriðji dagurinn í dag. Maður fer einhvern veginn inn í annan heim hérna. Aftengist frá daglegu lífi og fer inn í þá rútínu sem hér er í gangi. Það er ákveðin skipulögð dagskrá á hverjum degi s.s. fræðsla, gönguferðir, vatnsleikfimi og slökun. Svo bætast við tímar hjá sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa, sálfræðingi og hjúkrunarfræðingi eftir þörfum. Eins er hægt að þjálfa sjálfur í rými sjúkraþjálfunar og komast í heita bakstra.

Ég ákvað að nýta sem mest út úr tíma mínum hérna með því að vera hér alveg yfir vikuna og fara bara heim um helgar. Það gefur ábyggilega betri hvíld í heildina séð og minna stress. Ég var svo oft á síðasta snúningi heiman frá mér þegar ég var hér í 2ja vikna dvölinni, og kom hingað stressuð og upptendruð á morgnana, sem er ekkert sérlega gáfulegt. Svo er líka gott að geta bara tekið því rólega eftir daginn, í stað þess að fara að bruna heim, þó ég sé nú ekki mikið að hamast heima hjá mér.

Það gengur mun betur með matinn en ég þorði að vona. Það eina er að ég fæ ávexti og sætar kökur (af því ég kunni ekki við að vera með enn lengri lista yfir mat sem ég borða ekki) en svo var ég líka búin að nesta mig fyrir vikuna og sá matur liggur nú bara undir skemmdum ... eða þannig. Það var nú samt frekar fyndið að ég fékk fyrirspurn frá einni á facebook varðandi það hvað ég myndi helst vilja borða. Þá er hún að vinna í eldhúsinu á sjúkrahúsinu og í sérfæðinu og þegar hún sá nafnið mitt á sérfæðislistanum þá ákvað hún að spyrja mig bara beint út þetta með matinn.

Ég var nú býsna lúin eftir sundleikfimina í gær og fyrradag, en það fer skánandi. Komst líka að því við samræður við sjúkraþjálfara í dag að ég hafði verið að gera sumar æfingarnar enn erfiðari með því að beyja mig í hnjánum til að vera dýpra ofan í vatninu. Við það kom álag á hnén og verkir í fæturnar sem voru alveg að drepa mig í gærkvöldi.

Jæja ætli þetta fari ekki að verða gott í bili. Ég er að prjóna peysu og ætla að fara að prjóna.. ;)

sunnudagur, 25. mars 2012

Vorboði

Fyrir vinnu í gær fór ég smá rölt í Lystigarðinum með myndavélina. Ég hélt að ég myndi finna krókusa - en fann þá ekki. Eina blómstrandi blómið sem ég fann var þetta litla gula, en það heitir því dásamlega nafni "Vorboði". Ég þurfti nánast að leggjast á jörðina til að ná þessu sjónarhorni af því, enda var það svo pínulítið, aðeins 4-5 cm. hátt.

Fröken upprifin mætt á svæðið eina ferðina enn

Það er greinilega að byggjast upp eitthvað stress hjá frúnni, sem gerir það að verkum að annað kvöldið í röð get ég ekki sofnað því ég er svo upprifin. Líklega er það fyrirhuguð Kristnes dvöl sem er að valda mér þessu hugarangri, þó ég geti ekki alveg útskýrt af hverju það er. En ég get reynt...

Svo ég byrji samt á því sem er jákvætt, þá þekki ég núna staðinn og veit mun meira út á hvað þetta gengur allt saman, heldur en síðast. Það er líka jákvætt að það tókst bara vel til að manna vinnuna mína, svo ég þarf ekki að hafa áhyggjur af því. Eins er frekar rólegt þessa dagana í vinnunni, þannig að ég er ekki að stinga af á háannatíma.

Þá eru það hlutirnir sem eru að þvælast fyrir mér... Mig langar hálfpartinn að gera þetta almennilega og gista líka fremra, í stað þess að fara alltaf heim á daginn eins og ég gerði síðast. Það sem flækir það mál hins vegar er mataræðið mitt. Læknirinn talaði um að ég gæti fengið sérfæði en varaði mig jafnframt við því að það yrði ábyggilega fremur óspennandi matur. Ég gæti nú samt látið á það reyna. Þetta eru margar máltíðir á dag, og t.d. morgunmaturinn yrði ábyggilega höfuðverkur, svona ef hann ætti að koma úr eldhúsinu á sjúkrahúsinu, því ekki borða ég hafragraut og ekki brauð. En ég gæti náttúrulega haft með mér chia fræ og græjað morgunmatinn sjálf. Hins vegar fengi ég ábyggilega ekki eins mikið grænmeti þarna eins og ég hef verið að borða undanfarið. Salatið t.d. sem fylgdi matnum var mestmegnis kínakál og það er nú ekki mikil næring í því miðað við spínat. Hér heima hef ég verið að borða mikið hvítkál, blómkál, spergilkál, lauk, púrrulauk, gulrætur, sellerí, tómata, spínat, gúrku og ég er alveg viss um að þetta er að hafa góð áhrif á mig. Ég hef t.d. verið ótrúlega góð af heilaþokunni undanfarið og finnst eins og ég sé einhvern veginn aðeins að safna mér saman, þó það sé ekki farið að skila sér nógu vel enn hvað þreytuna snertir.

Annað sem ég veit náttúrulega ekki hvernig yrði á Kristnesi er svefnfriður... Ég held að það séu tvær saman á stofu og klósettið frammi á gangi, og ég þoli nú frekar illa hávaða í öðrum á nóttunni + vakna yfirleitt og fer á klósettið 1-3 sinnum á nóttu. Það er einhvern veginn öðruvísi að skrölta þetta um nætur heima hjá sér... eða það ímynda ég mér.

Svo hef ég pínu áhyggjur af því að mér hreinlega komi til með að leiðast seinni part dags og á kvöldin. En ég get jú prjónað, ég get tekið með mér tölvu, ég gæti lesið bækur og jafnvel skrifað niður einhverjar hugleiðingar. Svo verð ég nú ekki ein þarna og get spjallað við hitt fólkið + starfsfólkið sem ég þekki nú þónokkuð af.

Þannig að þegar öllu er á botninn hvolft er engin ástæða til að hafa áhyggjur eða stressa sig yfir þessari væntanlegu dvöl minni á Kristnesi.

Það er samt alltaf þessi púki á öxlinni á mér sem byrjar að tuða. Hann talar um það hvers konar aumingi ég sé að geta ekki komið mér sjálf í form, að ég sé nú ekki svo léleg, að ég líti út fyrir að vera fullkomlega heilbrigð og fólk muni ekki geta skilið hvað ég er að gera í endurhæfingu ... og bla, bla, bla. Meira hvað manns eigin hugur getur farið að rugla í manni. Auðvitað á ég skilið að öðlast meiri líkamlegan styrk og verða heilbrigðri, alveg eins og aðrir sem fara í endurhæfingu. Ekki hafa allir lent í slysi eða verið í liðaskiptaaðgerð. Margir eru einmitt eins og ég, búnir að vera að berjast við verki og vanlíðan í mörg ár, og þurfa bara smá aðstoð við að ná sér upp á ný.

En það er þetta með minn "tvöfalda persónuleika" sem mér finnst ótrúlega erfitt að vinna úr. Það er að segja, útlitslega séð virðist ég vera frísk eins og fiskur (eins og Danirnir orða það), og ef fólk þekkir mig ekki þeim mun betur veit það jú ekki við hvað ég á að stríða. Þannig að þegar ég svo fer á Kristnes líður mér hálf partinn eins og einvers konar loddara, bara af því ég er ekki með handlegginn í fatla eða annað álíka sýnilegt mein. Samt hafa konur sem ég þekki og voru heldur ekki með nein sýnileg mein farið í endurhæfingu á Kristnes og mér fannst alls ekkert athugavert við það. Þannig að þetta virðast í rauninni vera mínir eigin fordómar gagnvart sjálfri mér og mínum "sjúkdómi" sem eru að gera mér lífið leitt. Meiri vitleysan!!

laugardagur, 24. mars 2012

Rólegheit í augnablikinu

Ég er enn að blogga í vinnunni (skamm skamm) en það er nú bara af því það er svo rólegt að mér leiðist hálfpartinn. Það er reyndar alveg töluvert af fólki á ferðinni, en fáir að versla hér inni. Einhverjir þó, sem betur fer... En ég leyfði stelpunni sem var að vinna með mér í dag að fara heim rúmum klukkutíma fyrr, enda lítið vit í því að hanga hér tvær.

Áður en hún fór skrapp ég samt og keypti léttlopa. Ég er að prjóna peysu á Val og hún er svört að neðan + ermarnar en svo er munsturbekkur í fjórum gráum tónum. Ég gleymdi reyndar að skrifa niður númerin á gráu litunum, en í Nettó fengust bara fjórir gráir litir, svo ég keypti þá. Ég ætla að taka peysuna með mér á Kristnes og næ vonandi að komast eitthvað áfram með hana þar. Þarf eiginlega að fara að klára hana svo ég geti byrjað á peysu á sjálfa mig ;-)

miðvikudagur, 21. mars 2012

Göngutúr

Ég fór áðan í göngutúr með myndavélina. Gekk hér um næsta nágrenni og smellti af nokkrum myndum. Veðrið var ljómandi gott, 6 stiga hiti og sól, en vindkæling svo ég var fegin að vera með vettlinga. Var samt orðið alveg skítkalt á puttunum ;-)











þriðjudagur, 20. mars 2012

Bíð eftir að klukkan verði hálf sjö...

Ég er sem sagt í vinnunni og nenni ekki að gera neitt gáfulegt þessar síðustu mínútur. Hef verið að vinna í bókhaldi og er orðin frekar steikt í hausnum, svo ekki sé meira sagt. Það eru skil á virðisaukaskatti 5. apríl en þá verð ég komin í framhaldsmeðferð á Kristnesi, svo ég þarf að klára bókhaldið í þessari viku.

mánudagur, 19. mars 2012

Vangaveltur

Ég er stundum að hugsa um það hvílíkt magn af upplýsingum ég afla mér á netinu. Mestmegnis um mataræði og heilsu, en einnig aðra hluti. Og í framhaldinu af þessum hugsunum fór ég að velta því fyrir mér að það væri kannski ekki vitlaust að leyfa fleirum að njóta þessarar vitneskju. Það er að segja, hætta að blogga eingöngu um mig og mitt persónulega líf, og bæta inn í einstaka fróðleiksmolum. Aðallega til að skemmta sjálfri mér - en já þetta er bara hugmynd. Hvort ég framkvæmi hana er svo allt annar handleggur.

sunnudagur, 18. mars 2012

Pínulítið pirruð í augnablikinu


en það líður nú fljótt hjá. Málið er að ég var búin að taka myndir samfleytt í 100 daga og birta á ljósmyndablogginu mínu. Í gærkvöldi var ég frekar andlaus en tók samt nokkrar myndir sem ég átti svo eftir að flytja af minniskortinu í myndavélinni og yfir í tölvuna mína. Seinni partinn í dag ákváðum við Valur svo að skreppa aðeins út að mynda, og þá fór ég að hugsa um að það væri komið svo mikið dót inná minniskortið, og eyddi öllu saman. Það var ekki fyrr en ég var aftur komin heim og sest við tölvuna að ég áttaði mig á því hvað ég hafði gert. En já því verður ekki breytt, svo ég verð bara að sætta mig við orðinn hlut. Það er nú ekki eins og þetta sé stórslys, en markmiðið hjá mér var eiginlega að taka myndir á hverjum degi í heilt ár. Nú get ég kannski bara leyft mér að hætta við þetta markmið, eins og mig hafði nú stundum langað til að gera...

En já annars var þetta tíðindalítill sunnudagur. Í gær og í dag hef ég aðeins verið að prjóna og eins að hlusta á fyrirlestra á Youtube, og lesa fræðigreinar á netinu. Ég skrifa kannski meira um það seinna. Í gær spjallaði ég líka aðeins við Önnu systur á Skype, og systraspjall stendur alltaf fyrir sínu :-)

laugardagur, 17. mars 2012

Skemmtilegur skátafundur

Já þá er skátafundurinn á enda og ég komin heim. Klukkan er rúmlega tvö að nóttu og leitun að nóttu hin síðari ár þar sem ég hef komið jafn seint heim. Það er langt, langt síðan. Kannski var það síðast fyrir þremur árum, á síðasta skátafundi? Nei, ég er ekki að grínast, ég held að ég hafi ekki farið "á djammið" síðan, í alvöru talað. Enda grunar mig að morgundagurinn verði ekkert grín, þegar frúin verður þreytt og illa sofin, en það er þá vandamál morgundagsins. Mér tókst nú að vera svona lengi á skralli í kvöld af því ég svaf svo lengi í morgun. Svo kannski ég sofi bara lengi frameftir í fyrramálið líka ;) Núna þykist ég ekki taka eftir vöðvaverkjum og eyrnasuði, sem eru að minna á sig. Núna er ég bara glöð með kvöldið, enda skemmtilegur hópur þessar skátastúlkur. Við vorum að rifja upp fortíðina og það þegar þessi skátaflokkur okkar var stofnaður.

Það var að undirlagi Siggu Stefáns sem stofnaður var glænýr flokkur innan 2. sveitar. Sigga Stef. var ótrúlega kraftmikil og "öflug" en það orð var í uppáhaldi hjá henni. Því miður dó hún fyrir aldur fram, um fertugt, en á þessum tíma var hún okkur öllum mikil fyrirmynd og við litum allar upp til hennar. Við stofnuðum sem sagt nýjan skátaflokk sem hlaut nafnið "Sporið" og svo þurfti að semja flokkssöng, flokkshróp og margt fleira. Við fengum mæður okkar til að sauma skikkjur úr þungu ullarefni sem keypt var í Gefjun, og eins var saumað utan um varðeldasessur (innihaldið var plastpoki úr 10 lítra mjólkurkössum, sem blásinn var upp), hnífaparapoka og fleira. Við bjuggum til göngustafi með merki flokksins, sem var prik með gúmmíbolta efst (fyrir haus) og svo löfðu lappir neðan úr. Lappirnar voru snærisspottar og á enda snærisins voru leðurbútar sem út var búið að skera í "fætur" eða iljar. Já þetta voru góðir tímar og gott að eiga svona góðar minningar úr skátunum. Við entumst nú mis lengi í þessu, en flestar voru í nokkur ár og við fórum allar saman á a.m.k. tvö skátamót. Hið fyrra var í Leyningshólum 1976 og hið síðara að Úlfljótsvatni 1977.

Í kvöld minntumst við líka fallinna félaga, ef svo má að orði komast. Í desember 1980 urðu úti tveir ungir piltar og annar þeirra, Freysteinn Guðmundsson, var jafnaldri og bekkjarbróðir okkar Rósu í MA. Það var fyrst um daginn að ég áttaði mig á því að einn þriggja húsvarða á Glerártorgi væri líklega pabbi Freysteins, og í kvöld fékk ég það staðfest. Þetta var afskaplega sorglegur atburður og við fórum á jarðarförina, sem var fyrsta jarðarförðin sem ég fór á.

Jæja, nóg um þetta. Ætli sé ekki best að drífa sig í háttinn.

föstudagur, 16. mars 2012

Komin með ritræpu


Það er alltaf þannig með mig að annað hvort blogga ég ekki það lengi að mamma hringir til að athuga hvort ekki sé allt í lagi með mig, eða að ég blogga á hverjum degi, jafnvel tvisvar á dag. Loks þegar flóðgáttirnar opnast þá gerist það með stæl.

Annars ætlar þetta að verða skrítinn dagur. Fyrir það fyrsta gat ég ekki sofnað í gærkvöldi, þar sem Fröken Upprifin lá í rúminu mínu, og tók allt plássið. Hún kemur stundum í heimsókn og er svo fyrirferðamikil að það er sama hvað ég reyni að slaka á og láta fara lítið fyrir mér, allt kemur fyrir ekki og á endanum gefst ég upp og fer aftur fram. Það var svo margt að brjótast um í kollinum á mér. Sumt hafði að gera með að vera skapandi/fá hugmyndir og þegar ég fer í þann gír er vita vonlaust fyrir mig að reyna að sofna. Og eins undarlegt og það hljómar, þá var ég á sama tíma orðin yfir mig þreytt og þá get ég stundum heldur alls ekki sofnað. Einstaka sinnum hef ég tekið svefntöflu þegar svona ber undir, en ekkert slíkt er til í húsinu um þessar mundir (já já farin að ríma og allar græjur!).

Alla vega, ég sofnaði ekki fyrr en milli tvö og þrjú, og ákvað að láta það þá bara eftir mér að sofa út í morgun. Málið er að í kvöld er nefnilega "skátafundur" og þá er ekki gott að vera að drepast úr þreytu. Gamli skátaflokkurinn ætlar að hittast kl. 18.30 heima hjá einni okkar og fara svo út að borða saman. Það er reyndar lítilsháttar vandamál að ég er að vinna til 18.30, svo ég verð að mæta aðeins seinna. Og ég get ekki ákveðið hvort ég á að taka föt og snyrtidót með mér í vinnuna og fara beint í partýið, eða fara heim og græja mig þar. Hm, mjög stórt vandamál... eða þannig.

Það kom mér reyndar verulega á óvart hvað ég náði að sofa lengi í morgun, eða til hálf ellefu. Þá hafði mig dreymt svo mikið bull að það var eiginlega léttir að því að vakna. Svo hringdi Rósa vinkona skömmu seinna og við ákváðum að labba lítinn hring hér í hverfinu. Ekki veitti af að frúin fengi smá súrefni, en það var ótrúlega napurt úti miðað við að hitastigið er í kringum frostmark og nánast logn.

fimmtudagur, 15. mars 2012

Bjarkeyjarkvistur í vetrardvala

Þessa mynd tók ég dag einn þegar mig vantaði myndefni fyrir ljósmynd dagsins. Bjarkeyjarkvistur er heitið á runnunum fyrir framan húsið okkar. Í gær var ég að skoða gamlar myndir, til að finna gamla mynd af Ísaki til að setja á facebook, og sá þá hvað lóðin hjá okkur hefur breyst á þessum 17 árum síðan við fluttum hér inn. Til dæmis var þessi margumræddi Bjarkeyjarkvistur ekki kominn þá.

Það er alltaf pínu skrítið að skoða gamlar myndir. Einhver ljúfsár tilfinning sem fylgir því. Bæði gleði yfir góðum minningum og viss sorg yfir þeim sem ekki eru jafn góðar. Það er mín skoðun að þegar á heildina er litið sé mikilvægt að muna frekar eftir þessum góðu og leggja áherslu á þær.

Í einum þætti af dr. House (sem Anna og Kjell-Einar gáfu okkur í jólagjöf og við Valur horfum á), var kona sem hafði fullkomið minni. Hún var eins og tölva, gat kallað fram allar upplýsingar um ævi sína á augabragði. Sagt hvað hún var að gera klukkan þetta á þessum degi o.s.frv. Gallinn var hins vegar sá að hún notaði þennan "hæfileika" sinn til að halda bókhald yfir samskipti sín við fólk. Það er að segja t.d. varðandi samskipti við systur sína, þá taldi hún hreinlega fjölda þeirra skipta sem systirin hafði gert eitthvað á hennar hlut, og dró frá fjölda þeirra skipta sem systirin hafði komið vel fram við hana. Af því slæmu minningarnar voru fleiri en hinar, þá vildi hún ekki eiga samskipti við systur sína lengur. Og jafnvel þó systir hennar gæfi henni nýra þá dugði það ekki til að rétta bókhaldið af. Sorglegt!

Líklega er svona fullkomið minni ekki til í raunveruleikanum, en ég held samt að fólk hafi mismikinn hæfileika til að muna góða og slæma hluti. Það er að segja, sumir virðast hafa innbyggðan hæfileika til að muna frekar góðu hlutina, á meðan aðrir einblína meira á þá slæmu. Það hefur kannski eitthvað að gera með almenna sýn fólks á lífið og tilveruna, en til lengri tíma litið er það ábyggilega hollara fyrir líkama og sál að leggja sig frekar eftir því að muna góðu hlutina.

miðvikudagur, 14. mars 2012

Ísak 17 ára í dag

Og já ég ætla að leyfa mér að segja það upphátt... það er nú meira hvað tíminn flýgur áfram! Ég bara skil ekki hvernig börnin eldast svona - og ég alltaf jafn ung.

Í dag var ég í fríi frá vinnunni í Pottum og prikum, en eyddi morgninum í pappírsvinnu ýmis konar, tja fyrir utan að ég fór í sund, þvoði þvott og gekk frá í eldhúsinu. Svo bakaði ég köku handa Ísak, fór með flöskur í endurvinnsluna og fór í banka. Þegar hér var komið sögu var ég búin með orkukvóta dagsins (hann kláraðist nú reyndar um hádegisbilið) og ég hef ekki gert mikið meira í dag. Við fjölskyldan (eða sá hluti hennar sem er hér á landi) fórum samt á Greifann að ósk afmælisbarnsins og borðuðum kvöldmatinn þar. Í kvöld hef ég svo aðallega hangið í tölvunni - eins og það er nú hollt og gott. Ég tók alveg skelfilega lélega mynd af Ísaki á farsímann minn þegar við vorum á Greifanum, og reyndi svo að gera hana aðeins meira spennandi með því að setja hana í sv/hvítt. En það breytir því ekki að gæðin eru slæm. Og nú er ég bara að fara að hátta held ég, tja þegar ég er búin að hengja upp úr þvottavélinni.

sunnudagur, 11. mars 2012

Svo fallegar skeljar

Ég er alltaf að horfa í kringum mig hér innan húss, í leit að myndefni fyrir mynd dagsins. Í gær var það skál með skeljum hér í glugganum hjá mér, sem kallaði á mig. Þessar skeljar eru svo ótrúlega fallegar á litinn, finnst mér.

Þær eru í raun pínulitlar, myndin er tekin með miklum aðdrætti/stækkun.

laugardagur, 10. mars 2012

Enn um mig og mitt mataræði

Mér ætlar að reynast erfitt að finna hinn eina sanna gullna meðalveg í mataræðinu. Það er að segja, ég hélt á tímabili að ég væri komin á beinu brautina og héðan væri ekki aftur snúið, en það er ekki svo. Sérstaklega er það sykurinn sem ætlar að reynast mér óþægur ljár í þúfu. Það er eiginlega frekar sérstakt að ná að vera sykurlaus yfir jólin og í myrkasta skammdeginu, en svo núna þegar daginn er farið að lengja og ég ætti að vera komin yfir versta hjallann, þá er sykurfíknin mig lifandi að drepa. Ég var um daginn að gera tilraun með að borða meira af kolvetnum s.s. brún hrísgrjón, döðlur, kasjú hnetur, gulrætur, rófur ofl. sem ég man ekki í augnablikinu. Fyrst í stað gekk það ágætlega en svo fór að síga á ógæfuhliðina.

Um leið og ég byrja að fóðra kolvetnispúkann þá langar mig í meira af þessu sama - og ég veit ekki hvernig ég á að fara að því að vinna úr þessu því mig langar samt að geta borðað þessi hollu kolvetni. Ég reyndar kveikti á perunni með það að ég var ekki að standa mig í að borða nógu mikla fitu og hef aftur aukið fituneysluna verulega. Það var jú aðalforsenda þess að mér tókst að hætta í kolvetnunum á sínum tíma, að maður verður svo saddur af fitu og langar þá minna í þetta sæta. En já já, ég held bara ótrauð áfram, það þýðir ekkert að gefast upp þó á móti blási.

Samanber þetta video sem ég fann á netinu, um konu sem var komin í hjólastól af völdum MS, en með breyttu mataræði (og annarri meðferð sem fólst að ég held í því að örva vöðvana með rafboðum) tókst henni að snúa við þróuninni og komst úr hjólastólnum. Hún þróaði ákveðið mataræði og er upptekin af því að breiða út boðskapinn. Hér er heimasíðan hennar ef einhver hefur áhuga. Og hér er myndband með henni á youtube, þar sem hún segir frá sögu sinni.

fimmtudagur, 8. mars 2012

Hestamynd fyrir mömmu

Some horses by Guðný Pálína
Some horses, a photo by Guðný Pálína on Flickr.
Nema hvað hestarnir sjást nú varla á myndinni. En ég kann ekki að taka myndir af hestum. Ég vorkenni þeim alltaf svo mikið, því ef ég fer of nálægt þá verða þeir voða glaðir og halda að eitthvað skemmtilegt sé að fara að gerast (vona líklegast að ég sé með brauð) og það finnst mér alveg ómögulegt. En þessa hesta fann ég fyrir neðan Kristnes.

Einhverra hluta vegna hef ég verið eitthvað hálf andlaus eftir dvölina á Kristnesi og ekki í miklu bloggstuði. Annað slagið þykist ég ætla að sleppa því að vera að væla hér á þessum vettvangi (svona til að gera ekki endanlega út af við mína nánustu) og þá er víst bara betra að þegja ;)

Um síðustu helgi kom Anna systir til landsins og ég fór suður og við eyddum laugardeginum saman. Það var ca. 13 tíma "hittingur" og alltaf gott og gaman að hitta stóru systur. Við skoðuðum í búðir, fórum á Laugaveginn og í Kringluna og fórum svo á tónleika í Hörpunni með Sollu vinkonu Önnu, og enduðum úti að borða á Hótel Natura í boði Önnu. Þetta var góður dagur og ég var komin svo snemma heim á sunnudeginum að ég náði að hvíla mig vel restina af deginum.

Annars gengur allt sinn vanagang. Ég læt kannski heyra meira frá mér á morgun eða um helgina, svona ef blogg-andinn kemur nú yfir mig.