sunnudagur, 30. október 2011
Fínn dagur í vinnunni í gær
Við Sunna og Anna skiptumst á að vinna laugardagana með helgarstarfsfólkinu okkar. Þannig að þriðja hvern laugardag vinn ég frá 13-17 en helgarfólkið vinnur 10-16 á laugardeginum og 13-17 á sunnudeginum. Stundum er svo lítið að gera á laugardögum að það er eiginlega ekki þörf á tveimur starfsmönnum, en stundum er bara töluvert að gera og þá munar miklu að vera tvær. Í gær var þannig dagur. Það var erill á Glerártorgi, enda Valhopp í gangi (afsláttur í verslunum) og þar að auki hellirigndi allan daginn og þá er jú ágætis afþreying að fara í verslunarmiðstöð. Þegar klukkan var orðin fimm var enn þá svo margt fólk í húsinu að ég ákvað að vera aðeins lengur í vinnunni. Það borgaði sig líka, því ég seldi fyrir nærri 20 þús. í viðbót. Þannig að heim var ég ekki komin fyrr en 17.45 en ánægð eftir góðan dag. Og góður dagur varð enn betri þegar Valur eldaði sína dásamlegu fiskisúpu í kvöldmatinn. Mín súpa var með kókosmjólk í staðinn fyrir rjóma en kom engu að síður mjög vel út. Svo horfðum við í rólegheitum á Barnaby á dönsku stöðinni um kvöldið.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli