fimmtudagur, 24. nóvember 2011

Eyðibýli fyrir austan

Memory of summer by Guðný Pálína
Memory of summer, a photo by Guðný Pálína on Flickr.
Sem ég man ekki hvað heitir en Valur segir að heiti Kílakot. Tók myndina í dagsferðinni sem við Valur fórum á Melrakkasléttu í sumar.

Talandi um ferðir þá ók ég á Ólafsfjörð í gær og heimsótti Stínu vinkonu mína en við þekkjumst frá því í Tromsö. Hún er því miður ökklabrotin og mér datt í hug að henni þætti gaman að fá gesti, eftir að hafa verið 6 vikur heima í veikindaleyfi. Sú ályktun reyndist rétt og fannst mér aldeilis ágætt að nota frídaginn minn í að heimsækja hana. Það er þannig með okkur Stínu, að alveg sama hversu langt líður á milli þess að við hittumst (sem er yfirleitt alltof langt), þá er bara eins og við höfum verið að spjalla saman deginum áður. Engin óþægindatilfinning eins og stundum er þegar langt líður á milli "hittinga". Bara svo ósköp ljúft að hittast og rifja aðeins upp hvað hefur á daga okkar drifið síðan síðast. Það er ómetanlegt að eiga svona vini og maður skilur ekki hvernig stendur á því að við hittumst ekki oftar, aðeins 45 mín. á milli okkar, en svona er þetta bara. Mér finnst reyndar fólk almennt tala um það hvað tímarnir séu að breytast. Fólk er hætt að "kíkja í kaffi" án þess að gera boð á undan sér, og flestir eru svo uppteknir af því að lifa þessu dagsdaglega lífi að hlutir eins og að heimsækja vini verða útundan. Lífið snýst bara um að fara í vinnuna og klára allt sem þarf að gera s.s. kaupa í matinn, elda mat, sinna heimilinu og afkvæmunum. Allt í einu er dagur að kvöldi kominn og fólk svo örmagna að það hugsar um það eitt að slaka á eftir amstur dagsins. Ég er engin undantekning, og hef ég verið hálfgerð mannafæla þessi síðustu þreytu-ár í lífi mínu. Vonandi er þessi heimsókn til Stínu fyrstu merkin um að bjartari tímar séu framundan í tengslum við vinina :)

Engin ummæli: