Það var friðsæll haustdagur, hafði gert
frost um nóttina og þau hjónin höfðu ákveðið að best væri að taka upp kartöflurnar svo þær skemmdust ekki
í frekara frosti. Þau fengu sér
morgunmat og fóru síðan út í garð. Nú nálgaðist hádegi, hún var orðin
glorhungruð og ískalt og henni datt í hug að fara inn og elda heita súpu handa
þeim. Hún snéri sér að Guðmundi og sagði “Mér langar svo........”
Setningin dó á vörum hennar og
þetta eina orð - mér - hékk í loftinu eins og það hefði öðlast eigið líf. Hún
hafði aldrei á ævinni sagt “mér langar” áður og hafði ekki hugmynd um af hverju
hún tók upp á því núna. “Mér langar.....” Hún sá hvernig Guðmundur, íslenskukennari
til margra ára, bókstaflega tútnaði allur út og varð eldrauður í framan. Honum
var svo mikið niðri fyrir að hann frussaði orðunum út úr sér. “Maður segir mig
langar, MIG langar, MIIG ekki MÉÉÉR”.
Þetta var ekki í fyrsta sinn sem hann hafði
leiðrétt málfar hennar en þetta var án efa alvarlegasta villan sem hún hafði
gerst sek um. Það höfðu orðið örlög íslenskukennarans Guðmundar að giftast konu
sem ekki talaði rétt mál. Þvílík niðurlæging! Hann sem hafði verið piparsveinn
alla tíð hafði á efri árum fallið fyrir sér yngri konu en Sigríður María var á
þeim tíma nýskilin og í þörf fyrir athygli og umhyggju. Nokkuð sem Guðmundur
hafði veitt henni í miklum mæli á
hveitibrauðsdögunum.
Kannski hafði hann verið svo blindaður af
ást að hann tók ekki eftir göllum hennar í fyrstu en að því kom að hann fór að
leiðrétta mál hennar í tíma og ótíma, óháð því hvort þau voru ein eða í
félagsskap annarra. Í fyrstu hafði hún sætt sig við þetta en eftir því sem
tíminn leið og leiðréttingarnar ágerðust þá varð hún reiðari og reiðari inni í
sér. Þetta voru smávægilegar villur að hennar mati. Hún sagði kannski
“sitthvoru megin” í stað “hvor sínum megin”, “mig hlakkar til” í stað “ég
hlakka til” os.frv.
Sennilega hélt Guðmundur að hann væri að
gera henni greiða, kenna henni að tala rétt. Í leiðinni fékk hann tækifæri til
að láta ljós sitt skína og hún hafði grun um að það væri ekki síst ástæðan. Hún
hafði reynt að segja honum að sér finndist hreint ekki gaman að þessu, raunar
yrði hún bara óstyrkari fyrir
vikið og talaði enn meiri vitleysu en vanalega en hann virtist ekki heyra í
henni.
Kvöldið áður hafði þó keyrt um þverbak. Þau
höfðu farið í afmælisveislu til gamals vinar Guðmundar og þar hafði verið margt
um manninn. Sigríður María hafði klætt sig í látlausan svartan kjól sem sýndi
fagra fótleggi hennar, um hálsinn var hún með fíngerða perlufesti og eyrnalokka
í stíl. Hún var virkilega ánægð með sjálfa sig og stóð og spjallaði við
myndarlegan mann sem hún hafði aldrei hitt áður þegar Guðmundur kom aðvífandi.
Ekki mundi hún lengur hvað hún hafði sagt – en málfræðilega vitlaust hafði það
sennilega verið - því Guðmundur greip létt í handlegg hennar og leiðrétti hana
á meðan hann brosti afsakandi til mannsins. Hún yrti ekki á nokkurn mann eftir
þetta og kvöldið var ónýtt fyrir henni. Á heimleiðinni reyndi hún enn einu
sinni að útskýra fyrir Guðmundi hvernig henni liði þegar hann væri sífellt að
skipta sér af talsmáta hennar en hann skellti við skollaeyrum og breytti
umræðuefninu. Hún sat við hlið hans í bílnum, úti var niðamyrkur og inni í
henni var svarthol.
Um morguninn fóru þau á fætur og ákváðu að
ráðast í kartöflugarðinn, létu bæði eins og allt væri í stakasta lagi þeirra á
milli en unnu þegjandi og hugsuðu sitt. Alveg þar til hún opnaði munninn og út
kom hið geigvænlega “mér langar….” Það gerðist eitthvað innra með Sigríði Maríu
þegar Guðmundur reiddist henni svona og án þess að átta sig á gerðum sínum
greip hún skóflu og sló til hans. Skóflan hitti hann í höfuðið og hann féll um
koll. Hún varð skelfingu lostin og kallaði nafn hans aftur og aftur en hann lá
bara í moldinni, hreyfingarlaus. Það sást ekkert blóð á honum en hann var
óhugnanlega hvítur í framan og hún var viss um að hann væri dáinn. Hún hafði
drepið manninn sinn af því hann leiðrétti málfar hennar!
Hún starði á hann stundarkorn eins og í leiðslu en hljóp svo
inn, náði sér í viskíflösku úr stofunni og svefntöflur Guðmundar í
svefnherberginu. Fela sig, hún varð að fela sig og ósjálfrátt tróð hún sér inn
í fataskápinn og dró hurðina fyrir. Þar sat hún og titraði frá hvirfli til ilja
meðan hún skrúfaði lokið af vínflöskunni, sturtaði í sig handfylli af töflum og skolaði þeim niður með víni.
Hún gæti aldrei farið til lögreglunnar og sagst hafa slegið Guðmund í höfuðið með
skóflu af því hann reiddist henni fyrir að tala vitlaust. Morðingi, hún var
morðingi, hún sem ekki mátti neitt aumt sjá! Sigríður María gleypti annan
skammt af töflum og höfgi færðist yfir hana. Smátt og smátt fjaraði meðvitund
hennar út og hún heyrði ekki þegar Guðmundur kom inn og kallaði: “Það var óþarfi að slá mig í höfuðið en ég skil
fyrr en skellur í tönnum. Ég skal aldrei leiðrétta þig oftar elskan.”
(Birtist í Nýju lífi, 1. tbl. 24. árg. febrúar 2001)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli