föstudagur, 24. janúar 2014

Allt að gerast



Eins og margir vita, þá erum við Sunna að loka Pottum og prikum. Það var ekki auðveld ákvörðun að taka, en nauðsynleg. Við vorum gríðarlega óheppnar með tímasetninguna á flutningi verslunarinnar á Glerártorg (í maí/júní 2008) en kreppan skall jú á örfáum mánuðum síðar. Þá fór í gang atburðarás sem við höfðum enga stjórn á:
  • Innkaupsverð á vörum snarhækkaði nánast á einni nóttu og við gátum ekki velt því út í vöruverðið hjá okkur nema smám saman á 1-2 árum.
  • Öll lán sem við höfðum tekið til að innrétta verslunina voru verðtryggð og afborganir urðu hærri en áætlanir höfðu gert ráð fyrir, en það er jú þessi ömurlegi verðtryggði veruleiki sem við Íslendingar búum við.
  • Húsaleigan fylgir vísitölu og hækkaði um rúm 30% á fimm árum.
  • Kaupgeta almennings hefur dregist verulega saman eftir efnahagshrunið.
Við gerðum okkar besta til að halda okkur á floti en þegar fimm ár voru liðin frá kreppu og engin teikn á lofti um bjartari tíma framundan, þá var ekki annað í stöðunni en segja þetta gott. Það lá eiginlega í loftinu að þessa ákvörðun þyrfti að taka en engu að síður leið dágóður tími þar til við treystum okkur til þess.

Þessi ár hafa verið erfið en þau hafa líka verið skemmtileg. Það er gaman að vinna í verslun og eiga gefandi samskipti við viðskiptavinina. Þannig að nú er skrítið að vera að hætta og vita ekkert hvað er framundan. En við ætlum að hafa opið fram á sunnudag og svo nota mánudag og þriðjudag í að tæma búðina. Úff það verður viss léttir að klára þetta en vá hvað ég held að ég eigi eftir að „hanga í lausu lofti“ að þessu loknu.

Núna í janúar hefur líka margt annað verið í gangi hjá mér. Það var dreginn úr mér jaxl í byrjun mánuðarins og það tók mig nærri tvær vikur að jafna mig á því. Ég hreinlega var að drepast úr verkjum og þurfti að taka verkjatöflur fjórum sinnum á dag fyrstu 7-10 dagana á eftir. Sem betur fer er þetta allt að gróa núna og ég ekki lengur með verki.

Um miðjan mánuðinn fór ég suður að heimsækja mömmu og Ásgrím. Hann greindist með magakrabbamein núna í haust og hafði legið á sjúkrahúsi frá miðjum desember. Ég hafði ekkert getað heimsótt hann sökum vinnu, en ákvað svo að drífa mig þegar við vorum búnar í vörutalningunni, og var mjög fegin að hafa gert það, því hann lést fimm dögum síðar. 

Jákvæðir hlutir eru líka að gerast. Hrefna er að klára læknisfræðina og mun útskrifast þann 31. janúar. Þá förum við Valur út til Köben og verðum viðstödd útskriftina. Verst bara að ég næ eiginlega ekki að hlakka til því höfuðið á mér er svo fullt af vinnutengdum hugsunum þessa dagana. En já sem sagt, við notum mánudag og þriðjudag til að tæma búðina, á miðvikudag förum við Valur suður, fljúgum út á fimmtudag og svo er útskriftin á föstudeginum.

Þann sama dag verður Ásgrímur jarðsunginn og það er leiðinlegt að geta ekki verið við jarðarförina, en systkini mín koma bæði, svo það er þó bót í máli.



miðvikudagur, 8. janúar 2014

Ljósmynd dagsins


Ég hef örugglega skrifað um það hérna áður hvað mér finnst notalegt að rölta um í kirkjugarðinum, og þá sérstaklega eldri hlutanum. Hann er grónari og ótrúlega mikill sjarmi yfir gömlu leiðunum og trjánum. Í dag skrapp ég í Bónus að kaupa í matinn og greip myndavélina með mér, já og þrífótinn. Svo var stóra spurningin hvert ég ætti að fara til að taka myndir og þá kom kirkjugarðurinn upp í hugann. Þar dundaði ég mér í nærri hálftíma með myndavélina og náði að slaka svo ljómandi vel á. Sem var einmitt það sem ég þurfti á að halda.

Annars er ég enn að jafna mig eftir þennan tanndrátt, var stokkbólgin þegar ég vaknaði í morgun, og þarf að gúffa í mig verkjatöflur á ca. þriggja tíma fresti. Vonandi fer þetta nú að lagast, nennessekki ...

mánudagur, 6. janúar 2014

Bókhald, tanndráttur, ljósmyndadagbók ofl.


Er þetta ekki gríðarlega spennandi fyrirsögn? Hehe eða þannig ... Jæja hún er að minnsta kosti lýsandi fyrir það sem er í gangi hjá mér í dag. Ég er byrjuð að vinna á fullu í bókhaldinu sem á að vera tilbúið 5. febrúar, og þarf helst að vera búin að klára löngu fyrir þann tíma. Við Valur förum nefnilega til Danmerkur um mánaðamótin, til að vera viðstödd þegar Hrefna útskrifast úr læknadeildinni, og þá þarf þetta að vera klárt. Þannig að fyrir utan venjulega vinnu í búðinni á laugardaginn, þá fór helgin að mestu leyti í bókhaldsvinnu hjá mér og ég er langt komin með þá reikninga sem ég var komin með hingað heim. En svo kom Sunna áðan með risastóran bunka í viðbót ... svo þetta er ekki búið enn. Enda langmestu vörukaupin á árinu sem eiga sér stað í nóvember og desember.

Í morgun var ég svo hjá tannlækni og eins ömurlegt og það nú er, þá þurfti að draga úr mér jaxl. Sá hinn sami var að plaga mig í byrjun desember og það var víst bara tímaspursmál hvenær hann yrði aftur ómögulegur, svo það eina sem hægt var að gera í stöðunni var að fjarlægja hann. Það byrjaði nú reyndar ekki vel, því hluti af deyfingunni rann ofan í hálsinn á mér og ég fékk hrikalega óþægilega tilfinningu í hálsinn í kjölfarið. Fannst ég ekki geta kyngt og fékk hálfgerða köfnunartilfinningu. En það varði nú sem betur fer bara stutt. Jaxlinn var ekki á því að gefast upp baráttulaust, svo þetta tók tímann sinn, en heim var ég komin ca. einum og hálfum tíma síðar. Var sem betur fer búin að redda mér fríi í vinnunni í dag, enda hef ég verið hálf lurkum lamin einhvern veginn, og með verki ef ég fæ vökva eða kalt loft í sárið.

Annars eru kannski einhverjir sem muna eftir því að árið 2012 byrjaði ég að halda daglega ljósmyndadagbók í forriti sem heitir blipfoto.com. Það gekk út á að taka eina ljósmynd á dag og setja inn á þessa vefsíðu, en myndin verður að vera tekin sama dag og má ekkert svindla á því. Þetta gekk vel hjá mér alveg þar til ég þurrkaði óvart út af korti sem ég hafði tekið myndir á, og átti þá allt í einu ekki mynd fyrir einn dag. Það þurfti ekki meira til, þó mér tækist síðar að endurheimta myndina af kortinu, þá hafði ég ekki tekið mynd næsta dag heldur, og þar með gafst ég upp á að gera þetta daglega. Hef þó sett inn myndir þar svona endrum og sinnum.

Hins vegar er þetta þroskandi og heldur manni við efnið í ljósmynduninni. Þannig að núna þegar nokkrar konur í ljósmyndaklúbbnum mínum ætla í svona 365 daga verkefni, þá er ég að hugsa um að taka þátt. Það eina sem ég veit ekki alveg, er hvort ég á að birta myndirnar hér á blogginu, eða á blipfoto síðunni minni. Til að byrja með hef ég þó gert það, og setti upp tengil á ljósmyndasíðuna efst til hægri hér á blogginu, svona ef einhver vill fylgjast með. En já kannski skipti ég um skoðun og hef myndirnar bara hér inni. Kosturinn við að hafa þær á blippinu er sá að maður neyðist jú til að taka mynd á réttum degi og getur ekki svindlað, en á móti kemur að myndirnar kannski týnast svolítið þar inni. Æ ég veit það ekki ...

Ái, þarna fékk ég mér tesopa og fékk verkjasting þegar volgur vökvinn rann óvart ofan í holuna sem tannsi skyldi eftir. Það var þó gott að klára bara þennan tanndrátt því þá er einu áhyggjuefninu færra.

Og já best að hætta þessu slóri og halda áfram í bókhaldinu. Ég get að vísu ekki unnið í sjálfu kerfinu meðan búðin er opin, en get farið yfir það sem ég er búin að gera og villuleitað.

föstudagur, 3. janúar 2014

Afskaplega óspennandi bloggfærsla ;)

Jæja þá loksins þori ég að blogga aftur ... Hehe, málið er að ég er búin að vera svo þreytt og vildi ekki missa mig í vol og væl hér á blogginu, svo ég ákvað að betra væri bara að þegja þar til líðanin væri betri ;-) Ég er reyndar alveg lúin ennþá en ekki jafn örmagna og ég var.

Annars hafa jólin og áramótin gengið tíðindalítið fyrir sig. Hrefna og Egil komu frá Danmörku 22. des. og Andri kom með þeim norður, og svo kom Freyja kærastan hans Andra 28. des. og var hér um áramótin. Það er alltaf svo notalegt að hafa fólkið sitt heima, þó það séu líka viðbrigði að vera sjö fullorðin í húsinu, í staðinn fyrir þrjú. En allt tekur enda, og í dag fór svo öll hersingin aftur suður á bóginn.

Hm já ég byrjaði sem sagt að skrifa þetta í gær, þegar ég kom inn úr dyrunum eftir smá ljósmyndatilraunir úti í ljósaskiptunum, og var þá svona líka hress. Svo hætti ég eftir tvær setningar og þegar ég ætlaði að halda áfram núna í dag, þar sem frá var horfið, þá var ég bara svo andlaus eitthvað ... og mér dettur ekkert skemmtilegt í hug að segja. Svo ég læt þetta bara gott heita. Hlýt að koma með betra blogg bráðlega.



En svona í lokin, þá er hér mynd af Andra, Hrefnu, Egil og Ísaki, tekin á aðfangadagskvöld.