Verst finnst mér eiginlega að allur jólaundirbúningur lendir á Val og hann verður svo mikið einn í þessu þegar ég er alltaf annað hvort að vinna eða í þreytukasti hér heima. Jólagjafainnkaup lenda alveg útundan og mér sýnist að engin jólakort verði send í ár, frekar en í fyrra. Valur hjálpar nú reyndar ekki til, með því að neita að skrifa Vinaminnisannál. Hann segir að enginn sakni þess að fá ekki annál, en ég er nú ekki viss um að það sé rétt hjá honum. Mér finnst sjálfri gaman að fá jólakort og lesa þau eftir að hafa tekið upp pakkana á aðfangadag. Þannig að mér finnst hálf öfugsnúið að senda þá ekki frá mér kort handa öðrum að lesa.
Í gærkvöldi var fundur hjá ljósmyndaklúbbnum og ég fór, þrátt fyrir að hafa varla staðið upprétt fyrir þreytu. Ég þurfti auðvitað ekki að standa þar, heldur sitja, en mér fannst ég bara bulla tóma vitleysu og fór frekar snemma heim af því ég var að hugsa um að ég yrði að reyna að ná góðum nætursvefni. En þetta er frábær hópur og það hefði verið gaman að stoppa lengur.
Nú læt ég þessum Vælu-Veinólínu pistli lokið. Búin að fá útrás og get farið að koma mér í sturtu og svo vinnuna kl. 10. Æ já, ég á víst eftir að gera grænan drykk handa mér í nesti líka. En hér á mynd má sjá hvaða dásamlega fallegu veitingar voru reiddar fram í ljósmyndaklúbbnum í gær. Agnes er algjör snillingur að búa til svona vel útlítandi kökur og mat.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli