laugardagur, 3. desember 2011

Tónleikar á eftir

Við Valur erum að fara á tónleika á eftir og hlökkum bæði til. Það eru Víkingur Heiðar á píanó og Kristinn Sigmundsson sem syngur Vetrarferðina eftir Schubert. Ég er enginn besserwisser þegar kemur að tónlist, heldur hef bara gaman af að hlusta á eitthvað fallegt.

Í gær var ég að vinna til að verða fjögur og ætlaði þá bæði á pósthús og í banka, en hætti við hvoru tveggja sökum langra biðraða á báðum stöðum. Þá fór ég í staðinn á Flytjanda og sótti mottur sem við höfðum pantað (óséðar) frá Ikea. Svo brunaði ég í Purity Herbs þar sem var fyrirtækjaheimsókn fyrir FKA konur. FKA stendur fyrir Félag Kvenna í Atvinnurekstri og ég var að reyna að sýna smá lit með því að mæta, því ég hef ekki mætt á hina tvo viðburði haustsins. Það var fróðlegt að heyra Ástu segja frá fyrirtækinu og svo fengum við að skoða húsakynnin. Eftir að hafa verið með fyrirtækið í of litlu húsnæði í 17 ár eru þau nýlega búin að stækka við sig. Ásta sagði okkur frá því að í góðærinu hefðu menn frá bönkunum komið að máli við sig hvað eftir annað og boðið henni að taka lán til að kaupa stærra húsnæði. Þegar hún hafði neitað, spurðu þeir hvort hún vildi ekki þá ekki alla vega taka neyslulán, fá peninga til að ferðast, kaupa sér húsgögn og föt, því hún væri jú með svo góð veð! Fáránlegt í einu orði sagt.

Í gærkvöldi var ég satt best að segja nánast rænulaus sökum þreytu og varð því kannski fyrir enn meiri vonbrigðum en ella, þegar Valur tók mottuna sem fara átti í stofuna, úr umbúðunum. Mottan var allt öðruvísi á litinn en ég hafði ályktað út frá ljósmyndinni á netinu. Þar virtist hún vera grábrún, einlit, en í raun er hún dröfnótt, eða yrjótt, brún og hvít. Það er að segja, sumir þræðir eru alveg brúnir og sumir alveg hvítir. Ég skil ekki alveg hvernig þeim tókst að taka ljósmynd sem sýnir mottuna sem einlita. En  ég hafði reyndar hugsað mér að mála (láta þrælinn mála) endaveggina í stofunni í grábrúnum lit og kannski verður í lagi með mottuna þegar búið er að mála... Úff, best að sofa á þessu mottumáli aðeins lengur. Ég er líka oft lengi að venjast breytingum, finnst sumt ljótt í fyrstu en verð svo hæstánægð með það.

Svo var ég farin í háttinn klukkan tíu eða um það bil, og svaf til hálf níu í morgun. Gott að geta sofið þegar maður er þreyttur! Í morgun fór ég að vinna klukkan tíu og vann til rúmlega tólf. Þetta er í raun ekki mín vinnuhelgi en sem sagt, sem verslunareigandi þá þýðir nú lítið að væla um það, hehe. Það var samt notalegt í vinnunni því það var rólegt og ég var að dunda mér við að þurrka af ryk, fylla á vörur, raða reikningum í möppu og svoleiðis. Svo voru nú leikar að æsast þegar ég fór og mig grunar að þær Silja og Sunna fái nóg að gera í dag.


2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já við Silja unnum allveg fyrir kaupinu okkar í dag ;-)
kv
Sunna

Guðný Pálína sagði...

Já ég sá það á söluuppgjörinu... Greinilega mikið fjör og gaman að því.