þriðjudagur, 22. nóvember 2011

Greitt úr óreiðu í búrinu

Við búum svo vel að vera í húsi þar sem er búr inn af eldhúsinu. Það er afskaplega þægilegt og stutt að fara í frystikistuna og sækja matvörur. Þar inni er líka endurvinnslu-miðstöðin, eða plastkassar sem safnað er í pappír, hörðu plasti, áldósum, gleri, flöskum og mjúku plasti. Endurvinnsludæmið tekur nú sitt pláss og það gera matvörurnar líka því Valur á það til að kaupa mjög hraustlega inn af niðursuðu- og pakkavöru þegar hann fer í Bónus.

Þurrkofninn er svipaður á stærð og örbylgjuofn og einhvers staðar þurfti að koma honum fyrir. Til að byrja með settum við hann þar sem örbylgjuofninn var áður en þá komst ég að því að ég þoli illa að hlusta á hljóðið í honum langtímum saman. Það liggur jú í hlutarins eðli að ef þurrka á matvöru við rúmlega 40 gráðu hita þá getur það tekið óratíma, allt eftir því hvað verið er að þurrka. Viftan er í gangi allan tímann og ofninn er allur mjög opinn (ekki hljóðeinangraður).  Lausnin varð að færa þurrkofninn inn í búr og örbylgjuofninn tilbaka á sinn stað. En til þess að það mætti verða, þurfti frú Guðný að laga til í búrinu og losa tvær troðfullar hillur. Svoleiðis vinna finnst mér reyndar alls ekki leiðinleg því hún krefst smá hugmyndaauðgi. En það var nú samt smá flókið og sumum hlutum þarf að finna nýjan samastað s.s. límbyssu, slatta af mósaíkflísum og kassa sem inniheldur fjársjóði úr fjörunni. Þessir hlutir tilheyrðu föndurtímabilinu í lífi mínu, sem ég gekk í gegnum fyrir margt löngu, þegar Ísak var lítill. Svei mér þá ef það örlaði ekki á smá löngun til að fara að föndra aftur þegar ég handlék þessa hluti. 

Í búrinu fann ég líka gamla mynd sem ég átti sem krakki. Þetta er klassísk mynd af lítilli stúlku að ganga yfir mjóa trébrú. Stúlkan er í rauðu pilsi, hvítri stuttermablússu og brúnleitu vesti. Á handleggnum hefur hún tágakörfu en í hinni hendinni heldur hún á blómi. Undir brúnni er beljandi stórfljót en stúlkan er örugg því yfir henni vakir fallegur engill. Engillinn er kvenkyns, með sítt ljóst hár og í fallegum bláum kjól. Já og með vængi að sjálfsögðu. Úti er dimmt en birtu stafar af englinum og lýsir hún stúlkunni leið. Þetta er voða falleg mynd og hefur kostað 105 krónur en það er skrifað með blýanti aftaná gráan grófan pappírinn á bakhliðinni. Minnið svíkur mig hins vegar þegar kemur að því að vita hver gaf mér myndina og hvenær. Einhverra hluta vegna finnst mér eins og þetta hafi verið gjöf frá Rósu vinkonu en það gæti allt eins verið vitleysa. 

Í búrinu fann ég líka gamla tréskál. Var hún kannski gjöf frá Rósu? Eða var hún frá Önnu systur? En skálin er mjög létt, gæti verið úr bambus m.v. þyngd, gyllt á litinn með máluðu blómamunstri. Efst er rauðbrún rönd en botninn er svartur. Úff, stundum vildi ég óska að ég hefði betra minni. Skil ekki af hverju ég man ekki svona einfalda hluti. 

P.S. Fyrsti baksturinn í ofninum gekk nú ekkert alltof vel. Ég hafði kökurnar of þunnar og það er of mikið bragð af ólífuolíu af þeim. Geri aðra tilraun von bráðar. 

2 ummæli:

ella sagði...

Heyrðu sko, mér "heyrast" þetta vera hlutir sem eiga alls ekki heima í geymslu. Skoðaðu bara dótabloggin.

Guðný Pálína sagði...

Hehe, já þú hefur svo sannarlega rétt fyrir þér :) Enda er bæði myndin og skálin komin hérna á skrifborðið mitt :)