sunnudagur, 6. nóvember 2011

Healing crisis

er faglega heitið á því sem er að plaga mig þessa dagana. Ég pantaði mér um daginn bók um hráfæði sem ég hlóð niður af netinu og hef verið að lesa hana smám saman. Í gær rakst ég á kafla þar sem fjallað er um það sem gerist þegar líkaminn fer að afeitrast og í viðbót við líkamleg einkenni s.s. höfuðverk, útbrot ofl. þá nefnir hann að maður geti upplifað þetta sem kallað er "healing crisis" en þá geta líkamleg og andleg vandamál úr fortíðinni (sem hafa verið djúpt grafin) komið uppá yfirborðið að nýju. Þetta sé eðlilegur hluti ferlisins og maður þarf sem sagt bara að þreyja þorrann, því þetta líður hjá.  Mér finnst þetta allt hljóma hálf fáránlega, en sannleikurinn er sá að eins og mér hefur liðið andlega undanfarið þá líkist það mest hvernig mér leið andlega í kringum tvítugt. En sem sagt, þá er mikilvægt að halda sínu striki og það ætla ég líka að gera.

Af veikum mætti hef ég reynt að sannfæra sjálfa  mig um að sjúkdómsástand sem hefur tekið mörg ár að þróast, lagast ekki á fáeinum vikum. Þar sem þolinmæði er ekki mín sterka hlið, þá vil ég jú helst sjá árangur nánast strax. En í gær fékk ég póst á facebook frá konu sem ég er með í ljósmyndaklúbbnum og það sem hún skrifaði sannfærði mig enn frekar um að ég verð að vera þolinmóð. Þannig var að við Álfkonur erum með lokaða síðu á facebook þar sem við getum haft samskipti án þess að aðrir sjái. Þar inn setti ég þann "status" að ég væri búin að týna ljósmynda-mojo-inu mínu. Já já, sletti ensku eins og mér sé borgað fyrir það. Þetta bara hljómaði meira "kúl" heldur en að segjast vera búin að missa áhugann á ljósmyndun. En áhugi er ekki alveg rétta orðið heldur. Það sem ég er búin að missa er þessi óþreyja, þessi tilfinning innra með mér að nú verði ég að komast út með myndavélina. Jæja, nema hvað, ég fékk nokkur góð ráð frá þeim hinum s.s. að mæta á fundi (búin að sleppa tveimur síðustu af því ég var svo þreytt), og prófa að mynda eitthvað nýtt / gera tilraunir. En svo fékk ég sem sagt þennan einkapóst frá einni sem líka glímir við mataróþol og hefur sleppt mjólk og glúteini úr fæðunni síðustu 12 árin. Það var ekki fyrr en hálfu ári eftir að hún breytti mataræðinu, að hún fann mikla breytinu á sér og síðan hefur henni varla orðið misdægurt. Hún reyndar lýsti því mjög skáldlega hvernig lokahnykkurinn var, en þá var hún stödd í kirkju og fannst allt í einu eins og hún væri að klæða sig úr gamalli kápu og fann þennan gríðarlega létti.

Í ljósi alls þessa, þá þarf ég að:
- Halda mínu striki með mataræðið 
- Hafa trú á að þetta skili mér betri heilsu 
- Temja mér meiri þolinmæði
- Reyna að halda haus þegar þegar ég fæ þreytuköstin mín, í stað þess að missa móðinn






Engin ummæli: