fimmtudagur, 6. október 2011

Það er til ráð við öllu nema ráðaleysi

Þessi setning sem faðir minn sagði ósjaldan, ómaði í höfðinu á mér áðan. Þannig er mál með vexti að ljósmyndaklúbburinn minn er að fara í ferð í Mývatnssveit um helgina og þær sem vilja geta gist í tvær nætur. Mig langar að fara á föstudeginum (hm, á morgun, þetta er alveg að skella á) og er búin að semja við Andra um að vinna fyrir mig á laugardaginn, þar sem þetta hitti á vinnuhelgi hjá mér. So far so good!

En þá komum við að þessu með matinn... Í ljósi kringumstæðna þá sýnist mér að ég þurfi að nesta mig í ferðina, því ekki er hægt að búast við glútein, eggja, mjólkur og gerlausu fæði ef hópurinn tekur sig saman og eldar t.d. kvöldmat á föstudeginum. Og í augnablikinu er ég eitthvað hálf ráðalaus / andlaus í þessu máli. Ég var reyndar að búa mér til þetta fína kjúklingasoð í gærkvöldi og gæti skellt í það grænmeti og niðurskornum kjúklingi og gert súpu. Þá er komin ein máltíð. Varðandi morgunmatinn þá hef ég verið að steikja beikon og hvítkál / gulrætur / tómata / spínat á pönnu og gúffa því í mig, en undanfarna morgna hefur þessi matur verið að fara eitthvað verr í mig en hann gerði í byrjun. Múslíið sem ég gerði fer ekkert alltof vel í mig heldur... Þannig að ætli ég verði ekki bara að græja sem mest af salati áður en ég fer. Gæti kannski soðið lax líka til að hafa í salati. Æ já já, þetta reddast allt saman!

2 ummæli:

Hadda sagði...

Máttu ekki borða egg?
En hveitikím?
Ávexti?

Guðný Pálína sagði...

Nei ekki egg, er víst með mjög mikið óþol fyrir þeim. Mér finnst það reyndar pínu merkilegt, því ég borðaði ómælt magn af eggjum og fann ekki sjálf að þau færu illa í mig. En óþol virkar jú þannig að einkennin koma kannski ekki fram fyrir en eftir allt að tvo daga, svo það er kannski ekki skrítið þó maður átti sig ekki alltaf á orsakasamhenginu.

Hef ekki spáð í hveitikím, en held að það sé kannski glútein í því. Og hvað ávextina snertir... Þá er ég að reyna að borða sem allra minnst af kolvetnum og sleppi því flestum ávöxtum. Takk samt fyrir hjálpina :)