Mér líður eins og ég sé að öðlast nýtt líf (eða endurheimta það gamla) og það er alveg dásamleg tilfinning. Í morgun t.d. ryksugaði ég eldhúsið og forstofuna, þreif skápinn undir vaskinum í eldhúsinu vel og rækilega, fór í gegnum flöskur og flokkaði í endurvinnsluna, gekk frá mjólkurfernum, áldósum og gleri (líka fyrir endurvinnsluna), þreif kattaklósettið og fór í sturtu. Hljómar kannski ekki svo mikið en fyrir mér er þetta afrek. Hér áður fyrr hefði ég verið alveg búin á því bara eftir að ryksuga. Vissulega var ég orðin lúin eftir allt þetta, en munurinn er sá að nú næ ég að safna mér saman aftur með því að hvíla mig. Áður var ég bara endalaust úrvinda, alveg sama hvað ég hvíldi mig.
Þær breytingar sem ég hef gert eru í tengslum við mataræðið og svo hef ég tvisvar fengið B12 vítamínsprautu, eins og læknirinn í Noregi lagði fyrir um. Ég er ekki enn byrjuð á neinum af þeim bætiefnum sem hún ráðlagði því fæst þeirra fást á Íslandi. Það eina sem fæst hér er Ginkgo Biloba og það ráðlagði hún við heilaþokunni, en ég er bara svo miklu betri af henni, að ég veit ekki hvort það er þörf á að taka það.
Hin efnin eru Inte-zyme (meltingarensím), Immunothione (örvar ónæmiskerfið), Auralife (sem er reyndar bara fjölvítamín en samansett á ákveðinn hátt), Caprystatin (sem á að vinna gegn sveppasýkingunni í þörmunum) og Livertone (á að styrkja lifrina). Ætli ég verði ekki að hafa samband við lækninn í næstu viku og láta reyna á það hvort ég geti fengið þetta sent frá Noregi. Það er um að gera að nýta sér þessi efni ef hún telur að þetta geri mér gott.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli