sunnudagur, 18. desember 2011

Tvö hjól undir bílnum...

Já, gamla er eitthvað farin að slappast, en held þó haus ennþá. Það er nóg að gera í búðinni, sem er mjög jákvætt. Og skiptir ábyggilega miklu máli að við eigendurnir séum á staðnum, því þótt við séum með harðduglegt fólk í vinnu, þá eru hlutir sem bara við vitum, plús það munar um hvern og einn í vinnu þegar búðin er full af fólki. Hver viðskiptavinur sem labbar út af því hann fær ekki afgreiðslu fljótt og vel skiptir jú miklu máli. Þó það sé bara einn kassi/posi þá munar um að hafa manneskju til að setja í pokana því það flýtir fyrir, og svo geta hinir verið að aðstoða viðskiptavini sem eru að leita að ákveðnum hlut eða vantar upplýsingar.

Ég var eiginlega skrifuð í frí í gær en hafði það alltaf bak við eyrað að ég myndi þurfa að vinna, svona út frá því hvernig laugardagurinn um síðustu helgi var. Þá vorum við þrjú en á vissum tímapunkti óskaði ég þess að við værum fjögur. Þannig að ég fór í vinnuna sem fjórða manneskja í gær og var í ca. 3 tíma. Sem voru afar fljótir að líða því það var svo mikið að gera. Svo var ég náttúrulega ósköp lúin í gærkvöldi og áfram í morgun. En það jákvæða er að ég gat sofið í nótt. Tja, þegar ég var sofnuð, en það var nú ekki fyrr en um tvöleytið.

Svo hef ég ekki gert neitt annað en slaka á í morgun en þarf núna að fara að bretta uppá ermar, því ég er að fara að vinna á eftir. Ætlaði eiginlega að mæta um hálf eitt til að byrja að fylla á vörur og svoleiðis, en miðað við hvað klukkan er orðin þá er ég ekki alveg að sjá það fyrir mér...

En ég er nú búin að taka mynd dagsins fyrir ljósmynda-dagbókina mína svo það er nú ágætt. Svo hefði mig langað að labba einn hring í hverfinu, fara í sturtu, setja í þvottavél og borða. En miðað við tímann sem er aflögu er spurning hvað af þessu verður útundan.

Valur er í geymslunni niðri (nei ég er ekki búin að koma honum fyrir þar endanlega) að setja upp nýjar hillur. Það verður gaman að fá þær í notkun og geta farið að fylla þær af öllu dótinu sem safnast alltaf upp hjá manni ;-)


Engin ummæli: