Já, það er hálf skrítin tilfinning hjá mér núna. Eftir að hafa komist í gegnum desemberannríkið í búðinni, þar sem jólin voru endapunkturinn, þá varð bara algjört spennufall. Ég var í raun frekar hress á aðfangadag... Að minnsta kosti um kvöldið var ég í góðu lagi. Svo á jóladag var ég ennþá nokkuð hress en naut þess þó í botn að hafa löglega afsökun fyrir því að slappa af mestallan daginn. Við Valur skruppum reyndar aðeins út, til að ég gæti prófað nýju linsuna sem hann gaf mér í jólagjöf. Það gekk svona þokkalega, ég þarf að átta mig betur á því hvernig hún virkar, því maður þarf að huga extra vel að forgrunni og víðara umhverfi en maður er vanur. Í gær var ég svo ennþá þreyttari en hina tvo dagana, sennilega vegna þess að ég er hætt að "keyra mig áfram" með góðu eða illu, eins og ég gerði í jólaösinni. Ástandið á mér í gær var frekar dapurt og eins og venjulega þegar ég verð mjög líkamlega þreytt, þá hefur það áhrif á andlegu hliðina. En nú finnst mér eins og ég sé örlítið skárri í dag, og gott að geta hvílt sig aðeins lengur, því Torfi ætlar að vinna fyrir mig í dag og þá get ég leyft mér að taka því rólega einn dag enn.
Hér koma svo nokkrar myndir. Fyrst ein af þeim systkinum við matarborðið á aðfangadagskvöld.
Og svo ein af gamla settinu. Valur með svuntu sem Hrefna gaf honum einu sinni og á stendur "Verdens bedste kokk". Já og hálstauið er gömul slaufa sem ég hjálpaði honum að grafa fram, því nú eru slaufur komnar í tísku aftur. Þessi er ca. 26 ára gömul.
Loks er ein mynd úr fjörunni norðan við Slippinn, rétt hjá ósum Glerár. Hún er tekin með nýju linsunni. Ekki kannski fallegasta mynd sem ég hef tekið. En sýnir vel hversu víð linsan er, því það sem er beint fyrir framan fæturnar á manni kemur jú t.d. með á myndina, þó maður beini myndavélinni ekki beinlínis þangað.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli