sunnudagur, 30. desember 2012

Hvert skal halda?


Um áramót staldrar fólk stundum við og veltir fyrir sér fortíð og framtíð. Hvaða leið á að velja á nýju ári o.s.frv. Ég hef nú ekki verið ein af þeim sem hef gert mikið úr áramótum og oftar en ekki bara göslast áfram án þess að velta áramótum mikið fyrir mér. Nú ber hins vegar svo við að ég er að spá og spekúlera í ýmis mál, án þess þó að ég vænti þess að fá nokkra ákveðna niðurstöðu á næstunni.

Vissar breytingar eru þó framundan hjá okkur, en þær felast einkum í því að Valur er búinn að segja upp vinnunni á FSA. Hann var orðinn ofboðslega þreyttur á að vinna vaktavinnu og kominn tími til að gera breytingar. Hugsanlega mun hann þó vinna þar eitthvað áfram en með öðru sniði en hingað til.

Hvað sjálfa mig snertir verð ég að viðurkenna að í kjölfar nýafstaðinnar jólatarnar í vinnunni, velti ég því æ oftar fyrir mér, hvernig ég geti náð að samræma betur vinnu og vefjagigt. Það hugsanaferli fór reyndar af stað þegar ég var á Kristnesi s.l. vor og sér ekki fyrir endann á því, enda engin einföld lausn í sjónmáli. En já já, koma tímar og koma ráð ;-)

Það væri alveg eftir mér að blogga aftur á morgun, en ef ekki þá óska ég bara lesendum þessarar síðu gleðilegs nýs árs og vona að nýja árið verði ykkur gæfuríkt.

miðvikudagur, 26. desember 2012

Annar í jólum - afslöppun er þema dagsins...

... og þema gærdagsins. Samviskubit lætur á sér kræla - ég verð jú að GERA eitthvað. En nei ég verð ekki að gera neitt. Nú má ég bara hvíla mig. Hvíld er góð. Ég hef sofið tíu tíma núna tvær nætur í röð + tekið lúr í sófanum að degi til. Þvegið þvott og lesið bækur.

Í gær las ég Undantekninguna eftir Auði Övu Ólafsdóttur. Reyndi að treina mér hana. Les yfirleitt bækur í einum rykk en tókst að skipta henni niður í nokkra áfanga. Kláraði samt í gærkvöldi og varð hissa þegar bókin var búin. Hafði ekki áttað mig á því að það nálgaðist bókarlok og svo endaði hún í raun ekki. Það pirrar mig þegar bækur og kvikmyndir enda ekki. Það er að segja, allt í einu hættir frásagan bara og engin ákveðin lokaniðurstaða verður í tengslum við þau mál sem hvíla á sögupersónunni. En um leið er jú bók sem ekki endar, á vissan hátt meira í takt við lífið sjálft. O jæja.

Í gær og í dag gluggaði ég líka í bók um ljósmyndun, sem Hrefna gaf okkur Val í jólagjöf. Eins skoðaði ég bók sem Valur gaf mér í jólagjöf. Það er bók með myndum eftir barnapíuna og áhugaljósmyndarann Vivian Meier sem tók ógrynni af götu- og mannlífsljósmyndum meðan hún lifði, en sýndi engum myndirnar sínar. Það var ekki fyrr en eftir dauða hennar að maður að nafni John Maloof keypti kassa með filmum og myndum hennar á uppboði, og uppgötvaði hversu frábær ljósmyndari hún hafði verið.

Enn ein bókin sem ég hef aðeins kíkt í er Suðurglugginn eftir Gyrði Elíasson en hún var gjöf frá mér til Vals. Sem sagt, engin ástæða til að láta sér leiðast þrátt fyrir eilífðarafslöppun dagsins í dag og gærdagsins. Í gær drattaðist ég nú reyndar út að ganga einn lítinn hring í hverfinu en því var ekki að heilsa í dag. En svo er víst vinnudagur á morgun. Úff! Get ekki sagt að ég sé tilbúin til að fara að vinna aftur eftir þessa miklu törn en svo er samt ábyggilega líka gott að fara aðeins út úr húsi.

Annars áttum við hið besta aðfangadagskvöld. Valur eldaði tvíréttað (hamborgarahrygg og hangikjöt) og allir voru mjög afslappaðir en jafnframt hressir og kátir. Hér koma nokkrar myndir, bara svona til að sýna fjarstöddum ættingjum hvernig við lítum út ;-) Valur tók allar myndirnar (nema þær sem sýna hann sjálfan...) bara svo það sé nú alveg á hreinu.


Það eru nokkrir pottar sem þarf að nota þegar eldað er tvíréttað.


Hrefna lagði á borð og skreytti svona fallega. Mig langar að mála endavegginn í hlýjum gráum lit, en hef ekki ennþá komið því í verk að velja litinn.


Hrefna og Andri að bíða eftir því að borðhaldið hefjist. Ísak hljóp fram að sækja eitthvað.


Gamla sjálf, með blómkáls- og kasjúhnetu"mús" í skál. Hin fengu hefðbundna heimatilbúna kartöflustöppu, nammi namm, sem ég má víst ekki borða.


Ísak kominn að borðinu og allir tilbúnir að byrja að borða - nema ljósmyndarinn sem þurfti að smella af fleiri myndum ...


 ... og vera sjálfur með á mynd líka. Ennþá með sparisvuntuna á sér, sem Anna systir saumaði og gaf honum í jólagjöf fyrir löngu síðan.



Hér erum við búin að borða, og líklega búin að opna pakkana líka, en Ísak sótti Birtu til að hún fengi að vera aðeins með í partýinu. Og fær þar af leiðandi líka að vera með í þessari myndasyrpu.

P.S. Ég passaði mig sérstaklega að birta bara myndir af mér sem teknar voru fyrripart kvölds, á meðan ég hélt ennþá haus, hehe ;) Var orðin heldur sjoppuleg og þreytt þegar leið á kvöldið.

laugardagur, 22. desember 2012

Stund milli stríða


Mér tókst ekki að halda út ... hér kemur "Mikil vinna - mikil þreyta - mikið samviskubit yfir að gera ekkert heima" bloggfærsla. Skal samt reyna að vera ekki alltof leiðinleg...

En sem sagt, desember hefur flogið áfram og ýmissa hluta vegna þá hefur hann verið ennþá strembnari en venjulega. Ég hef að sjálfsögðu verið að vinna mikið, og þrátt fyrir að hafa reynt að skipuleggja frídaga inn í vinnuáætlunina, þá hefur gengið fremur illa að framfylgja þeirri áætlun.

Sjúkraþjálfarinn minn frá Kristnesi  kom í búðina á fimmtudagskvöldið þegar ég var að vinna, og ég sá það á henni að henni leist nú ekkert alltof vel á fyrrverandi sjúkling sinn. Eftir að hafa yfirheyrt mig um það hversu mikið ég væri að vinna, spurði hún "Og ætlar þú þá að vera fram á sumar að jafna þig?" Ég reyndi að klóra í bakkann og sagði" Tja vonandi ekki alveg svo lengi" en líklega hefur svar mitt ekki verið ýkja sannfærandi, svona miðað við þá staðreynd að ég var jú einmitt fram á sumar að ná mér eftir síðustu jólatörn. Enda sá ég það alveg á svipnum á henni. En sem verslunareigandi þá er ekki hægt að halda sig á hliðarlínunni í jólatörninni, það er bara ekki í boði.

Annars gengur lífið sinn vanagang. Hrefna og Andri eru bæði komin heim í jólafrí og það er ósköp notalegt að hafa þau heima. Ísak er einnig kominn í jólafrí, Birta gamla heldur áfram að gleðja okkur með nærveru sinni, og Valur undirbýr jólin. Það er ekki ofsögum sagt, því ég geri bókstaflega ekkert hér á heimlinu sem telst til jólaundirbúnings.

Ég hef ekkert komist út að taka myndir undanfarið en tók myndina sem fylgir einn morguninn í síðustu viku. Þá komu nokkrir dagar í röð með svo ótrúlega fallegri morgun- og dagsbirtu, sem ég náði því miður ekki að fanga "á filmu". Stökk samt út á stétt einn morguninn og smellti þessari af fjólublárri dögun.

föstudagur, 14. desember 2012

Ertu bara alveg hætt að mæta í sund

eftir að þú misstir gluggann og Krúsa?
- Ha?
- Ertu bara alveg hætt að mæta í sund eftir að þú misstir gluggann og Krúsa?
- Ha? ....... U ....... Hvað áttu við?
- Hm, er ég að taka feil? Varst þú ekki alltaf í sundi einu sinni?
- U.. jú ... en hvaða glugga ertu að tala um?
- Já, voruð þið ekki alltaf að hanga í glugganum og tala við Krúsa?
........................ ( ég að hugsa ............... ) ..................
- Ó, þú meinar .. já nú skil ég hvað þú átt við, hehe ;-) Jú jú, alveg rétt hjá þér, við vorum stundum í glugganum. .......... En annars er ég ekkert hætt að fara í sund, var síðast í sundi í morgun.
- Já OK, ég fer alltaf á kvöldin, þess vegna hélt ég að þú værir hætt að mæta.
- Nei, nei, hef aldrei hætt því, tja nema meðan ég bjó í Noregi. Breytti bara um tímasetningu, finnst frábært að byrja daginn á því að fara í sund :-)
------------------------------------------------------------------------------------------

Ég átti nánast þessar orðréttu samræður við mann sem kom í Potta og prik fyrir ekki svo löngu síðan. Vá hvað ég var ekki fyrst að fatta hvað hann átti við með gluggann og Krúsa ...

En svo ég útskýri málið, þá var það þannig, að þegar ég var unglingur þá var ég sem sagt alltaf í sundi. Á tímabili æfði ég sund en það var nú ekki lengi, í mesta lagi tvo vetur held ég. Þegar ég hætti að æfa hélt ég áfram að mæta í laugina að kvöldi til. Á þeim tíma var sundlaugin hálfgerð félagsmiðstöð og þá voru jú engar tölvur og bara ríkissjónvarpið, svo afþreying var af skornum skammti, miðað við nú á dögum. Í sundið mætti ákveðinn kjarni unglinga sem héngu í heita pottinum, spjölluðu, hlustuðu á Lög unga fólksins, döðruðu pínu pons, já og bara nutu þess að hittast á hlutlausum stað og njóta samvista hvert við annað.

Þegar ég var svona ca. 13 ára þá var það þannig að eldri krakkarnir, þessi sem voru svona 15-17 ára, voru stundum að "hanga" inni hjá sundlaugarvörðunum. Aðstaðan sem þeir höfðu á þeim tíma var frekar bágborin, og eftirlitið fór fram í litlu herbergi með stórum glugga, þar sem útsýni yfir laugina var gott, og einnig var utangengt. Það þótti talsvert sport að fá að "hanga" í þessu litla herbergi og spjalla við sundlaugarverðina. Mér fannst dálítið eftirsóknarvert að komast þarna inn, því þannig sæu allir að ég væri "maður með mönnum".  Þegar ég varð eldri fór ég því að "laumast" inn í herbergi sundlaugarvarðanna, því þar var jú "aðal fólkið". Þar var jafnvel hægt að fá að sitja í gluggakistunni ef ég man rétt og horfa út í laugina og heita pottinn, og þá sáu náttúrulega allir sem í lauginni voru (og horfðu yfirhöfuð í rétta átt) að þessi stelpa var nógu mikið í náðinni til að fá að vera í glugganum.

Já ég veit, frekar fyndið svona í endurminningunni, en á þessum tíma var þetta fúlasta alvara. Sundlaugin var sá staður þar sem ég var á heimavelli, öfugt við t.d. skólann og Dynheima (þar sem böllin voru), en þar leið mér eins og belju á svelli.

OK þetta er sem sagt skýringin á glugganum og Krúsi var jú einn sundlaugarvarðanna á þessum tíma, en er löngu hættur að vinna í sundlauginni. Við hittumst nú reyndar enn þann dag í dag stundum í lauginni. Ég að synda og hann að fylgja drengjum í sund, en hann vinnur núna sem húsvörður í skóla og er greinilega stundum fenginn til að fylgja strákum sem þurfa liðveislu.

En já mér fannst ótrúlega fyndið að maðurinn sem kom í búðina til mín skyldi hafa munað eftir mér í glugganum, því í minningunni þá var það nú ekki svo oft sem ég sat þar. En eins og allir vita getur minnið svikið besta fólk :O)

----------------------------------------------------------------------------------------------
Eftirfarandi mynd fann ég inni á facebook síðu sem heitir "Brekkan fyrr og nú" en fólk hefur sett alls kyns myndir þar inn. Þessi hér virðist hafa verið skönnuð úr bók sem heitir "Akureyri: Blómlegur bær í norðri". Bókin er eftir Tómas Inga Olrich og myndirnar tók Max Schmidt. Myndin sýnir sundlaugina nákvæmlega eins og hún var þegar ég var krakki. Í dag er búið að bæta við hana og breyta heilmiklu. En glugginn "frægi" er sem sagt þessi stóri þarna á neðri hæðinni, lengst til vinstri.



þriðjudagur, 11. desember 2012

Nýtt bloggmet?


Hehe, eða þannig ... þetta er víst dæmigert fyrir mig. Annað hvort heyrist ekkert frá mér í langan tíma, eða ég er með ritræpu.

Eftir að hafa bloggað í morgun vann ég aðeins í pappírum, en sá svo að ef ég ætlaði að ná því að skreppa smá myndarúnt fyrir vinnu, yrði ég heldur betur að spýta í lófana. Sem ég og gerði. Skellti mér í gallann (hlífðarbuxur, lopapeysu, dúnúlpu, húfu,vettlinga og kuldaskó) og ók smá spotta fram í fjörð. Þar lagði ég bílnum á góðum stað og gekk niður að Eyjafjarðará, sem var reyndar að mestu leyti hulin ís. En morgunbirtan lýsti upp himininn þó ekki næði sólin upp fyrir fjöllin og það var svo notalegt að standa þarna í smá stund og smella af nokkrum myndum.

Fröken eirðarlaus

Það er eitt stórfurðulegt sem gerist þegar ég er á ákveðnu stigi í þreytukasti. Ég verð svo óskaplega eirðarlaus og hálf pirruð. Eins og t.d. núna. Þarf ekki að fara að vinna fyrr en kl. 14 (tja eða byrja á því að fara rúnt og sækja vörur fyrst) og ætti helst að slaka bara aðeins á, en nei nei, þá er mér það lífsins ómögulegt. Þannig að ... ætli ég drífi mig ekki bara út með myndavélina. Geri minnst af mér þannig ;-)

Annars vorum við að tala um það í leikfiminni í gær (vefjagigtarleikfimi hjá Eydísi Valgarðs sjúkraþjálfara) hvað við ættum það til að halda endalaust áfram, þar til við hrynjum, og skella skollaeyrum við öllum þeim einkennum sem segja okkur að stoppa. Og makarnir þurfa að horfa uppá okkur gera sömu mistökin aftur og aftur, enda margir farnir að skipta sér af og láta í sér heyra. "Ertu viss um að þetta sér góð hugmynd?" "Viltu nú ekki bara láta þetta eiga sig?" Heldurðu að þú ættir nokkuð að gera þetta núna?" Hehe, ég segi nú ekki einu sinni hvaða setningar Valur á það til að nota, hann getur verið býsna ákveðinn, svo ekki sé meira sagt.

Annars eru það jólagjafainnkaup sem eru næst á dagskrá. Á morgun er síðasti dagur til að senda til Norðurlandanna, og síðasti séns að græja þetta í dag. Úff, og ég ekki byrjuð...

mánudagur, 10. desember 2012

Aðeins að leika mér


Það er hægt að gera svo margt með þessum nýju ljósmyndaforritum. Hér tók ég eina mynd sem mér fannst ekki alveg vera að gera sig eins og hún kom "af skepnunni" og setti smá "effekta" á hana (afsakið slettuna, ég man ómögulega íslenska orðið yfir þetta). Ég er ekki vön að vinna myndirnar mínar mikið, eins og þeir vita sem fylgjast með blogginu, en það er allt í lagi að leika sér stundum ;o) Mér finnst þetta bara koma nokkuð skemmtilega út.

sunnudagur, 9. desember 2012

Góð ferð á Svalbarðseyri


Ég var að vinna í dag, en fyrst náði ég því að fara með Val yfir á Svalbarðsströnd í ca. klukkutíma eða ríflega það. Mér finnst alveg ótrúlega gott að fá súrefni og vera við sjóinn, það hefur svo góð áhrif á mig. Tók einhverjar myndir líka en það var nú eiginlega aukaatriði í þessu samhengi. Og þó, gott að geta sameinað útiveru og áhugamál. Eins og sést á þessari mynd þá var ekkert alltof bjart, en það var að birta yfir þegar við þurftum að fara. Vitinn stendur samt alltaf fyrir sínu sem ljósmyndaefni.

laugardagur, 8. desember 2012

Gömul og rispuð plata

Ég var að renna yfir gamlar bloggfærslur sem ég hef skrifað undanfarin ár, í desembermánuði. Þar kom fátt á óvart. Endalaus verkefni í vinnunni, yfirgengileg þreyta, samviskubit yfir því að taka ekki þátt í jólaundirbúningi á heimilinu ... Úff, ég er náttúrulega bara eins og biluð plata. Spurning að láta sér detta eitthvað annað í hug til að blogga um?

16 dagar til jóla



Ég er nú ekki að telja niður af því ég er svo mikið jólabarn... Eiginlega vildi ég óska þess að sumu leyti að það væru fleiri dagar til jóla og að í sólarhringnum væru aðeins fleiri tímar, en því er víst ekki til að dreifa.

Í dag átti ég frí að mestu leyti, nema hvað það sem átti að verða 10 mín. skrepp niður í vinnu varð að einum og hálfum tíma. Það var líka allt í lagi. En svo gerði ég heldur ekki meira í dag. Sem sagt - hefðbundinn laugardagur a la Guðný. Mig langaði að fara út að mynda en skyggnið var svo slæmt að ég fór ekki neitt. Svo í staðinn fyrir glænýja mynd, þá birti ég mynd sem ég tók síðast þegar ég fór út með myndavélina, eða þann 25. nóvember.

miðvikudagur, 5. desember 2012

Það var hörð barátta sem átti sér stað í morgunsárið


Baráttan sú fór fram í hjónarúminu að Stekkjargerði 7. Ekki þó á milli mín og eiginmannsins því hann var farinn í vinnuna. Nei, þetta var innri barátta hjá sjálfri mér og snérist hún um það hvort ég ætti að fara í sund eða ekki. Kominn miðvikudagur og ég ekkert búin að synda síðan ... tja... líklega síðasta föstudag. Á mánudaginn sleppti ég sundi af því ég fór í leikfimi en í gær var ég ógurlega þreytt og fór ekki í sund fyrir vinnu, svona eins og skipulagið mitt segir nú eiginlega til um að ég geri. Þannig að í dag var það að duga eða drepast. En úff, hvað ég var samt ekki að nenna á fætur og í sundið. Það helgaðist nú líka af því að ég svaf afspyrnu illa í nótt og var ennþá svo þreytt þegar ég vaknaði.

Sundið hafði betur, eftir hálftíma innri rökræður, og var ég komin í laugina ca. korter yfir átta. Það voru nú ekki margir að synda en ég hitti samt nokkrar skvísur sem ég þekki. Þó samræðurnar séu hvorki miklar né innihaldsríkar, þá finnst mér svo notalegt að byrja daginn á "kunnuglegu stefi" og fór ánægð heim. Það skyggði samt aðeins á gleðina við sundferðina að ein starfsmanneskjan var býsna höstug og leiðinleg við litlar skólastelpur sem henni fundust ekki klæða sig nógu hratt. Mér finnst alltaf svo óþægilegt að hlusta á fólk rífast og skammast.

Annars er bara mikið fjör í vinnunni þessa dagana og þó maður striki yfir einhver verkefni á "þarf að gera" listanum þá bætast alltaf ný við. Þannig að maður líkist einna helst hamstri í hlaupahjóli ;-) En þetta er líka skemmtilegt og ég er voða þakklát öllu því fólki sem velur að kaupa jólagjafirnar í Pottum og prikum. Það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir okkur að jólavertíðin komi vel út, eins og alla verslunareigendur.

Svo eru Litlu jól hjá ÁLFkonum í kvöld. Það verður án efa skemmtilegt. Ég á að koma með salat en við komum allar með eitthvað á hlaðborðið. Svo á ég víst eftir að kaupa smá gjöf, oh, hefði þurft að gera það þegar ég var í vinnunni í dag. Og talandi um vinnuna þá var ég í gærdag á leiðinni niður á Flytjanda að sækja vörur, þegar ég sá að birtan (sólsetrið) var svo fallegt í suðri. Aldrei þessu vant var ég með myndavél í töskunni, svo ég stökk út úr bílnum og smellti af einni mynd (tja þær voru reyndar fjórar en þessi var skást ;)