sunnudagur, 29. júní 2008

Kominn tími á mynd?


Gáseyri, originally uploaded by Guðný Pálína.

Ég man ekki hvort ég var búin að blogga um það, en við Valur fórum út á Gáseyri á þriðjudagskvöldið í síðustu viku og tókum nokkrar myndir. Þar var mikið fuglalíf og bæði spóar og kríur á sveimi að reyna að afvegaleiða okkur frá hreiðrum sínum. Þar var líka fullt af ferðafólki í húsbílum sem voru að borða og gera sig klár fyrir nóttina. Þessi mynd sýnir þó hvorki fugla né ferðafólk - heldur bara íslenska náttúru ;-)

fimmtudagur, 26. júní 2008

Hrefna og Erlingur koma á morgun

og verða hér á Fróni í heilar tvær vikur :-) Það verður gaman að fá að knúsa skottuna mína (hehe, þessi börn hætta aldrei að vera börn þó þau séu á 25ta aldursári). Ég hringdi á flugvöllinn í dag og þar voru menn nokkuð bjartsýnir á að beina flugið frá Danmörku myndi ekki riðlast vegna verkfallsins. Ég er reyndar að vinna þegar hún kemur en ég treysti á það að hún komi og kíki á mömmu sína á Glerártorgi.

Það var nú frekar fyndið í morgun, mér tókst að fletta framhjá matarsíðunni í Fréttablaðinu og hélt að umfjöllunin hefði ekki birst í dag. Svo þegar þriðja manneskjan kom og spurði um pitsusteina þá fór ég að leggja saman tvo og tvo og spurði viðkomandi hvort hún hefði séð þetta í Fréttablaðinu. Já bæði þar og á netinu sagði hún, og viti menn það var líka hægt að sjá þetta á visir.is - eins og Nanna benti mér á. Myndin á netinu er eiginlega betri en sú sem birtist í blaðinu ;-)

Annars er bara allt í rólegheitum, Ísak spilaði fótboltaleik í kvöld og tognaði aðeins á læri svo hann fer víst ekki á æfingu í fyrramálið. Þetta er svolítið erfitt fyrir þessa stráka, nú spila þeir á "alvöru" velli með risastór mörk og það eru mikil viðbrigði frá því að spila á hálfum velli með smærri mörk.

Andri er byrjaður að vinna í byggingarvinnu og það eru líka mikil viðbrigði hjá honum að vera allt í einu farinn að vinna á fullu frá hálf átta á morgnana til sex eða sjö á kvöldin. Ekki laust við að þreytu gæti - en það má nú ekki segja það upphátt...

Sunna er farin til Spánar og Anna er á söngferðalagi með Kvennakór Akureyrar í Litháen þannig að við Nanna stöndum vaktina í Pottum og prikum. Reyndar stendur hún mun lengri vaktir en ég - aldeilis flott að hafa eina svona unga, spræka og duglega sér við hlið ;-)

Það styttist í árlega Rússlands-veiðiferð eiginmannsins og vonandi að verkfall flugumferðastjóra nái ekki að setja strik í reikninginn.

Síðast en ekki síst styttist í að Sigurður systursonur minn komi í sína árlegu visitasíu hingað í Vinaminni en hann kemur á sunnudaginn. Sem minnir mig á það að ég á eftir að heyra í henni systur minni og athuga hvenær flugið hans kemur norður. Ef það verður þá á áætlun sökum þessa flugumferðastjóraverkfalls.

miðvikudagur, 25. júní 2008

Ísak vinnumaður

Undrin gerast enn

Búin að panta flugið - nú er bara gistingin í Feneyjum eftir ...

Sumt skil ég ekki í sambandi við eigin hegðun

Af hverju er ég t.d. ekki búin að bóka flugið frá Ítalíu til Köben? Ég er búin að komast að því að það er ekkert beint flug frá nálægum flugvelli þennan dag svo við þurfum að millilenda einu sinni. Við getum valið að fljúga frá Pisa sem er nokkuð nálægt okkur og þaðan er hægt að fljúga klukkan 11 og lenda í Köben rúmum sjö tímum síðar. Annar möguleiki er að leggja af stað frá Pisa kl. 15.15 og lenda í Köben kl. 22.00. Þriðji möguleikinn er að keyra til Flórens og fljúga þaðan kl. 10.10 og lenda í Köben kl. 17.20. Það er jafnframt ódýrasta flugið en krefst jú bílferðar til Flórens og þess að við þurfum að leggja af stað um sexleytið um morguninn. Það yrði ansi langur dagur. Jamm og jæja, svo á ég líka eftir að panta hótel í Feneyjum. Um daginn var ég að leita og sá að það var hægt að fá þessi fínu 4ra manna herbergi. Það fannst mér alveg frábært þangað til ég uppgötvaði að við verðum 5 saman.

Ég fór til sjúkraþjálfara í gær

og hann skoðaði mig í bak og fyrir og komst svo að þeirri niðurstöðu að einhverjir smáliðir hægra megin væru fastir. Líka sagði hann að ég væri með hryggskekkju og vantaði alla sveigju neðst í mjóhrygginn. Þetta með hryggskekkjuna heyrði ég einhvern tímann sem krakki en hélt að hún væri úr sögunni. En sem sagt, hann kenndi mér æfingar sem ég á að gera og miðað við fjölda skipta á dag þá sýnist mér að ég þurfi að taka með mér gólfdýnu í vinnuna svo ég geti gert þetta samviskusamlega. Talandi um vinnuna þá hringdi í mig blaðamaður frá Fréttablaðinu í gær og sagðist ætla að fjalla um pítsusteina í matarþætti blaðsins og spurði hvort hún mætti ekki senda ljósmyndara í búðina og mynda okkur Sunnu í sambandi við umfjöllunina. Maður slær ekki hendinni á móti svoleiðis kynningu þannig að Heiða ljósmyndari kom og myndaði okkur með pítsusteina í forgrunni og vonandi kemur þetta vel út. Sunna leiddi blaðamanninn og nöfnu sína Sunnu í allan sannleika um steinana, mér fannst réttara að hún gerði það því hún hefur persónulega reynslu af þeim. Nú er bara að bíða eftir því að þetta birtist, við steingleymdum að spyrja að því hvenær það myndi verða...

sunnudagur, 22. júní 2008

Eitt er svolítið sérstakt við að vinna í verslun

Og það er sú staðreynd að maður hittir svo margt fólk í vinnunni að það stórdregur úr þörfinni fyrir félagslegt samneyti eftir vinnu. Og einhvern veginn verður það til þess að ég hitti vinkonur mínar enn sjaldnar en áður - sem er ekki gott. Hm, það er að segja þær vinkonur sem ennþá búa á Akureyri, þeim fjölgar í sífellu sem flytja suður og ekki er ég nógu dugleg að kynnast nýjum konum í staðinn. Verð að gera eitthvað róttækt í þessu máli.

laugardagur, 21. júní 2008

Guðný duglega :-)



Búin að hjóla einn hring. Hugsa að ég fái strengi á morgun, hef ekkert hjólað síðan síðasta sumar...

Guðný sófadýr

Enn einn letidagurinn hjá mér

Ég er í fríi í dag og í stað þess að bretta uppá ermarnar og gera eitthvað gáfulegt þá bara ligg ég í leti. Fór reyndar í sund í morgun eins og lög gera ráð fyrir og svo í nudd klukkan tólf. Nuddarinn tók hressilega á mér og kannski er það ástæðan fyrir því að ég er eins og undin tuska núna. Henni tókst samt að mýkja upp á mér bakið sem var orðið stíft eins og þvottabretti og svo náði ég líka að slaka mjög vel á og veitti eiginlega ekki af því. Er sem sagt ennþá svona rosalega afslöppuð og ligg uppi í sófa en finnst samt að ég ætti að vera að gera eitthvað allt annað. Birta er hins vegar afskaplega sátt við að hafa mig liggjandi hér enda lætur hún fara vel um sig ofan á maganum á mér. Máni liggur til fóta svo þetta er allt saman afar hefðbundið. Valur er sá eini sem er duglegur þessa stundina, hann er úti að slá lóðina og einnig það er hefðbundið, þ.e. að hann sé að springa úr framkvæmdagleði meðan ég móki í letikasti. Æ ég veit það ekki, ég er ekki beint löt, bara hálf tuskuleg. Svo er ég líka að byggja mig upp þessa dagana því það verður nóg að gera næstu vikurnar í vinnunni. Sumarfríin að byrja og helst hefðum við þurft að vera með eina manneskju í viðbót til að dekka þetta. En auðvitað reddast þetta allt saman og ekki spillir það fyrir að mér finnst mjög gaman í vinnunni. Nóg að gera og ótrúlega margir sem eiga leið um Glerártorg á degi hverjum. Það rifjast líka upp fyrir mér hvað ég þekki í raun marga (eða kannast við) og þar sem ég hef gaman af samskiptum við fólk þá er þetta alveg ideal vinna fyrir mig. Þyrfti samt að vera flinkari að pakka inn... ;-) Það hefur aukist svo mikið að fólk spyr hvort við pökkum ekki inn og auðvitað alveg sjálfsagt að verða við því. Að bjóða upp á hærra þjónustustig er jú einu sinni hluti af því að reka sérverslun. En nú er spurningin hvort ég ætti að dröslast á lappir og hjóla einn Skógarlundarhring?

föstudagur, 20. júní 2008

Í sveitinni


Í sveitinni, originally uploaded by Guðný Pálína.

Við Valur skruppum í bíltúr fram í fjörð í kvöld og rákum þar augun í hin ýmsu útilistaverk. Þessir spóar eru eftir Helga Þórsson í Kristnesi (listamannsnafn hans er Gamli elgur) og virðast þeir einna helst ætla að gogga í Val. Það sem sést ekki á myndinni er litli spóaunginn sem athygli þeirra beinist að en hann er niðri á jörðinni. En alla vega, ef þið eigið leið Eyjafjarðarhringinn þá skuluð þið endilega hafa augun opin, það er gaman að þessum listaverkum úti í náttúrunni.

fimmtudagur, 19. júní 2008

Fékk smá sjokk áðan

Það var fótboltaleikur í sjónvarpinu og Valur að horfa á hann svo mér datt í hug að skreppa aðeins út. Ákvað að taka myndavélina með og sótti hana inn í herbergi. Svo fékk ég þá hugdettu að fara í Hagkaup og ákvað að fara fyrst þangað. Tók mér góðan tíma og skoðaði bæði snyrtivörur, föt og sitthvað fleira. Þegar ég var komin í bílinn aftur ætlaði ég niður á bryggju og smella af nokkrum myndum. Ók þangað og svo þegar ég ætlaði að teygja mig í myndavélina þá var hún ekki í sætinu. Ekki var hún í aftursætinu heldur og nú var ég orðin handviss um að ég hefði gleymt að læsa bílnum og myndavélinni hefði verið stolið. Það hefði verið alveg eftir mér því ég á það til að vera svo utan við mig stundum. Eiginlega hafði ég ætlað að skreppa líka til vinkonu minnar en ég ól þá von í brjósti að myndavélin hefði gleymst heima svo ég dreif mig heim. Og viti menn, þar lá hún og beið eftir mér á bekknum í forstofunni. Mikið sem ég varð glöð :-)

Birta er búin að leggja undir sig sængina mína

það er að segja vetrarsængina. Við Valur höfum léttari sængur yfir sumarið því glugginn á svefnherberginu okkar snýr í vestur og oftar en ekki er ólíft þar inni vegna hita á kvöldin þegar við erum að fara að sofa. Yfirleitt hef ég sett sængurnar beint ofan í plastpoka og út í bílskúr þegar skiptin eiga sér stað en einhverra hluta vegna gerðist það ekki núna. Tja, það er að segja, sængin hans Vals er komin í skúrinn eftir að hafa verið viðruð úti á snúru en mín sæng ílentist í vinnuherberginu mínu og þar hafa kettirnir fundið mjúkt ból til að liggja í. Svo fyllist sængin af kattarhárum og þá vex mér í augum að þrífa hana og koma henni út í skúr. Þannig í staðinn fyrir að framkvæma þetta litla verk þá horfi ég á sængina verða kattarhárum að bráð og geri ekki neitt. Meiri vitleysan!

sunnudagur, 15. júní 2008

Valur setti blómin í ker

og var það aðeins eitt af sirka þúsund verkum hans í dag. Maðurinn sá þjáist ekki af verkstoli, svo mikið er víst. Helsta afrek mitt í dag var að fara á Glerártorg í þriðja skiptið á jafnmörgum dögum, nokkuð sem ætti ekki að vera í frásögur færandi þar sem þetta er jú vinnustaður minn. En erindið var að finna á mig einhverjar nýjar spjarir, helst sumarlegar og sætar. Fyrst fór ég með Önnu á föstudaginn og keypti þá hvíta peysu í Benetton. Svo af því það var 20% afsláttur af peysum þar um helgina þá fór ég aftur í gær og mátaði fleiri peysur, auk buxna og jakka. Ekkert kom þó út úr þeirri ferð annað ein einn bolur. Helst þarf ég að vera í vissu stuði þegar kemur að því að fara í fataleiðangur því mér finnst afspyrnu leiðinlegt að máta föt og andinn var ekki alveg yfir mér í gær. Eftir að hafa sofið á þessu í nótt ákvað ég að gera enn eina tilraun í dag og fór aftur í Benetton. Þar var afgreiðslustúlkan farin að kannast vel við mig og ekki nema von. Þolinmæðin uppmáluð bar hún í mig hverjar gallabuxurnar á fætur annarri og loks kom að því að einar pössuðu. Svo bætti ég á mig tveimur peysum til viðbótar, einni ljósblárri og annarri röndóttri. Þannig að nú er ég bara nokkuð vel birg af fötum - í bili að minnsta kosti ;-) En fyrir utan að blogga og fara í Benetton þá er ég líka búin að fara í Bónus, þvo 3 vélar af þvotti og flokka heilan helling af plastumbúðum og setja í endurvinnslutunnuna. Lagaði aðeins til í búrinu í leiðinni. Þannig að ég hef nú ekki bara legið í leti í dag, þó ég sé reyndar að því núna. Eða nei, ég er að (reyna) að búa til vinnuplan fyrir næstu vikurnar, tók við keflinu af Sunnu sem er búin að sjá um að gera plan fyrir síðustu vikur. Það er ýmislegt sem fylgir því að reka fyrirtæki og starfsmannahald og allt sem því fylgir (mönnun, skipulag vakta, launaútreikningar o.s.frv.) getur verið ansi krefjandi að mínu mati.

Smá áfallahjálp væri vel þegin

Ég hef vitað það frá því ég fór í brjósklosaðgerðina að vinstri fóturinn á mér er ekki eins og hann á að sér. Það er samt munur á því að vita og gera sér grein fyrir. Í morgun ákvað ég að fara með froskalappirnar í sund í fyrsta skipti síðan 7. apríl (síðasta sundferð fyrir brjósklos). Ég ætlaði nú ekkert að taka mikið á því, bara dóla mér á bakinu og hreyfa fæturnar. Strax í fyrstu ferðinni rann það upp fyrir mér að það vantar mjög mikið uppá hreyfigetu og kraft í vinstri fætinum. Og þarna fékk ég enn eitt áfallið í þessu bakveseni mínu öllu. Fyrst var það áfall að fá brjósklos og þurfa í aðgerð, svo var það áfall að versna svona í bakinu við flutningana á Glerártorg og nú sá ég það svart á hvítu sem ég hef í raun vitað allan tímann en ekki horfst í augu við. Að fóturinn er mun laskaðri en ég vildi vera að láta. Ég treysti því samt að þetta sé eitthvað sem hægt er að þjálfa upp og eftir að hafa beðið í nærri 5 vikur eftir tíma hjá sjúkraþjálfara fæ ég loks tíma þann 24. júní.

En nú held ég að Valur sé að koma og ætli sé ekki best að fá hann til að búa til kaffilatté handa mér. Hann fór suður í gær í útskriftarveislu hjá Arnaldi bróðursyni sínum sem var að útskrifast úr lagadeild HÍ. Svo ætla ég að gróðursetja nokkur sumarblóm sem ég keypti í gær :-)

miðvikudagur, 11. júní 2008

Allt á uppleið

Í dag var besti dagurinn minn með bakið síðan allt fór í skrall á mánudaginn í síðustu viku. Ég er búin að fara þrisvar til hnykkjarans og í gær svaf ég til að verða hálf tíu, fór í sund og svo í svæðanudd og lagði mig þegar ég kom heim (algjör prinsessa). Vann bara í þrjá tíma og var alveg þolanleg. Vaknaði svo verkjalaus í morgun!! og var ekkert smá ánægð með það. Þó ég hafi verið með svona smá stingi í dag þá leið mér aldrei eins og það væri verið að bora með hníf í hrygginn á mér - og það er nú ástæða til að fagna því. Svo verð ég bara að halda áfram að passa mig næstu dagana á meðan ég er að ná mér betur. Halda áfram að vera prinsessa aðeins lengur ;-) Finn samt hvað það er rosalega erfitt, ég gleymi mér um leið og verkirnir eru ekki lengur til staðar og minna mig á að vera róleg.

Ég held áfram að pússla sumarfríinu okkar saman. Er komin með flug til Köben og heim, flug til Feneyja, gistingu í Toscana en á eftir að redda gistingu í Feneyjum, bílaleigubíl og flugi frá Pisa til Köben. Það er eitthvað smá vandamál með að fá beint flug frá Pisa á laugardegi en ég er nú ekki alveg hætt að leita. Við gætum hugsanlega flogið til Köben á sunnudeginum, sama dag og við fljúgum til Íslands, en það er kannski óþarfa áhætta að taka.

Svo kemur Anna systir annað kvöld og ætlar að vera á Akureyri á föstudaginn. Það verður voða gaman að fá hana í heimsókn enda ekki nema ca. einu sinni á ári sem við systur hittumst. Uss, þetta er náttúrulega ekki hægt...

Þetta er reyndar hálfgerð skyldmenna-vika hér í Vinaminni því Guðjón bróðir Vals og Óli Valur Guðjónsson eru hér í nótt en fara á morgun í veiði í Laxárdal. Valur skreppur svo á föstudaginn og bleytir færið.

Andri er loksins búinn í prófunum og Ísak er kominn í sumarfrí en kettirnir eru í eilífðarfríi - eða þannig. Þau eru enn einu sinni byrjuð á þeim leiðinda ósið að merkja húsið okkar. Þetta er þriðja sumarið sem þau gera þetta, eigendum sínum til mikils ama. Það þarf að passa að hafa læstar dyrnar inn í stofu og niður í kjallara og fylgjast vel með ákveðnum stöðum sem eru "heitari" en aðrir þegar að merkingum kemur. Þetta er líklega því að kenna að á sumrin koma allir kettir hverfisins í ljós (liggja meira og minna í hýði yfir veturinn) og spranga endalaust í kringum húsið okkar. Birta og Máni þurfa því að láta vita hvar þeirra yfirráðasvæði er og gera það á þennan miður skemmtilega máta. Það er reyndar hægt að kaupa sprey sem gefur frá sér róandi "lykt" (ferómóna) og spreyja á staði sem eru sérlega útsettir og ég þarf víst að drífa í því sem fyrst.

Og nú held ég að ég láti þessum pistli mínum lokið.

sunnudagur, 8. júní 2008

Skógarrjóður


Má bjóða þér sæti?, originally uploaded by Guðný Pálína.

Ég fór út í Kjarnaskóg áðan og gekk einn hring þar. Markmiðið var að koma blóðinu á hreyfingu og þrjóskast við að hreyfa mig þó mér væri illt í bakinu. Líklega hefur markmiðunum verið náð en ég er nú samt að drepast í bakinu, hm veit ekki hvar þetta ætlar að enda. Nenni samt ekki að láta þennan bakverk stjórna lífi mínu - vil helst stjórna því sjálf.

laugardagur, 7. júní 2008

Blogg fyrir Hrefnu sem er í prófalestri

Svo hún Hrefna fái eitthvað að lesa annað en þurrar kennslubækur þá kemur hérna smá blogg:

Hm, hvað á ég þá að segja?

Já ég fór til hnykkjarans í gær og hef líklega hrætt hann pínulítið með því að vita of mikið um brjósklos, ólíkar kenningar um bakverki o.s.frv. Að minnsta kosti fannst mér hann detta aðeins of mikið í einhvern fyrirlestragír í staðinn fyrir einstaklingsmiðaða meðferð, en hann stakk nú líka í mig einhverjum nálum og hnykkti aðeins á hálsi og efra baki (lét viljandi í friði neðri hluta hryggjarins þar sem aðgerðin var gerð). Ég fer aftur til hans á mánudaginn og þá ætla ég að vera duglegri að spyrja spurninga sem tengjast meira mér og mínu ástandi. Ég var reyndar eins og slytti eftir heimsóknina til hans en fór heim og lá fyrir meira og minna þar til ég fór í vinnu um hálf fjögur leytið.

Í dag var ég svo að vinna frá ellefu til hálf fimm og það gekk í raun ágætlega. Ég var að vísu með töluverða verki þegar ég fór í vinnuna en svo gleymdi ég þeim að mestu leyti í dágóðan tíma. Ég hef gaman af því að umgangast fólk og spjalla og það hentar mér í raun mjög vel að vinna í verslun. Mjög ánægjulegt að hafa fundið vinnu sem ég þrífst í (og nú er ég líklega að hugsa á norsku en það verður bara að hafa það).

Svo kom ég heim og Valur (þessi elska) eldaði herramannsmat handa mér og Andra. Grillaður humar og rækjur voru á matseðlinum, auk spínatsalats og durumbrauðs. Mmmm, ekkert smá gott!

Eftir matinn hringdi ég svo í hana Fíu frænku mína til að þakka henni fyrir sérlega fallega blómaskreytingu sem hún sendi okkur Sunnu um síðustu helgi í tilefni opnunarinnar á Glerártorgi. Ég hafði reyndar reynt að hringja í hana fyrir nákvæmlega einni viku síðan en þá var hún ekki heima. Fyrir þá sem ekki vita hver Fía frænka er þá heitir hún Fríður Leósdóttir og á verslunina Brynju þar sem hinn dásamlegi Brynjuís fæst (því miður er ég með mjólkuróþol og get ekki borðað Brynjuís án þess að fá magaverk en allir aðrir fjölskyldumeðlimir elska ísinn úr Brynju). Töluverður aldursmunur er á okkur frænkum en eftir að ég komst til vits og ára þá skiptir aldurinn engu máli lengur og bara gaman að halda smá sambandi við hana frænku mína (við erum hálf-systikinabörn).

Jamm og jæja, hvað á ég nú að skrifa meira fyrir Hrefnu?

Jú ég get sagt frá því að Anna systir mín er að koma til landsins í næstu viku og ætlar að heiðra okkur með nærveru sinni í einn heilan dag ;-) Bara flott að hún skuli nenna að koma norður fyrir einn dag en ástæða Íslandsferðarinnar er ráðstefna norrænna bókasafnsfræðinga í Reykjavík sem byrjar... eftir næstu helgi?

Og nú stynur Valur í næsta herbergi, þreytustunu, enda búinn að afreka mikið í dag eins og alla aðra daga ársins. Ég vildi að ég hefði þó ekki væri nema 5% af hans orku, þá myndi ég nú áorka mun meiru en ég geri í dag.

These are the results of the Stekkjargerði 7 jury (hm, hljómar þetta ekki alla vega einhvern veginn svona í Eurovision? Hef ekki horft á þá keppni árum saman, þannig að ég man þetta ekki alveg lengur). En hvað um það, ég læt þetta gott heita núna. Bestu kveðjur til Kóngsins Köbenhavn og allra hinna :-)

fimmtudagur, 5. júní 2008

Og smá pirringur

Já einhverra hluta vegna er ég að drepast úr pirringi í augnablikinu. Hugsanlega hefur það eitthvað með þá staðreynd að gera að ég hef nákvæmlega ekkert gert í allan dag. Tja nema fara í sund og liggja þar eins og slytti í pottinum, og fara á bókasafnið þar sem ég gerði næstum útaf við bakið á mér með því að ganga uppá efri hæðina. Þegar ég kom heim var ég mér svo illt í bakinu að ég tók tvær parkódín og henti mér upp í rúm með reyfara. Ég hef sem sagt ekkert farið í vinnu í 3 daga núna (hm, það er nú ekki alveg rétt, fór á fund í gær og var í búðinni í tvo og hálfan tíma) og er komin með móral yfir því. Veit þó að ég hefði ekki gert mikið gagn þar, það er sennilega ekki mjög traustvekjandi afgreiðslukona sem er öll skökk og skæld með sársaukagrettu í andlitinu. En svo ég reyni nú að segja eitthvað jákvætt þá er ég ekki lengur jafn skökk en mjóbakið er hins vegar jafn ósveigjanlegt og tréspýta. Vonandi tekst hnykkjaranum að gera smá kraftaverk - ekki veitir mér af. Ég hef líklega verið helst til barnaleg í hugmyndum mínum um bakið á mér. Það er að segja, mér batnaði svo vel í bakinu sjálfu eftir aðgerðina að mér fannst bara eins og það væri ekkert að mér lengur og ég gæti gert nánast hvað sem væri. Og mér fannst ég ekki vera að ofgera mér í flutningunum um daginn. Var t.d. ekki að bera neitt rosalega þungt. En líklega hef ég ekki verið búin að ná mér nægilega vel til að þola að standa svona mikið uppá endann og vinna svona mikið eins og við Sunna gerðum í flutningunum. Arg!

Lofa jákvæðari pistli á morgun :-)

miðvikudagur, 4. júní 2008

Smá bakslag

í orðsins fyllstu merkingu. Ég fékk þursabit í fyrradag sem fór versnandi og snarversnaði eftir nudd í gærmorgun. Góðu fréttirnar eru þær að þetta er ekki í tengslum við brjósklosið (eða það held ég að minnsta kosti ekki), svo þetta ætti að lagast á einhverjum dögum/vikum. Ég fékk tíma hjá hnykkjara á föstudaginn og vonandi tekst honum að hnykkja einhverju viti í bakið á mér svo það hætti að svíkja mig svona í sífellu. Svo verð ég víst líka að taka mig á og gera eitthvað sjálf í málinu. Fara að æfa meira t.d. og ekki bara láta sundið duga eins og ég hef gert síðustu árin.

Hins vegar er ekkert bakslag á Glerártorgi, það er bara stöðugt rennerí af fólki í nýju búðina og bara gaman að því :-)