fimmtudagur, 30. desember 2010

Bla bla bla blogg

Úff, ég veit ekki af hverju ég er að gera sjálfri mér og öðrum það að blogga núna. Eða bara blogga yfirleitt. Mér finnst ég ekki gera neitt annað en væla á þessari síðu og vorkenni fólki að  þurfa að lesa þessi ósköp. Hm, ok reyndar ÞARF enginn að lesa þetta en ég veit jú að Anna systir og mamma gera það og einhverjir fleiri. Eins og sjá má er dagsformið sem sagt ekkert æðislegt hjá frúnni. Mér tókst að krækja mér í einhverja hálsbólgu um jólin og hún mallar í mér og gerir mig enn ómögulegri en venjulega. Í gær var ég svo komin með höfuðverk og orðin ferlega slöpp en fór samt í vinnuna. Þar var brjálað að gera nánast allan tímann og í gærkvöldi var ég algjörlega ónýt. Ætlaði aldrei að geta sofnað því mér leið svo illa, en það hafðist eftir að ég tók tvær verkjatöflur. Sko væl, væl og aftur væl!!

Hér kemur tilraun til að gera eitthvað annað en væla:

Aðfangadagskvöld var ósköp notalegt hjá okkur. Það bar þó til tíðinda, að á meðan við sátum og borðuðum jólamatinn, heyrðist allt í einu hljóð undan jólatrénu. Enginn skildi neitt í neinu... tja nema ég. Ein jólagjöfin til Vals var nefnilega ný vekjaraklukka, og tók hún uppá því að hringja þarna undir borðhaldinu. Ég fékk algjört hláturskast og tilkynnti að þar sem Valur hefði verið svo þægur í dag fengi hann að opna einn pakka á undan hinum. Enda vissi ég sem var að klukkan myndi að öðrum kosti bara halda heillengi áfram að hringja.

Á annan í jólum fórum við Valur út í smá bíltúr til að viðra frúna. Við tókum myndavélarnar með okkur og náðum að viðra okkur almennilega því það var þvílíka rokið úti á leirum, og tókum eitthvað af myndum líka. En hressandi var það.

Sama dag átti Hrefna von á vini sínum frá Danmörku, en fluginu hans seinkaði vegna bilaðrar flugvélar. Upphaflega átti hann að ná til Akureyrar sama dag en svo var ljóst að það myndi ekki ganga og þá var pantað hótel í Reykjavík. Enn var beðið og svo kom í ljós að ekki yrði flogið frá Danmörku þetta kvöld/nótt. Þá ætlaði hann að fá endurgreitt hótelherbergið en það var ekki hægt þar sem hann hafði pantað í gegnum einhverja erlenda bókunarsíðu á netinu. Daginn eftir átti að fljúga kl. 13 og enn var innanlandsfluginu breytt þannig að hann átti bókað með síðustu vél norður. En ekki fór nú vélin af stað frá Köben fyrr en kl. 16 að dönskum tíma og þá var útséð um að hann myndi ná vélinni norður sama dag. Þannig að pabbi Hrefnu og hún sjálf brunuðu af stað suður til að sækja piltinn svo hann þyrfti ekki að vera strandaglópur í Reykjavík til næsta dags. Sú ferð gekk sem betur fer vel í alla staði og norður er hann kominn.

Birta er að gera mig brjálaða. Hún mjálmar og vill fá athygli hverja stund sem hún er vakandi. Það er ekkert skrítið því hún saknar Mána greinilega mikið, en ég á erfitt með að þola hávaðann í henni. Svo tókst mér nú áðan að hleypa henni út - og gleyma henni svo úti - og mér sýnist hún helst þurfa áfallahjálp eftir þá lífsreynslu.

Valur var í Bónus að versla inn fyrir áramótin. Enn og aftur sér hann um að halda öllu gangandi hér í húsinu - og ekkert gagn er í mér frekar en fyrri daginn.

Er lögst í jóladvala

Já einhvern veginn lifði ég af tímann fram að jólum en það gerði Máni greyið hinsvegar ekki. Hann fékk einhverja þvagfærasýkingu, sennilega útaf nýrnasteinum, sem bara ágerðist þrátt fyrir sýklalyf og við ákváðum að láta svæfa hann á Þorláksmessu. Hann hefði dáið sjálfur en okkur fannst betra að stytta þjáningar hans því honum leið orðið mjög illa. Það var á sunnudeginum að við tókum eftir því að hann var eitthvað rólegri en venjulega, þannig að ekki var þetta langur tími sem hann var veikur. Enda var ég að lesa á netinu að kettir gætu dáið úr þessu á þremur til sex dögum, svo það stemmir við okkar reynslu. Þrátt fyrir að vera oft búin að skammast út í hann í gegnum árin (hann opnaði hurðar og gat auðvitað aldrei lokað á eftir sér, "merkti" húsið okkar á sumrin, var afskaplega athyglissjúkur og fór mikið úr hárum), þá söknum við hans mikið. Því hann var alveg ótrúlega skemmtilegur köttur. Svo blíður og góður en mikill grallari og mjög kelinn.

P.S. Þetta var ég búin að skrifa einhvern tímann um jólin en átti alltaf eftir að birta - svo hér kemur það.

laugardagur, 18. desember 2010

Bara svona til að sýna að ég er á lífi

þá kemur hér ein bloggfærsla. Ég þurfti hvort sem er að setjast niður og hvíla mig því ég var svo þreytt eftir morgunmatinn. Já þetta hljómar kannski undarlega, en stundum, ef ég er þreytt, þá verð ég alveg ónýt eftir að borða. Það er eins og líkaminn ráði ekki við það auka álag sem fylgir því að melta matinn. Samt borðaði ég nú bara eina brauðsneið. Annars geri ég fátt þessa dagana, annað en vinna og reyna með öllum ráðum að lifa af þessa jólavertíð. Í því felst að reyna að borða bara hollan mat (t.d. sem allra minnst af unnum kjötvörum, gera græna hristinga, ekki borða sykur og ekki drekka vín með mat), hvíla mig þegar ég er ekki í vinnunni, fara í nudd og hlusta á slökunarefni á geisladiskum. Þá fer nú samviskubitið aðeins að láta á sér kræla, því auk þess að vera mikið að vinna, þá geri ég ekkert hér á heimilinu og Valur sér um allt. En það þýðir ekki að velta sér of mikið uppúr því, svona er þetta bara. Síþreytan sem fylgir vefjagigtinni er ekkert grín og eins og ég segi, þá er ég hreinlega að reyna að lifa af, svo ég verði ekki ónýt allt næsta ár, svona eins og ég hef verið þetta ár.

Talandi um síþreytu þá sendi Anna systir mér upplýsingar um norska sjónvarpsmynd þar sem konu með síþreytu var fylgt eftir í þrjú ár. Hún hafði verið veik í 15 ár minnir mig en var á góðri bataleið í lok þáttarins. Það gerðist eftir ítarlegar rannsóknir og meðhöndlun sem belgískur læknir hafði umsjón með. Þá fundust ýmsar bakteríur í blóði hennar (sem skila frá sér eitruðum úrgangsefnum), og eins greindist hún með þennan XMRV vírus sem vísindamenn hafa nú fundið í blóði 85% greindra síþreytusjúklinga. Í dag er svo stutt síðan menn fundu þennan vírus að ekki er fundið sértækt lyf við honum og eins vita menn ekki hvort hann er í raun eina orsökin fyrir síþreytu, en það verður spennandi að fylgjast með þessu í framtíðinni. Varðandi þessa norsku konu og meðhöndlunina sem hún fékk, þá var það margra mánaða ferli og ef ég skildi málið rétt þá þarf hún að halda áfram að taka lyf og fleiri bætiefni til að haldast frísk. Þetta er ekki kostað af ríkinu og hún var að borga um 140 þús. á mánuði fyrir meðferðina. Enda var hún að selja íbúðina sína í lok þáttarins, til að hafa efni á þessu.

Það vekur samt smá von að í Lilleström er meðferðarstofnun sem vinnur í anda þessa læknis og þar setja þeir vefjagigt undir sama hatt og síþreytuna, og það er virkilega hægt að finna ýmislegt að hjá þeim sjúklingum sem til þeirra leita (s.s. sýkingar ofl) og hægt að meðhöndla þá. En já mergurinn málsins er sem sagt, að hingað til hefur vefjagigt og síþreyta oft verið talin af andlegum toga, en ef loksins finnst vírus eða annað sem veldur þessu er vonandi hægt að fá einhverja lækningu. Eins og t.d. með magasár. Einu sinni var talið að andlegt álag/streita ylli magasári en svo fundu menn bakteríu og í framhaldi lyf við þessu.

Jamm og jæja, best að drífa sig í sturtu og koma sér í vinnuna.

sunnudagur, 12. desember 2010

Nú ætlaði ég að detta í vælugírinn

en ákvað í staðinn að reyna að vera jákvæð. Þannig að hér kemur jákvæða hliðin á frúnni:
  • Valur vinnusami heldur áfram að sjá um heimilið eins og honum einum er lagið. Í gær þegar ég kom heim úr vinnunni var hann búinn að þrífa gardínurnar í stofunni og hengja upp jólakransana í gluggana. Hann hafði líka farið í Bónus og eldaði þar að auki þessar líka frábæru pítsur í kvöldmatinn.
  • Ég talaði aðeins við Hrefnu á skype í gær. Hún var að gera sig fína fyrir jólaboð hjá vinkonu sinni og var alveg stórglæsileg. Það verður gaman að fá hana heim eftir eina viku :)
  • Jólaverslunin gengur vel hjá okkur í búðinni. 
  • Himininn úti er afskaplega fallega bleikur núna í ljósaskiptunum.
  • Valur sendi myndavélina mína suður í hreinsun, svo núna get ég tekið myndir aftur án þess að þær verði allar blettóttar.
  • Andri og Ísak eru flottir strákar, bæði að innan og utan.
  • Ég fór í nudd í gær eftir vinnu.
  • Það er síðasta kóræfing fyrir jól í dag. Hún verður stutt og svo verða smá Litlu jól.
  • Ég er í fríi í dag (tja fyrir utan klukkutíma vinnu)...

miðvikudagur, 1. desember 2010

Fór á ljósmyndaskvísuhitting í kvöld

þó ég ætlaði varla að hafa mig af stað. Ég er orðin svo heimakær að það hálfa væri nóg og nenni bara engan veginn út á kvöldin. En þar sem ég er líka að reyna að vera duglegri að gera eitthvað fyrir sjálfa mig, þá verð ég víst að standa við það, og þess vegna drefi ég mig af stað. Við vorum nú bara þrjár sem mættum í þetta sinn - þrjár gigtarkerlingar. Já, önnur hinna er með greinda vefjagigt og hin er greinilega með öll einkennin en hefur ekki farið til gigtarlæknis - "af því hún er bara 23ja ára og alltof ung til að vera svona eins og gömul kona". Já þetta er furðulegt fyrirbæri þessi vefjagigt, svo ekki sé meira sagt. Og já, hún leggst jafnt á unga sem gamla og fer ekki í manngreinarálit fremur en aðrir sjúkdómar. Það var nú reyndar frekar skondið að hlusta á lýsingar stelpunnar, á þeim skýringum sem hinir ýmsu heimilislæknar höfðu komið með, og áttu að vera ástæða fyrir einkennum hennar. En nóg um það.

Ég er nú annars bara á leið í háttinn og spurning hvernig mér gengur að sofna eftir að hafa verið á þessu "útstáelsi".