þriðjudagur, 30. desember 2008

Millibilsástand

Já það ríkir einhvers konar millibilsástand hjá mér í dag. Eða bara eitthvað skrítið ástand. Í gær var ég að vinna og þurfti þar af leiðandi að vakna milli hálf átta og átta. Eftir að hafa sofið til ca. hálfellefu dagana á undan var ósköp erfitt að vakna í gær og ennþá erfiðara að halda sér vakandi restina af deginum. Enda sofnaði ég á sófanum um áttaleytið í gærkvöldi. Á þriðjudagsmorgnum erum við Sunna vanar að hafa vinnufundi og þá sér Anna um að afgreiða í búðinni á meðan. Þannig að nú stendur hún vaktina í Pottum og prikum en ég sit hér heima, enn í náttfötunum og klukkan að verða ellefu. Ég leyfði mér sem sagt þann munað að sofa út í morgun... drattaðist á fætur fyrir rúmum klukkutíma og hefði alveg verið til í að sofa lengur. Já, þetta skammdegi lætur ekki að sér hæða. Það er nú samt markmiðið að fara í sund áður en ég fer að vinna eftir hádegi. Kemst bara ekki alveg strax því ég er búin að borða morgunmat. Annars er þetta hálf asnalegt allt saman, þetta með hvíld og vinnu. Ég þurfti virkilega á hvíld að halda eftir jólatörnina en ef maður hvílir sig of mikið þá bara veslast maður upp úr sleni og deyfð. Hm, rosalega spennandi pælingar, eða þannig sko.

sunnudagur, 28. desember 2008

Áframhaldandi afslöppun

Já ekki eru mörg verkefnin sem liggja fyrir þessa frídaga. Eða kannski væri nær að segja að ekki séu mörg verkefnin sem frúin nennir að sinna. Maður dettur í einhvern letigír og ég nennti meira að segja ekki í sund í morgun. Fór reyndar í gærmorgun og það var ægilega gott. Núna langar mig meira út að ganga, veðrið er svo yndislegt. Það er blankalogn og hlýtt og smám saman birtir af degi. Ég hef nú ekki látið reyna á það lengi hvort ég kemst hringinn í Kjarnaskógi. Síðast þegar ég gekk þennan hring var ég nánast farin að draga fótinn þegar leiðin var rúmlega hálfnuð og það voru svo mikil vonbrigði að ég hef ekki viljað leggja það á mig aftur. En núna langar mig út í Kjarnaskóg. Auðvitað þarf maður ekkert að labba þennan blessaða hring. Það er alveg eins hægt að ganga einhverja skógarstíga og snúa bara við þegar fóturinn er orðinn lúinn.

Svo þyrfti ég eiginlega að þrífa aðeins og þvo þvott. Já og laga til. Og fara yfir nokkur söluuppgjör sem ég tók með mér heim úr vinnunni í gær af því þau stemma ekki. Þá held ég að það sé upptalið. Í kvöld ætlum við svo að borða saman "stórfjölskyldan". Hehe, það er nú enginn brjálaður fjöldi samt. Hrefna og Erlingur verða í mat og svo kemur Sunneva kærastan hans Andra. Á matseðlinum er humar sem Valur ætlar að matreiða af sinni einstöku snilld. Í gærkvöldi var Rósa vinkona hjá okkur í mat og þá töfraði Valur líka fram kræsingar eins og honum er lagið. Í forrétt var hörpudiskur (uppskrift úr bókinni hans Rúnars Marvinssonar sem kom út núna fyrir jólin) og í aðalrétt var indverskur kjúklingaréttur. Eftirrétturinn var nú "bara" kaffi og konfekt. En þetta var voða ljúft allt saman, bæði maturinn og félagsskapurinn :-)

laugardagur, 27. desember 2008

Jæja þá er ég búin að lesa Auðnina eftir Yrsu Sigurðardóttur

Og eins og venjulega þegar ég hef lokið við að lesa bók í einum rykk er ég alveg "stoned" á eftir. Þreytt í höfðinu og augunum og einhverra hluta vegna líka með brjóstsviða. Það tengist þó örugglega ekki bókalestri... Frekar ruglinu með matmálstíma og of miklu sykuráti. Og til að kóróna ástandið sýnist mér allt stefna í rugl á svefninum líka. En ætli vinnan á morgun kippi manni ekki niður á jörðina aftur, myndi a.m.k. gera það ef ég þyrfti að byrja klukkan tíu, en það er víst Sunna sem ætlar að fórna sér í að vakna á morgun og ég þarf ekki að mæta fyrr en um eða eftir hádegið. Jæja, ætli sé ekki best að gera heiðarlega tilraun til þess að fara að sofa.

föstudagur, 26. desember 2008

Það sem ég get sofið

Já, þetta er önnur nóttin í röð sem ég sef langt frameftir þó ég hafi farið tiltölulega snemma að sofa. Sofnaði svona ca. hálf eitt og vaknaði ekki fyrr en hálf ellefu. Ég held reyndar að það sé engin tilviljun að ég vakna á þeim tíma því þá er akkúrat farið að birta úti. Ætli það sé ekki einhver innri klukka í mér sem segir að þá sé kominn rétti tíminn til að vakna. En síðan hef ég bara legið í leti. Tók mér góðan tíma í að borða morgunhristinginn og leysti krossgátu á meðan og hef svo hangið í tölvunni í smá stund. Er eiginlega á leiðinni í sturtu en leiðin þvert yfir ganginn er greinilega mjög löng.

Út um gluggann sé ég gullroða ský. Sólin er þarna einhvers staðar fyrir aftan fjallahringinn í suðri og varpar geislum sínum upp í skýin en annars er nokkuð þungt yfir. Skýjað á köflum og grámi. Og þar sem jólasnjórinn fór allur á Þorláksmessu er líka grátt um að litast á jörðu niðri.

Frammi í eldhúsi spjalla Valur og Kiddi yfir kaffibolla. Ég lét mig hverfa þegar Kiddi boðaði komu sína þar sem ég var enn á náttbuxunum og með þetta skemmtilega "nývöknuð og úldin" útlit. Og nú er ég farin í sturtu!

fimmtudagur, 25. desember 2008

Ég sofnaði ekki ofan í diskinn í jólamáltíðinni

en hins vegar var enginn bókalestur fram á nótt. Við "gamla settið" fórum í háttinn fyrir klukkan ellefu og ég svaf til hálf ellefu í morgun, hvorki meira né minna! Annars gekk aðfangadagur og kvöldið afskaplega vel fyrir sig. Valur sá um jólamatinn að venju og eldaði bæði hangikjöt og hamborgarahrygg. Þegar ég kom heim úr vinnunni kláraði ég að pakka inn gjöfum, lagðaði til í stofunni og lagði á borð. Á meðan hlustaði ég á jólaplötu með Sissel Kyrkjebö, í fyrsta sinn fyrir þessi jól. Nokkuð sem mér var bent á en hafði ekki sjálf hugsað út í. Þessi plata er í miklu uppáhaldi hjá mér og ekki finnst mér leiðinlegt að gaula með. Það hefur nú reyndar verið við mismikla hrifningu annarra fjölskyldumeðlima - en þetta er greinilega orðinn órjúfanlegur hluti jólanna hér í húsinu því það voru allir voða glaðir þegar Sissel var komin á fóninn.

Það er árviss viðburður að Valur tekur myndir af krökkunum fyrir framan jólatréð og á því var engin undantekning í gær. Hins vegar getur það verið þrautin þyngri að ná góðri mynd af þeim öllum þremur. Ef Hrefna myndast vel þá er pottþétt að Andri og Ísak eru eitthvað skrítnir á myndinni (Ísak t.d. að fíflast eitthvað) og svo öfugt. En hér kemur skásta myndin frá því í gær:

og svo ein af feðgum tveimur:

Ísak jólabarn :-)

og eins og sjá má þá fengum við Hrefna báðar sömu bókina í jólagjöf.

mánudagur, 22. desember 2008

Freistingar, freistingar....

Já ég sé að jólin gætu hugsanlega orðið skeinuhætt mínum nýja lífsstíl. Smákökurnar þó aðallega. Í gær var ég að setja krem í mömmukossana sem Valur bakaði og mikið sem það var óskaplega freistandi að sleikja kremið sem slæddist á puttana á mér. Þannig að einn og hálfur mömmukoss og smá smjörkrem endaði ofan í mínum maga. Í kvöld var ég svo að setja suðusúkkulaði ofan á kókos-og haframjölssmákökurnar (sem Valur bakaði líka) og án þess að ég vissi af því var ég síendurtekið farin að sleikja puttana. Þannig að ég setti upp plasthanska... og engin kaka fór ofan í minn maga. Það er reyndar allt í lagi að fá sér eina og eina köku, ég dey ekkert af því. Það kemur bara af stað sykurlönguninni og þá er hætt við að ég springi á limminu. En þar sem ég hef staðist þetta síðan í ágúst þá langar mig ekki að gefast upp núna. Finn alveg hvað þetta nýja mataræði gerir mér gott. Sérstaklega auðvitað að borða allt salatið og grænmetið en líka að sleppa sykrinum og hveitinu. Svo fékk ég frábæra uppskrift að morgunsjeik hjá Ingu Kristjánsdóttur næringarþerapista og þegar ég borða hann (sem er nánast alla morgna) þá er ég södd í ca. 3 tíma á eftir og langar ekki vitund í sætindi. Innihaldið er; frosin ber, kasjúhnetur (sem ég bætti reyndar við), hörfræolía, hrísmjólk og hreint mysuprótein. Próteinið er reyndar hrikalega dýrt hér á kreppu-landi en ein stór dolla dugar í marga margra hristinga. Og síðast en ekki síst þá fer þetta afar vel í magann á mér. Plús að eftir að ég fór að borða olíuna á hverjum morgni þá er húðin á mér miklu betri og er hætt að springa á fingrunum. Hm, þetta varð kannski eitthvað skrítinn pistill en skýrist væntanlega af því að ég er nánast með óráði af þreytu og er í þessum skrifuðu orðum á leið í háttinn.

sunnudagur, 21. desember 2008

Loksins sundferð í björtu

Já, ég nennti ekki í sund um leið og ég vaknaði í morgun og fór ekki fyrr en um ellefuleytið. Kosturinn við það var sá að það var a.m.k. næstum því bjart en gallinn var sá að ég hafði fengið mér morgunmat áður en ég fór og var hálf bumbult á meðan ég var að synda. Það helgaðist nú líka af því að þegar ég kom inn í sturtuklefann var þar alveg skelfilega megn lykt. Hún minnti mig helst á lyktina af líkamspúðri með ilmefnum sem gamlar konur notuðu sumar ótæpilega hérna í den. Sums staðar finnst manni bara að mikil lykt eigi ekki við. Eins og t.d. reykingalykt úti í náttúrunni og ilmvatns- eða rakspíralykt ofan í sundlauginni. Já og reykingalykt í búnings- og sturtuklefanum í sundlauginni. Það kemur stundum fyrir að ég veit nákvæmlega hvaða kona hefur verið á ferðinni á undan mér því reykingalyktin sem fylgir henni er svo mikil að maður finnur ólyktina strax við skóhillurnar frammi. Síðasta vetur var líka kona sem vandi komur sínar í laugina á morgnana og kom þá beint úr hesthúsinu með allan ilminn með sér og það var ekki sérlega vinsælt hjá öðrum sundlaugargestum. Ég reyndar viðurkenni að ég er sérlega viðkvæm fyrir megnri lykt, sem og miklum hávaða og skæru ljósi, þannig að ég er víst ekki alveg hlutlaus í þessum efnum. Og nú er ég hætt að blogga og farin að gera eitthvað nytsamlegt.

Valur bjargar jólunum

Já, heppin er ég að vera gift svona duglegum manni. Þar sem undirrituð er meira og minna í vinnunni þessa dagana (og úrvinda af þreytu þegar hún er heima) þá sýnir Valur enn og aftur úr hverju hann er gerður. Nú er hann búinn að baka 3 smákökusortir og kaupa jólatréð, fara með pakka í póst, þvo þvott, elda mat og bara standa sig eins og hetja í þessu öllu saman.

Hrefna og Erlingur eru komin heim í jólafrí og strákarnir eru líka komnir í jólafrí í skólanum. Andri er reyndar aðeins að hjálpa til í Pottum og prikum þessa dagana, það er svo mikið að gera að ekki veitir af smá auka aðstoð.

Fleira hef ég nú eiginlega ekki að segja, gat bara ekki sofnað og settist við tölvuna þegar ég var búin að liggja andvaka í klukkutíma. Ætli ég taki ekki smá bloggrúnt úr því ég er á annað borð komin með puttana á lyklaborðið.

sunnudagur, 14. desember 2008

Kvenkyns Ragnar Reykás

Já eða bara fröken öfugsnúin eitthvað. Í morgun svaf ég út og vaknaði ekki fyrr en að verða hálf tíu. Var bara nokkuð sátt við það enda orðin lúin eftir 10 daga vinnutörn. Fékk mér morgunmat með bóndanum og dúllaði mér svo við að lesa blöðin og var aðeins í tölvunni. Svo settist ég inn í stofu og fór að prjóna og hlusta á tónlist. Hugsaði með mér hvað það væri nú gott að slappa af og gera ekki neitt stundum. En Adam var ekki lengi í paradís. Fyrr en varði voru annars konar hugsanir farnar að ásækja mig. Hvurslags leti var þetta eiginlega? Af hverju var ég ekki á fullu að gera eitthvað nytsamlegt? Af hverju dreif ég mig ekki í að baka, hengja upp þvott, eða bara út að ganga í góða veðrinu....? Já, allt í einu var ég ekki lengur í minni notalegru hvíld sem ég átti skilið - heldur hafði breyst í letingja og hálfgerðan ræfil. Eftir smá stund áttaði ég mig samt á því hvað ég var mikill Ragnar Reykás og reyni nú að finna einhvern milliveg í þessu öllu saman.

P.S. Hvað Ragnar Reykás snertir þá hef ég ekki horft á Spaugstofuna í nokkur ár og veit ekki hvort hans karakter kemur þar ennþá fram... en hann byrjaði yfirleitt á því að hafa ákveðna skoðun á einhverju máli en talaði sig svo í 180 gráður og endaði á alveg öndverðum meiði.

fimmtudagur, 11. desember 2008

Jæja...

Það fer lítið fyrir bloggi þessa dagana. Fer reyndar lítið fyrir öllu öðru en vinnunni en það er víst eðlilegt hjá verslunarfólki í desembermánuði. Verra væri það nú ef það væri ekkert að gera... Það streyma til okkar vörur þessa dagana og við höfum ekki undan að taka uppúr kössum og raða í hillur. Við fengum risastóra sendingu í gær og eigum von á annarri á morgun svo það verður handagangur í öskjunni ef hún skilar sér. Nú svo þarf að sinna viðskiptavinunum og á meðan bíða kassarnir. Ég hef bara verið svo lúin á kvöldin að ég hef ekki nennt að fara aftur niður í búð eftir kvöldmat. En frá og með 17. des. og fram til jóla verður opið öll kvöld til klukkan tíu. Þá er víst ekki spurt að því hvort maður nenni ;-)

sunnudagur, 7. desember 2008

Mikið fjör í vinnunni þessa dagana

Já jólaösin er komin á fullt og maður sest ekki niður allan tímann í vinnunni. Sem er hið besta mál, þetta er ofsalega skemmtilegt og gefandi. Það er nóg að gera við að afgreiða viðskiptavinina, taka upp vörur og panta vörur. Minna fer fyrir dugnaði hér heima fyrir og ekki einu sinni búið að hnoða í eitt smákökudeig. En það gerir svo sem ekkert til enda var ástandið oft verra þegar ég var í háskólanum og að kenna. Þá var ég ýmist að taka próf eða fara yfir próf á þessum árstíma og jólaundirbúningur fór yfirleitt fram síðustu 3-4 dagana fyrir jól. En nú er ég hætt þessu rausi og farin að taka mig til fyrir vinnuna.

fimmtudagur, 4. desember 2008

Allt sem ég gerði ekki í dag...

Æ já, ég ætlaði að vera svo dugleg í dag en varð ósköp lítið úr verki. Til dæmis ætlaði ég að setja upp jólagardínurnar í eldhúsið og aðventuljósið en hvort tveggja er ennþá niðri í geymslu. Svo hafði ég bak við eyrað að kanna með jólaseríur til að hafa úti - og eins ætlaði ég að reyna að finna uppskriftir að hollum, glútenlausum jólasmákökum... en ekkert varð úr því heldur. En ég kláraði að færa bókhaldið, fór í nudd, heimsótti vinkonu mína og fór með bóndanum að sjá Bond í bíó. Þetta var dagurinn hjá mér í grófum dráttum. Vonandi verður frúin sprækari á morgun og nær að klára meira af "þarf að gera" listanum ;-)

mánudagur, 1. desember 2008

Birta að drekka myntute

Ég útbjó myntute áðan, með ferskri myntu úr Aerogarden innigarðinum okkar. Tók tebollann með mér inn í herbergi þar sem ég er að færa bókhald og lagði könnuna frá mér eftir að hafa tekið nokkra sopa. Var djúpt niðursokkin í að finna út úr einhverri talna-lönguvitleysu og vissi ekki fyrr en ég heyrði slurp slurp hljóð við hliðina á mér. Var þá ekki Birta mætt á svæðið og hafði nú aldeilis komist í feitt. Eins og sjá má lét hún það ekki einu sinni trufla sig þegar ég dró fram myndavélina og smellti af henni mynd ;-)