miðvikudagur, 25. febrúar 2009

Var að horfa á Grease með Ísaki

Hann tók leiklist sem einn valáfanga í skólanum og þau eiga að leika Grease á árshátíðinni. Hann rámaði eitthvað í að hafa séð Grease videospólu niðri í sjónvarpsherbergi og viti menn, þar var myndin. Ég ætlaði nú ekkert að horfa á hana með honum en settist í smá stund og stóð svo ekkert upp aftur fyrr en myndin var búin. Vissulega barn síns tíma en lögin standa svo sem fyrir sínu. Ótrúlega fyndið að horfa á göngulagið hjá töffurunum. Ólafur Ragnar í nætur- og dagvaktinni hefur áreiðanlega sótt í sömu smiðju þegar hann "þróaði" sitt göngulag. En já, maður fór nokkrum sinnum á Grease hérna í den. Og átti háskólabol sem á stóð "Rydell highschool" + svartan stuttermabol. Þetta þótti nú aldeilis flott :)

Annars er ég búin að krækja mér í einhverja leiðinda pesti með tilheyrandi hálsbólgu, höfuðverk og slappleika. Ég sem hélt að ég væri orðin ónæm fyrir svona pestum eftir að ég fór að fara alltaf í kalda sturtu eftir sundið... Dugar greinilega ekki alveg til. En brandarinn er sá að á morgun átti ég tíma hjá sjúkraþjálfaranum - og þurfti að hringja í dag og afpanta hann (þetta fer að verða "never ending story"). Sjúkraþjálfarinn sem er líka búinn að vera veikur sagði að þetta væri þrálát pesti og ég skyldi fara vel með mig. Ég er búin að redda mér fríi úr vinnunni á morgun og ætla að reyna að hvíla mig bara sem mest. Mér hefur að minnsta kosti ekki versnað í dag, það hlýtur að vera góðs viti.

þriðjudagur, 24. febrúar 2009

Orðið bjart á morgnana :)

Já ég horfi ekki lengur upp í svarta myrkur þegar ég syndi baksund á morgnana. Jibbý!

sunnudagur, 22. febrúar 2009

Bollukaffi


Bollukaffi, originally uploaded by Guðný Pálína.

Já húsfrúin bakaði bæði speltbollur og hefðbundnar bollur í dag. Var svona vel upplögð eftir að hafa farið í ræktina með bóndanum. Svo komu Andri og Sunneva í bollukaffi og óvæntur gestur líka þannig að ég var voða glöð að einhverjir skyldu vilja bollurnar mínar... ;-)

laugardagur, 21. febrúar 2009

Ef þið sjáið konu á bláum upphækkuðum landrover jeppa

sem gefur aldrei stefnuljós, þá er það væntanlega ég. Eins og þessi blessaður jeppi er nú mikil dásemd að keyra (smá djók) þá hefur hann þennan eina galla. Það er alveg sama hvað maður rembist við að gefa stefnuljós, annað hvort kemur það hreint ekki (festist ekki inni) eða ef það kemur þá dettur það af um leið og maður byrjar að snúa stýrinu í þá átt sem ætlunin er að beygja. Nú eða bara ef maður ekur yfir í smá ójöfnu.

Annars var ég á leið í sund áðan (á jeppanum, þar af leiðandi þessar stefnuljósahugleiðingar) en þegar þangað kom voru bara tveir bílar á bílastæðinu. Nokkuð sem mér fannst ekki lofa góðu. Sá ég svo konu koma gangandi í átt til mín og dokaði við til að tala við hana. Þetta var þá systir gamallar vinkonu minnar og hún tjáði mér að nýjar reglur um opnunartíma væru á hurðinni. Jamm, ég hélt að ég vissi það nú... hef bara horft á þennan miða í þónokkurn tíma núna - en greinilega án þess að fá með mér það sem máli skipti. Mér fannst nefnilega eins og verið væri að breyta kvöldopnuninni og spáði ekki mikið í það þar sem ég fer aldrei í sund á kvöldin. En sem sagt, hér koma smá upplýsingar af síðu Akureyrarstofu

"Opnunartími Sundlaugar Akureyrar: Virkir dagar frá kl. 6.45-21.00. Um helgar frá kl. 8.00-18.30. Frá 16. febrúar til 1. maí er opið frá kl. 10.00 um helgar."

Og þá vitið þið það!

föstudagur, 20. febrúar 2009

Og enn meiri rólegheit


Frost, originally uploaded by Guðný Pálína.

Ég hef verið svo þreytt undanfarið og er að gera tilraun til að safna kröftum. Þannig að í dag fékk ég Önnu til að vinna fyrir mig og tók mér bara alveg frí. Nú er ég hins vegar farin að efast um að það hafi verið rétt ákvörðun því ég er bara ennþá þreyttari. Dagurinn byrjaði raunar ágætlega, ég fór í sund, borðaði morgunmat og svoleiðis. Um hálfellefuleytið var ég hins vegar orðin úrvinda af þreytu og hafði þó ekki gert neitt nema ganga frá í eldhúsinu. Ég var búin að mæla mér mót við vinkonu á kaffihúsi í hádeginu og þar sátum við og spjölluðum í tæpa tvo tíma. Svo þurfti ég aðeins að útrétta en dreif mig svo heim og uppí sófa. Þar steinsofnaði ég og svaf í klukkutíma. Og hef verið eins og drusla síðan ég vaknaði. Alveg furðulegt hvað er hægt að vera þreyttur af engu!

fimmtudagur, 19. febrúar 2009

Rólegheitadagur

Ég var að vinna seinni partinn í dag og þar af leiðandi í fríi í morgun. Byrjaði á mínu venjubundna morgunsundi en átti tíma hjá sjúkraþjálfara klukkan tíu. Um hálftíu var hringt og tíminn afboðaður. Er það í þriðja sinn sem það gerist, fyrst vegna þess að maðurinn þurfti að fara í foreldraviðtal vegna barna sinna og svo vegna veikinda í tvö seinni skiptin. Svona getur þetta raðaðast niður.
En ég fór í staðinn á bókasafnið og dundaði mér þar í rúman klukkutíma. Á Amtscafé var verið að elda hádegismat og matarilmurinn svo mikill að það endaði með því að ég keypti mér mat og settist þar niður með kjúklingarétt og tímarit. Það var mjög gaman að fylgjast með samsetningu gestanna sem komu þangað til að borða hádegismat, allt frá verkamönnum í bláum samfestingum til starfsmanna verðbréfamiðlunar í stífpressuðum jakkafötum. Þverskurður af þjóðfélaginu sýndist mér.
Þegar ég kom heim aftur lagðist ég uppí sófa með slökunartónlist í eyrunum og steinsofnaði (hef átt í smá vandræðum með svefninn undanfarið og því orðin langþreytt). Það var nú samt ekki á dagskránni að sofna svona rétt fyrir vinnu, svo ég vaknaði með andfælum og ákvað að skella í mig tebolla til að hressa mig. Þá var teið svo heitt og ég drakk það svo hratt að mér snarhitnaði allri og þurfti á endanum að rífa mig úr að ofan til að kæla mig niður.
Í vinnunni var svo frekar rólegt, a.m.k. það rólegt að ekki var ástæða til að hafa tvo starfsmenn á svæðinu, þannig að ég dreif mig bara snemma heim. Frammi í eldhúsi stússast Valur eins og hans er von og vísa. Heimatilbúin pítsa er á matseðlinum í kvöld. Og prinsessan ég mun víst ekki taka neinn þátt í matargerðinni, nema búa til salatið með pítsunni. Þannig að nú er ég farin að kíkja á allar bækurnar og tímaritin sem ég tók á bókasafninu. Þvílíkur munur að mega velja eins margar bækur og maður vill - það er af sem áður var þegar mátti bara taka fjórar bækur að láni í hvert sinn.

þriðjudagur, 17. febrúar 2009

17. febrúar, Andri 19 ára


Já, tíminn flýgur (ég er alltaf að segja það sama, ég veit það). Andri bara orðinn 19 ára, stór og flottur strákur. Pabbi hans eldaði nautakjöt í tilefni dagsins, eftir óskum afmælisbarnsins, og Sunneva kom og borðaði með okkur. Kjötið tókst alveg sérlega vel hjá kokknum og allir voru glaðir. Eftir matinn fór ég í tölvuna að athuga eitthvað og opnaði póstinn minn í leiðinni. Var þá verið að auglýsa ferðir til Stokkhólms á spottprís. Einungis var hægt að bóka í dag og ferðina varð að fara í mars. Nú hittir þannig á að Valur er að fara á læknaþing norrænna þvagfæraskurðlækna í Stokkhólmi í mars... þannig að þetta var nokkuð augljóst merki um að ég ætti að fara með honum... eða þannig skildi ég það alla vega. Pantaði flugið og var bara nokkuð ánægð með að hafa álpast til að opna póstinn minn :-)

mánudagur, 16. febrúar 2009

Fataviðgerðir voru á verkefnalista kvöldsins

En það er á mörkunum að ég nenni að setjast niður með nál og tvinna í hönd. Nenni reyndar engu en það er nú önnur saga. Svo er auðvitað ýmislegt sem flækir þessi viðgerðarmál. Til dæmis ætlaði ég að gera við svarta peysu - en - vandamálið er að mér er kalt. Og þegar mér er kalt hérna heima fer ég í það sem Valur kallar þjóðbúninginn, hnausþykka gamla flíspeysu. Nema hvað, þar sem mér er oft kalt nota ég þessa flíspeysu ansi mikið hér heima við og .... afleiðingin er sú að hún er öll útötuð í kattarhárum. Það er alveg sama hvað ég reyni að rúlla hana, ég er varla búinn að rífa utan af límrúllunni þegar peysan er aftur komin með loðfeld. Og þar sem kattarhár og svört peysa eru ekki sérlega góður kokteill þá er spurning hvort ég verð ekki bara að bíða með viðgerðirnar. Ekki nenni ég að fara úr flíspeysunni...

sunnudagur, 15. febrúar 2009

Eldaði þessa fínu grænmetissúpu í kvöldmatinn

Já, þetta get ég :) Valur var eitthvað ólíkur sjálfum sér í dag (hálf slappur, spurning hvort hann er með sömu pesti og hefur verið að hrjá mig) og var ekki í stuði til að elda í kvöld. Þar sem ég er hins vegar öll að hressast (a.m.k. svona inn á milli) ákvað ég að gera súpu. Saxaði lauk, hvítlauk, sætar kartöflur, gulrætur og spergilkál og svissaði í ólífuolíu í smá stund. Bætti út í slatta af vatni + grænmetistengingum + tómatpuré + tómötum í dós og lét sjóða í 10 mín. Þá bætti Valur (þegar hér var komið sögu var ég orðin svo lúin að ég þurfti að hvíla mig í smá stund...) í 2 dl. af pastaslaufum handa Ísak því honum finnst það svo gott og síðan fékk súpan að malla í 10 mín. í viðbót. Grænmetissúpunni var svo ausið á diska og rifnum parmesanosti dreift yfir. Nammi namm. Þessi uppskrift kemur víst úr "Af bestu lyst" nr. 1 svo ekki get ég nú eignað mér heiðurinn af henni en eins og allir "alvöru" kokkar þá breytti ég uppskriftinni auðvitað aðeins... Þetta síðasta var nú djók, lít ekki á mig sem neinn kokk, en svei mér þá, mér finnst nú stundum bara gaman að elda. Súpuna borðuðum við af nýju súpudiskunum sem keyptir voru í Pottum og prikum.

Erfiðir dagar

Já síðustu dagar hafa verið hálf undarlegir og leiðinlegir vegna heilsuleysis undirritaðrar. Er sjálfsagt með einhverja víruspesti í mér þó ég sé hvorki með hálsbólgu né hósta. Er bara ótrúlega slöpp og sloj og ýmist of heitt eða of kalt. Svaf lungann úr deginum í gær en það kom samt ekki í veg fyrir að ég svæfi eins og steinn í nótt. Líður skár í dag og vona að ég haldi bara áfram að hressast.

Aðrir fjölskyldumeðlimir eru sem betur fer frískir og fínir. Valur fór í fjallið í gærmorgun, út að taka myndir um miðjan daginn og eldaði svo þessa dýrindis máltíð í gærkvöldi. Er á leið í ræktina á eftir. Engin uppgjöf þar á bæ. Andri bauð kærustunni út að borða í gærkvöldi í tilefni hins amerísk-ættaða valentínusardags og hefur ekki sést hér síðan. Ísak fékk vin sinn í gistingu í nótt og þeir sváfu frameftir en eru nú komnir á fætur og sestir fyrir framan ferkantaðan skjá. Birta og Máni lifna öll við um leið og dregur úr frostinu en liggja nú á púða hér við hliðina á mér í sófanum (ég sit nú reyndar upprétt núna, ótrúlegt en satt!). Hrefna er á sínum stað úti í Köben, búin að mála alla íbúðina og sjálfsagt svolítið lúin eftir það. Held að ég láti þessari upptalningu á högum okkar lokið í bili.

Hef reyndar verið að spá í að taka mér bloggpásu - enda lítið varið í að lesa endlaust væl um sjúkdóma, þreytu og þvíumlíkt. Ég fæ náttúrulega útrás með þessu væli mínu og líður örlítið betur á eftir... en spurning hvor ég get ekki alveg eins skrifað bara gamaldags dagbók ef það er eini tilgangurinn?

föstudagur, 13. febrúar 2009

Einhvern veginn finnst mér ekki alveg við hæfi...

að blogga svona um miðja nótt. En hvað annað á maður (kona) að gera sem ekki getur sofið og vill ekki trufla makann með því að kveikja ljós í svefnherberginu og fara að lesa? Hins vegar er smá vandamál, ég hef svo sem ekkert gáfulegt að segja. Ég gæti reyndar kvartað yfir maganum á mér sem er búinn að vera með vesen frá því í gærmorgun. Einhver athyglissýki í gangi þar, sem endaði með því að ég ældi kvöldmatnum í klósettið núna áðan, eftir að hafa verið andvaka með magapínu frá því um miðnættið. Nú er bara að sjá hvort sú losun dugar til. Já, þetta er nú aldeilis spennandi blogg! Ætli sé ekki best að drattast í þriðja sinn í rúmið þessa nóttina og reyna að sofna. En bara til að dreifa athyglinni frá þessum afar óspennandi pistli kemur hérna ein mynd. Reyndar mynd sem Valur tók og ég tek mér það bessaleyfi að birta hana hér. En eins og sjá má er þetta sólblóm á akri sem var rétt hjá sundlauginni okkar í Toscana. Það veitir ekkert af að fá smá gult og grænt eftir allar bláu og hvítu myndirnar undanfarið ;-)

miðvikudagur, 11. febrúar 2009

Er að fara til tannlæknis...

Og nenni því alls ekki. Það þarf nefnilega að gera við innsta jaxlinn vinstra megin í neðri kjálka og það þýðir að ég þarf að gapa alveg hreint ógurlega til að tannsi geti unnið í tönninni. Ég er hins vegar eitthvað viðkvæm í kjálkunum og þreytist mjög á því að gapa svona. Enn eina ferðina brotnaði út úr fyllingu hjá mér, nokkuð sem mér finnst sífellt vera að gerast. Það er allt þetta hollmeti sem fer svona með mig... Núna gerðist þetta þegar ég var að borða salat sem í var bæði rauðkál og hvítkál, hrátt hvorutveggja og þess vegna örlítið hart undir tönn. Síðast var ég að borða epli. Það situr reyndar afskaplega fast í minninu vegna þess að við vorum að fara frá Berlína og þegar ég gekk tröppurnar upp í flugvélina beit ég stóran bita af eplinu og ... missti stóran hluta framan af næstu tönn innan við augntönn. Þetta var haustið 2007 og munnurinn á mér hefur nú svo sem verið til friðs síðan. En ég gat varla brosað framan í nokkurn mann með svart gat þar sem hvít framhlið hefði átt að vera og þegar við fórum svo í innanlandsflugið var þar flugþjónn sem ég þekki sem brosti ósköp blítt til mín en ég var bara "fúl á móti". Jæja og nú er víst best að fara að gera sig klára fyrir tannsa.

mánudagur, 9. febrúar 2009

Yndislegt!

Eftir að hafa verið gjörsamlega úrvinda af þreytu undanfarið er ég loks farin að sjá til sólar á ný. Ég sat og var að borða kvöldmatinn þegar ég áttaði mig á því að eitthvað var öðruvísi en venjulega - og fann að ég var bara ekkert þreytt! Æðisleg tilfinning. Að vísu lagði ég mig aðeins í morgun áður en ég fór í vinnuna... en engu að síður þá er góð tilbreyting að líða einu sinni eins og ég sé venjuleg en ekki síþreytusjúklingur :)

Síðdegi


Síðdegi, originally uploaded by Guðný Pálína.

Þá er helgin að baki og hefðbundin vinnuvika framundan. Ég er samt ekki að fara að vinna fyrr en klukkan tvö og er að bræða það með mér hvort ég á að fá mér smá kríublund áður, eða ekki... Er búin að vera óttalega syfjuð í morgun enda var dagskrá helgarinnar óvenjumikil. Matarboð á föstudagskvöldi, vinna á laugardegi og þorrablót á laugardagskvöldinu. Í gærmorgun fengum við svo vinafólk í morgunkaffi og vorum mjög ánægð með að ná að hitta þau aðeins. Seinni partinn fórum við Valur svo út að taka myndir og vorum örugglega tvo tíma úti í frostinu, enda var mér orðið ansi kalt á tánum og þá sérstaklega á fingrunum. Það var ótrúlega sárt þegar þegar þeir fóru að þiðna aftur. En það var hressandi að vera úti og ekki hægt að kvarta yfir skorti á myndefnum. Himininn var sérstaklega fallega blár þegar hann bar við hvítan snjóinn og endurspeglaðist blái liturinn í sjónum. Ekki spillti fyrir að tunglinu fannst ástæða til að spóka sig í góða veðrinu. Ég tók hátt í tvöhundruð myndir, en nú bar svo við að nærri engin þeirra heppnaðist eins nógu vel. EIn ástæða þess var sú að ég var að prófa að fókusera sjálf í staðinn fyrir að nota sjálfvirka fókus vélarinnar, og ég er greinilega farin að sjá illa því flestar þeirra mynda urðu ansi hreint þokukenndar... ;-)

föstudagur, 6. febrúar 2009

Hvimleiður hjartsláttur

Eitt allra hvimleiðasta einkenni vefjagigtarinnar er hraður hjartsláttur. Sem betur fer geta liðið mánuðir á milli þess að ég fæ svona hjartsláttarköst, en þegar þau koma þá eru þau svo ferlega óþægileg. Það er í raun fáránlegt að vera með 130 í hvíldarpúls og finna fyrir hverju einasta slagi, búmm, búmm, búmm. Inn á milli koma svo stundum aukaslög, svona til að gera þetta aðeins meira spennandi. Ég hef verið með þennan hraða hjartslátt meira og minna undanfarna daga og er að verða svolítið leið á því. Núna áðan fór ég meira að segja og lagðist uppí sófa og hlustaði á slökunartónlist í tilraun til að koma lagi á hjartsláttinn. Ekki dugði það nú samt til. Nú veit ég alveg að þetta er ekkert hættulegt svo ég er ekki áhyggjufull yfir þessu, þetta er bara óþægilegt. Æ jæja, þetta lagast einhverntímann. Og nú er ég að fara í sturtu og svo í vinnuna. Síðan erum við að fara í matarboð í kvöld og á þorrablót á morgun, þannig að það er brjáluð dagskrá. Ég er líka að vinna á morgun og svo er vinafólk okkar statt í bænum þannig að gaman væri að hitta þau. Það getur hins vegar reynst erfitt því bæði eru þau afskaplega upptekin og svo er nóg að gera hjá okkur líka. Hittir svona á í þetta skiptið.

þriðjudagur, 3. febrúar 2009

Fjallasýn


Fjallasýn, originally uploaded by Guðný Pálína.

Veðrið hefur verið með afbrigðum fallegt þessa síðustu daga, blár himinn og hvítur snjór og loksins er farið að birta eitthvað að ráði aftur eftir mesta skammdegismyrkrið. Reyndar hefur verið ansi kalt úti og jafnvel inni... Það eru ennþá vandamál með hitann í nýbyggingunni á Glerártorgi. Í morgun var t.d. bara 16 stiga hiti í búðinni þegar ég kom í vinnuna kl. 10. Ég vissi reyndar að það yrði kalt (úti var 12 stiga frost) og var vel undirbúin, í síðum ullar-gammósíum og í peysu sem er að hluta til úr ull. Loks var ég með ullarsjal og var þá bara í nokkuð góðum málum. Slapp alveg við að verða ískalt inn að beini eins og mér verður stundum. Hins vegar er svo agalega rólegt í vinnunni þessa dagana að tíminn er nú frekar lengi að líða. En þá hef ég nú alltaf bókhaldsmöppurnar að dúlla mér með...

sunnudagur, 1. febrúar 2009

Sunnudagsrúntur

Við Valur fórum í ljósmyndaferð út að Gásum í dag. Eins og stundum vill verða voru flestar myndirnar mínar misheppnaðar (æ eða kannski ekki beint misheppnaðar sem slíkar, bara óspennandi) en það var ótrúlega frískandi að ganga þarna um í frostinu og bara vera úti og njóta súrefnis og sólar :-)

Jæja...

Þá er ég búin að fara í sund í morgun og borða minn daglega morgunhristing. Þar með eru afrekin upptalin og klukkan að verða hálftólf, þannig að ekki er ég að rifna úr dugnaði í dag. Markmiðið er að taka smá tiltektarskorpu, fara að versla og kannski út að taka myndir. Já og færa smá bókhald, því var ég búin að gleyma. Best að drífa sig í það áður en Pottar og prik opna kl. 13 því þá get ég ekki verið að vinna í kerfinu. Ef ég hef yfirhöfuð eirð í mér til að sitja kyrr á rassinum og vinna í tölvu. Er eitthvað svo eirðarlaus í augnablikinu. Það er reyndar alveg hrikalega flott veður úti núna og líklega finnst mér að ég hefði frekar átt að fara á skíði með eiginmanninum en sitja hálf súr hérna heima. Það er reyndar á dagskránni að prófa að fara á skíði en ég er frekar stressuð með það út af "lata fót" og vil þá vera vel upplögð þegar ég fer. Og nú er ég hætt þessu rausi.