þriðjudagur, 30. maí 2006

Gleymdi að segja frá því

að Andri er óðum að hressast eftir botnlangaaðgerðina og finnur ótrúlega lítið fyrir skurðinum. Og á sama tíma er hnéð á mér allt að koma til, á reyndar í erfiðleikum með að ganga upp/niður tröppur ennþá en það kemur. Batnandi heilsufar og sól úti, hvað vill maður hafa það betra?

Þögn í húsinu

Ísak fór í gærmorgun vestur í Dali, á slóðir Leifs Eiríkssonar, með bekknum sínum. Þau hafa verið að læra um landnámið í vetur og þessi ferð er endapunkturinn á góðum vetri hjá þeim. En það sem gerist þegar Ísak er ekki heima, er að það verður dauðaþögn í húsinu (eða nánast). Þegar Ísak er heima þá hringir dyrabjallan nefnilega linnulaust og hið sama gildir um símann, það er alltaf verið að spyrja eftir honum. Sem er hið besta mál, betra að barnið eigi marga vini en enga, en stundum getur maður orðið ansi þreyttur á þessum sífelldu hringingum og látum. En eins og þögnin getur verð góð inn á milli þá má hún heldur ekki standa of lengi. Þannig að það er bara gott að drengurinn er að koma heim í dag ;-)

sunnudagur, 28. maí 2006

Það er alltaf eitthvað...

Nýjustu fréttir af heilsufari fjölskyldunnar eru þær að Andri vaknaði með magaverki í morgun - og áðan var tekinn úr honum botnlanginn. Til að kóróna ástandið átti hann að leggja af stað í útskriftarferð 10. bekkjar í fyrramálið en þau fara m.a. uppá Snæfellsjökul, í go-kart og rafting. Krakkarnir eru búin að vera að safna fyrir ferðinni í allan vetur. Meiri óheppnin að þetta skuli einmitt hafa þurft að gerast núna :-( Gott samt að það uppgötvaðist áður en hann var farinn af stað, hefði verið verra að veikjast í ferðinni. Já, það er áframhaldandi fjör í Stekkjargerði sjö!

fimmtudagur, 25. maí 2006

Leiðindi...

Ég hef bæði verð leiðinleg kona í dag og svo hefur mér líka leiðst. Eftir að hafa haltrað um allt í tvo daga og haldið áfram því sem ég þurfti að gera s.s. fara yfir próf og koma frá mér einkunnum, var fóturinn á mér alveg búinn að fá nóg seinnipartinn í gær. Ég var með stanslausa verki í hnénu, sama hvernig ég hagræddi mér, og það fór að síast inn í höfuðið á mér að framundan væru erfiðir dagar. Ég yrði að slappa af og hvíla hnéð ef mér ætti að batna. Vaknaði upp í morgun og vorkenndi sjálfri mér óskaplega. Ekki gat ég farið í sund og ekki gat ég farið út að ganga. Valur benti mér á að ég gæti glaðst yfir því að hafa ekki verið á leiðinni í gönguferð útlöndum eða eitthvað álíka sem ég hefði þurft að sleppa. Það dugði mér þó ekki lengi. Ég hélt áfram að vorkenna mér - og mikið óskaplega sem sjálfsvorkunn er ömurleg tilfinning. Mæli ekki með henni, gerir örugglega engum gott.

Það eru uppi kenningar um það að maður hafi sjálfur möguleikann til að stjórna sínum hugsunum, t.d. ef ég hugsa neikvæðar hugsanir og tek eftir því þá á ég að hugsa jákvætt og sigrast þannig á neikvæðninni. Og í sama anda, að allt sem kemur fyrir mann gerist af einhverri ástæðu og maður hafi tækifæri til að gera gott úr reynslunni í stað þess að verða miður sín og komast ekki upp úr vonleysinu. Einhverra hluta vegna er svo miklu auðveldara að trúa þessum kenningum þegar allt er í lagi hjá manni. Auðvelt að trúa því að maður geti barist við neikvæðar hugsanir þegar maður er í góðu skapi og þegar maður er frískur er auðveldara að trúa því að hnéskel sem fer úr liði geti fært manni eitthvað gott. Mér er sem sagt ekki alveg að takast það að vera jákvæð núna... en það kemur að því ;-)

þriðjudagur, 23. maí 2006

Ef einhver vegfarandi

hefði átt leið fram hjá grænu húsi við Stekkjargerði í gærkvöldi hefði hann orðið vitni að furðulegu atviki. Kona nokkur kom keyrandi og lagði bíl sínum inni í bílskúr við húsið. Hún kom út úr bílskúrnum og ætlaði að taka á sprett inn í hús til að komast sem fyrst inn úr hríðinni. En hún hafði vart tekið nema tvö eða þrjú skref þegar fótunum var skyndilega kippt undan henni, líkt og hún hefði orðið fyrir skoti, og hún féll í götuna. Vinstra hnéð var bogið og hún lá þarna öskrandi af sársauka í óratíma að því er virtist og hélt um hnéð. Tíminn var líklega ekki nema tvær mínútur í mesta lagi en það voru ekki fögur hljóð sem hún gaf frá sér. Smám saman virtist hún þó ná að yfirvinna sársaukann og eftir smá stund staulaðist hún á fætur. Bíllyklarnir höfðu flogið nokkra metra í burtu við fallið og hún beygði sig niður með erfiðismunum og tók þá upp. Tröppurnar að húsinu voru næsta hindrun en með því að stíga í hægri fótinn fyrst og styðja sig með höndunum tókst henni að hálf skríða, hálf ganga upp tröppurnar. Þegar inn var komið hné hún niður í sæti í forstofunni og lét það eftir sér að fara að gráta. Sársaukinn sem hafði verið nánast óbærilegur í byrjun var í rénum en hún grét engu að síður í smá stund. Ellefu ára syni hennar stóð ekki á sama en mamman reyndi að fullvissa hann um að allt væri í góðu lagi, hún hefði bara meitt sig aðeins og það myndi jafna sig. Tók því næst upp símann og hringdi í eiginmanninn, sem var fjarverandi, til þess að láta vorkenna sér. Að símtalinu loknu staulaðist hún inn í herbergi eldri sonarins þar sem hún vissi að væri teygjubindi að finna og batt utan um hnéð. Þegar það var búið haltraði hún niður stigann, eitt þrep í einu, niður í kjallara og fór að horfa á sjónvarpið. Ennþá var samt sársaukastingur í hnénu og hún ákvað að taka ibufen áður en hún færi að sofa.

Eins og lesandann rennir vafalaust í grun um, þá er konan engin önnur en ég. Og hvað gerðist? Jú, hnéskelin á mér fór úr liði, ekki í fyrsta sinn, en þó held ég að það séu örugglega tíu ár síðan það gerðist síðast. Þá small hún ekki í liðinn af sjálfu sér eins og í gær, heldur þurfti Valur að hjálpa til. En mikið hrikalega er þetta vont!

mánudagur, 22. maí 2006

Veðrið bregst ekki sem umræðuefni

á Íslandi. Það er nánast sama hvern ég hef hitt í dag, allir eru að kvarta yfir veðrinu - ef ekki kvarta, þá a.m.k. að tala um það. Skyldi kannski engan undra enda norðanátt og él. Kona sem var fyrir sunnan um helgina sagði að sér hefði hreinlega liðið eins og hún væri komin til annars lands (hvorki meira né minna!). Veðrið hafði verið miklu betra og allur gróður kominn mun lengra á veg heldur en hér fyrir norðan. Fólk hefði verið að spila golf og að vinna í görðunum - á meðan það var snjókoma hér. Svona er þetta víst bara, þýðir lítið að sýta það. Það er nú ekki eins og það sé alltaf eitthvað paradísarveður fyrir sunnan heldur...

föstudagur, 19. maí 2006

Það er í raun merkilegt

hve mikið selst af gosdrykkjum í heiminum, sérstaklega þegar haft er í huga að gos er ekki sérlega góður drykkur! Mér finnst gos ekki gott lengur og drekk það nánast aldrei (nema þegar það er pítsa í matinn). Gerði undantekningu núna áðan og keypti mér Coke light með samlokunni sem ég borðaði í hádeginu. Er bara komin "niður að öxlum" í flöskunni en magaummálið er orðið á við nokkurra mánaða meðgöngu (ég sem sagt belgist öll út af lofti sökum koltvísýringsins). Skil ekki þegar ég geri svona mistök - læt það nú vera ef mér fyndist gos vera gott á bragðið þá gæti ég frekar þolað smá uppþembu og rop - en mér finnst gos vont. Af hverju í ósköpunum er ég þá að kaupa það?

Sólin var svo vingjarnleg

að brjótast út úr skýjunum akkúrat á meðan ég synti mínar 30 ferðir í morgun. Kann ég henni mínar bestu þakkir fyrir ;-)

fimmtudagur, 18. maí 2006

Varúð - montblogg!

Eldri sonurinn afrekaði það um daginn að fá fern verðlaun á uppskeruhátíð vetrarins í handboltanum (eins og Halur var reyndar áður búinn að segja frá á sínu bloggi). Hann fékk verðlaun fyrir mestu framfarir í 4. flokki karla, mestu framfarir á eldra ári í flokknum, var í þriðja sæti sem besti leikmaður og síðast en ekki síst var hann kosinn besti félaginn af hinum leikmönnunum. Þetta er frábær árangur og virkilega ánægjulegt því hann var jú að hugsa um að hætta að æfa handbolta s.l. haust.

Svo hringdi dóttirin í mig í morgun kl. átta til að leyfa mér að heyra að hún væri komin með þrjár einkunnir af fjórum í skólanum. Hafði fengið 9,5 í tveimur fögum og 9.0 í einu. Það hlakkaði vel í henni því mamma hennar hafði verið farin að hafa áhyggjur af dömunni sem mætti illa í skólann og nennti lítið að læra heima. Eitthvað hafði mamman meira að segja verið farin að minnast á að fólk sem aldrei lærði gæti fallið. En þessi börn mín virðast vera mun betur gefin en ég, ég þarf nefnilega að læra til að fá hátt á prófum...

Og þar sem ég er að hrósa börnunum þá get ég ekki skilið yngri soninn útundan. Honum gengur líka vel í öllu sem hann tekur sér fyrir hendur, sama hvort það er skólanám, íþróttir eða skák.

Það er sem sagt virkilega ástæða til að gleðjast og vera ánægð fyrir þeirra hönd. Því hvað vill maður meira í lífinu en að börnunum manns gangi vel?

miðvikudagur, 17. maí 2006

Í hverjum hópi nemenda

er yfirleitt einn sem skrifar svo afspyrnu illa að ég á í mestu vandræðum með að fara yfir prófið hjá viðkomandi. Hingað til hafa þetta nú oftast verið karlmenn en það er kvenmaður sem á þennan vafasama heiður í ár. Það er nógu leiðinlegt að fara yfir próf, þó það bætist ekki við að þurfa að eyða löngum tíma í að klóra sig fram úr því sem stendur á blaðinu. Þykist maður nú samt ýmsu vanur.

Annars er ég hálf miður mín í dag. Í sundinu í morgun frétti ég að ein af fastagestunum hefði fengið heilablóðfall í síðustu viku. Þessi kona (sem er ekki nema ca. tíu árum eldri en ég) heilsar mér alltaf glaðlega og er ægilega hress og mikill orkubolti. Nú liggur hún á sjúkrahúsi og á erfitt með hreyfingu og tjáningu. Mér dauðbrá við þessar fréttir og er ekki búin að jafna mig ennþá. Skrýtin tilviljun að í síðustu viku fór ég á bókasafnið og tók að láni bókina "Afmörkuð stund" eftir Ingólf Margeirsson, en hún fjallar einmitt um reynslu hans af því að hafa fengið heilablóðfall. Þetta er reyndar mjög góð bók og vel þess virði að lesa hana.

En nú er best að halda áfram að fara yfir próf ;-)

sunnudagur, 14. maí 2006

Einhver bloggþreyta

er í mér þessa dagana. Finnst ég hálf andlaus eitthvað og ekki hafa frá neinu að segja. Veit svo sem af reynslunni að líklega er þetta bara tímabil sem gengur yfir. Eina spurningin er hvort maður á að sleppa því að blogga þegar svona er ástatt - eða blogga og drepa alla úr leiðindum sem álpast inn á þessa síðu?

Viðskiptadeildin bauð öllu starfsfólki sínu í mat á föstudagskvöldið. Ég ætla ekki að segja hvar við borðuðum - en maturinn var nánast óætur! Til dæmis voru rækjur í köldu salati seigar eins og skósólar, soðnu kartöflunum hafði verið velt upp úr einhverri piparblöndu og voru hrikalega bragðvondar, brúna sósan með lambakjötinu var nánast svört á litinn og með einhverju villibragði sem passaði alls ekki við kjötið, brokkólíið og gulræturnar höfðu verið soðnar í hálftíma minnst og það var búið að krydda grænmetið með einhverju kryddi sem ég kann engin skil á og bragðaðist ekki vel. Ég læt hér staðar numið í þessari upptalningu en ef ég hefði átt að borga sjálf fyrir matinn þá hefði ég ekki verið glöð. Félagsskapurinn hjálpaði mikið upp á vondan mat og þetta varð hið ánægjulegasta kvöld.

Svo buðum við Valur börnum og tengdasyni út að borða á Greifanum á laugardagskvöldinu og það var bara mjög gaman líka. Sem betur fer hafði ég pantað borð eftir ábendingu frá Hrefnu en það var alveg stappfullt þarna inni strax klukkan sex.

Læt þessum andlausa pistli lokið, á morgun byrjar prófayfirferð og er ég strax farin að hlakka til, eða þannig, þetta eru "bara" um 80 próf....

fimmtudagur, 11. maí 2006

Birta og Máni


Birta og Máni, originally uploaded by Guðný Pálína.

eru þreytt þessa dagana. Eftir að hafa hálf partinn legið í dvala yfir veturinn eru þau núna úti í sólinni stóran hluta dags og það eru aldeilis viðbrigði. Enda þurfa þau að hvíla sig inn á milli.

Annars er þetta að breytast í hálfgert myndablogg hjá mér - spurning hvort það er nokkuð verra?

miðvikudagur, 10. maí 2006

Var ótrúlega utanvið mig í morgun

Gleymdi nestinu mínu heima, læsti sundgleraugun mín inni í skápnum í búningsklefanum og fór í sundbolinn öfugan (tók reyndar eftir því og snéri honum við áður en ég fór ofan í laugina). Sem minnir mig á það þegar við Valur fórum einu sinni í hjónaferð austur á land. Fyrsta stopp var í Mývatnssveit og þar fórum við í sund. Það var sól úti og eftir að hafa dólað í heita pottinum um stund skelltum við okkur í sólbað þar við hliðina. Þá kom eldri kona og gekk rösklega í átt að heita pottinum. Hún bar höfuðið hátt og var greinilega í góðu skapi. Fólki varð ansi starsýnt á þá gömlu en flestir litu þó fljótt undan og virtust ekki alveg vita hvernig þeir áttu að haga sér. Ástæðan? Jú, blessuð konan hafði gleymt að fara í sundbolinn! Hún áttaði sig á því hvers kyns var þegar hún var að fara ofan í pottinn og snérist þá snögglega á hæli og hljóp við fót inn aftur. Ég reiknaði ekki með því að sjá hana aftur, ef þetta hefði komið fyrir mig hefði ég pottþétt látið mig hverfa, en hún birtist að vörmu spori (í sundbol í þetta skiptið) og lét þetta litla óhapp ekkert á sig fá. Gott hjá henni!

sunnudagur, 7. maí 2006

Veðurblíða með eindæmum


Veðurblíða, originally uploaded by Guðný Pálína.

Veðrið í dag og í gær var framar öllum vonum. Yndislegt alveg! Það var þess vegna alveg upplagt að setja út garðhúsgögnin og fá sér morgun/hádegismat úti í góða veðrinu. Eins og sjá má erum við Ísak eins og blindir kettir í sólinni. Ef grannt er skoðað má sjá köttinn Birtu í skugganum bak við stólinn minn. Birta og Máni eru lík mannfólkinu að því leytinu að þau elska sólina og góða veðrið og finnst fátt betra á svona dögun en snattast í kringum okkur í garðinum.

fimmtudagur, 4. maí 2006

Sjáið tindinn, þarna fór ég... (í fyrrasumar)..


Súlur, originally uploaded by Guðný Pálína.

Valur hins vegar hljóp þarna upp um páskana. Var víst erfitt síðustu metrana því hann var ekki með mannbrodda á skónum og ísingin var mikil.

Halur fjallaði um innsláttarveiki

í nýlegum pistli sínum. Einmitt núna er ég að lesa texta sem er svo stútfullur af innsláttarvillum, stafsetningarvillum, hugsanavillum og bara hvers kyns villum, að mig langar mest að henda þessu út í hafsauga og þurfa aldrei að horfa á þetta aftur. En það er víst ekki í boði. Ég er vissulega enginn sérfræðingur í ritun eða málfræði og ekki má gleyma því að málfar fólks er misjafnt - en þetta er bara svo hrikalegt að manni fallast hendur. Já, það er nú það. En þar sem ég er núna búin að blása úr mér þá get ég haldið áfram að lesa...

þriðjudagur, 2. maí 2006

Ísak tölvukall


Ísak tölvukall, originally uploaded by Guðný Pálína.

var svo heppinn að fá gefins fartölvu frá systur sinni þegar hún fékk sér nýja. Tölvan er í fínu lagi þannig lagað og hann lánsamur að þurfa ekki að bíða fram á fermingaraldur með að fá tölvu eins og eldri bróðir hans ;-)

Yfirleitt er ég afskaplega fús til að gera fólki greiða

en í dag tók ég þá ákvörðun að neita manneskju um greiða. Þrátt fyrir að ég viti að miðað við kringumstæður tók ég rétta ákvörðun þá er ég alveg miður mín. Finnst ég vera hræðileg manneskja. En þessi litli "greiði" hefði þýtt margra klukkustunda vinnu og ég var bara ekki tilbúin til þess. Ætlaði fyrst að stökkva af stað og var í raun komin í startholurnar þegar ég áttaði mig á því að þetta væri ekki eitthvað sem ég gæti lokið í snarhasti og myndi tefja mig frá minni eigin vinnu. Eftir að hafa velt aðeins vöngum yfir þessu ákvað ég sem sagt að gefa þetta frá mér. Segjast ekki geta gert þetta. En eins og ég sagði áðan, þrátt fyrir að vita að það var rétta ákvörðunin, þrátt fyrir að þetta sé ekki mitt vandamál, þá hefur mín ímynd sem hjálpfús og greiðvikin manneskja beðið hnekki (í eigin augum). Hm, verð að fara og hjálpa blindum manni yfir götu eða eitthvað álíka til að endurheimta ímyndina...

mánudagur, 1. maí 2006

Við Valur

fórum út í Kjarnaskóg að ganga í morgun þegar við vöknuðum. Þar fer ekki fram hjá nokkrum manni að vorið/sumarið er komið. Farfuglarnir eru mættir í skóginn og syngja sinn söng fyrir hvern sem heyra vill. Stoltur þröstur hreykir sér á hæsta toppi furutrés og kallast á við félaga sinn í næsta tré. Hrossagaukurinn svífur um loftið og lætur í sér heyra og það gerir líka rjúpan sem er enn í skóginum. Snjórinn er farinn að mestu leyti og hvítu dílarnir uppi í klettabeltinu eru ekki snjór heldur fuglar í hreiðurgerð. Í sambland við fuglahljóð og lækjarnið má svo greina dillandi barnshlátur sem berst frá leiksvæðinu. Já, þetta er indælt líf!

Hin illræmdu samræmdu próf hefjast á miðvikudaginn en unglingurinn á heimilinu var svo óheppinn að krækja sér í kvefpesti og hefur ekkert getað lært. Það er reyndar önnur saga hvort hann hefði yfirhöfuð notað tímann til að læra (hefur komist upp með að læra lítið og ná samt ágætum einkunnum og það hvetur kannski ekki beint til þess að eyða "óþarfa" tíma í lestur). En vonandi nær hann sér á strik og kemst í prófin og þarf ekki að fara í sjúkrapróf.

Stóra systir hans er líka að byrja í prófum í vikunni og hefur lítið sést hér að undanförnu en setið heima yfir námsbókunum. Hún sem sagt lærir fyrir próf ;-)

Sá yngsti er í þessum töluðu (skrifuðu) orðum að verða ræstur af stað í 1. maí hlaupinu sem hefur verið haldið á þessum degi í mörg ár, en þetta er í fyrsta sinn sem hann tekur þátt. Pabbi hans fylgdi honum í hlaupið.

Og ég, ég á að vera að gera eitthvað allt annað en blogga, svo nú er best að hætta þessu.