föstudagur, 29. febrúar 2008

Spurning að tala um eitthvað annað en slys og dauða?

Ísak kom heim frá Reykjum í dag eftir 5 daga fjarveru frá heimilinu. Það var skrýtið að hafa hann ekki heima. Fyrir utan þá staðreynd að hann var ekki til staðar í húsinu, þá var herbergið hans til dæmis hreint og strokið allan tímann, engin föt á gólfinu og engin Andrésblöð sem lágu eins og hráviði um allt hús. Það þurfti ekkert að keyra á fótboltaæfingar og síðast en ekki síst, þá hringdi síminn varla og dyrabjallan þagði þunnu hljóði. En það er nú ósköp gott að vera búin að fá strákinn sinn heim aftur - með öllu sem honum fylgir :-)

Hrefna og Erlingur eru flutt í nýju íbúðina sína í Köben og við hér heima segjum bara til hamingju með það!

Andri tók sig til ásamt nokkrum félögum sínum og var með dansatriði á kvennakvöldi í Menntaskólanum á fimmtudagskvöldið. Það er nokkuð ljóst að hann er ekki eins feiminn og mamma hans var á þessum aldri - sem er hið besta mál ;-)

Ég er enn á lífi... eins og ljóst má vera. Það er fullt að gerast í sambandi við flutning Potta og prika á Glerártorg og ótrúlega erfitt að ákveða sumt s.s. hvert bilið á að vera milli hillanna í búðinni, hvaða gólfefni á að vera o.s.frv. Þrátt fyrir fagran ásetning um að láta þetta allt saman ekki stressa mig upp, þá tekst það nú ekki alveg. Streita hefur ekki góð áhrif á blessaða vefjagigtina og ég sé að ég þarf eitthvað að fara að gera í málinu svo ég klári mig ekki alveg á þessu.

Þetta var "rapport" úr Vinaminni, föstudaginn 29. febrúar 2008.

fimmtudagur, 28. febrúar 2008

Ætli það sé merki um að ég sé farin að eldast

þegar ég fer á sífellt fleiri jarðarfarir? Æ, ég veit það ekki, kannski er það bara röð tilviljana, eða þá að með hækkandi aldri vel ég oftar að fara á jarðarfarir fólks sem ég hef átt einhverja samleið með um æfina, þó ekki sé um mjög náin tengsl að ræða. Áðan var ég á jarðarför systur vinkonu minnar og milli jóla og nýárs fór ég á jarðarför skólasystur minnar úr sjúkraliðanáminu. Báðar þessar konur voru í blóma lífsins, báðar voru sjúkraliðar og lærðu til nuddara. Báðar voru þær fullar lífsgleði og miðluðu henni til samferðafólks síns. Báðar höfðu þær áhuga á andlegum málefnum. Báðar höfðu þær hæfileikann til að gleðjast yfir hinu smáa.

Vinkona mín, þessi sem var að missa systur sína, hún hefur einnig þennan dýrmæta hæfileika, að geta horft í kringum sig og glaðst yfir söng fuglanna, fegurð fjallanna, grænu grasinu og sólinni. Okkar samverustundir felast í því að við förum út að ganga, og það er sama hvernig á stendur hjá henni, alltaf skal hún geta bent á eitthvað til að njóta í náttúrunni. Það að geta notið líðandi stundar án þess að hafa áhyggjur af fortíð eða framtíð, er hæfileiki sem ég vildi gjarnan rækta meira.

miðvikudagur, 27. febrúar 2008

Sírenuvæl

er eitt hræðilegasta hljóð sem ég heyri, líklega vegna þess sem hljóðið táknar, þ.e. einhver er hættulega slasaður eða veikur. Núna seinnipartinn hefur hver slökkvi- og sjúkrabíllinn á fætur öðrum ekið framhjá Pottum og prikum með sírenurnar vælandi, og ég er að verða ein taugahrúga. Sá á mbl.is að það hefur orðið árekstur á Svalbarðsströnd og maður er fastur í bíl. Miðað við þann fjölda slökkvi- og sjúkrabíla sem farinn er á staðinn er verið að gera allt sem hægt er til að aðstoða manninn og vonandi fer þetta vel.

P.S. Nýrri frétt á mbl.is segir að talið sé að sex manns hafi slasast, þetta er ekki gott.

sunnudagur, 24. febrúar 2008

Tengdasonurinn átti afmæli í gær

og mér tókst að steingleyma því (nokkuð sem er ekki fallegt afspurnar og svo "útvarpa" ég því hér á veraldarvefnum). Til hamingju með afmælið Erlingur minn, þó seint sé, vonandi áttir þú góðan dag í gær :-)

Eplabaka fellur í kramið

Valur var svo framtakssamur að baka eplaböku með kaffinu í dag. Bakan var mjög góð en engu að síður var stærstur hluti hennar eftir þegar við hjónin vorum búin að gæða okkur á henni. Þá komu Ísak og þrír vinir hans til skjalanna og gerðu bökunni góð skil. Eins og sjá má er ekki mikið eftir núna. Og þeir voru meira að segja svo duglegir að setja óhreina leirtauið í eldhúsvaskinn á eftir :-)

Stjörnurnar segja...

Ég fæ senda stjörnuspá í tölvupósti á hverjum degi - bara svona til gamans - trúi hæfilega lítið á þessi fræði. En stundum hittir þannig á að spáin er í takt við það sem er að gerast hjá mér:

"Let your subconscious mind lead the way today, because your conscious mind is full of doubts and worries -- at least when you're dealing with anything important. Things get a lot better tomorrow!"

laugardagur, 23. febrúar 2008

Annar skrýtinn dagur?

Svaf til klukkan níu og hefði þá átt að vera úthvíld en var eins og trukkur hefði ekið yfir mig. Fór í sund þrátt fyrir að nenna því eiginlega ekki og leið töluvert betur á eftir. Hresstist enn meira við að fá kaffi hjá eiginmanninum og hélt að þá væri ég komin í gírinn en það var skammgóður vermir. Hef nákvæmlega ekkert gert af viti í dag fyrir utan að setja í eina þvottavél og hengja upp. Ætlaði helst að laga eitthvað til í húsinu og leiðrétta þær bókhaldsvillur sem mín takmarkaða bókhaldskunnátta dugar til - en er ekki að nenna því í augnablikinu. Er eiginlega ekki að nenna neinu akkúrat núna en hef samt löngun til að upplifa tilfinninguna sem fylgir því að hafa verið dugleg. Verð bara að vera ánægð með það litla sem ég þó geri...

Ísak er enn eina ferðin orðinn veikur, í þetta sinn með hálsbólgu og kvef. Hann er að fara með skólanum að Reykjum í Hrútafirði á mánudaginn og segist ætla að fara þó hann verði enn veikur. Vonandi hressist hann.

föstudagur, 22. febrúar 2008

Máni prins


Máni prins, originally uploaded by Guðný Pálína.

Máni á nýja uppáhaldsstaðnum sínum. Hér getur hann japlað á blóminu við hliðina og jafnframt haft smá yfirsýn yfir stofuna.

Undarlegur dagur

Ég hélt í gærkvöldið að ég væri að verða veik, leið alveg stórundarlega, var óglatt og ískalt. Þannig að ég þorði ekki annað en hringja og biðja Önnu að vinna fyrir mig í fyrramálið og var sem sagt alveg handviss um að ég yrði ekki í standi til að mæta í vinnu. Svo leið mér nú aðeins skár eftir því sem leið á kvöldið en ákvað að vera ekkert að hringja aftur í Önnu og afturkalla vinnuna hjá henni. Þannig að ég hef verið heima í dag og þó ég hafi ekki beint setið aðgerðalaus heldur unnið í bókhaldinu fyrir Potta og prik, þá finnst mér dagurinn hafa verið svo furðulegur af því ég hef ekki gert neitt af þessu venjulega s.s. fara í sund eða hitta annað fólk. En það stendur til bóta því það er kvennaklúbbur á eftir og ég ætla að skella mér. Kannski ég fari bara gangandi út í þorp, veitir víst ekkert af því að fá mér ferskt loft.

þriðjudagur, 19. febrúar 2008

Klukkan orðin hálf sex og það er ennþá bjart

Þetta kalla ég framför... Tók líka eftir því í morgun þegar ég var að synda að það er ekki lengur kolsvartamyrkur á milli átta og hálfníu. Þannig að þetta er allt að koma :-)

Er annars í vinnunni og það er rólegt í augnablikinu. Það sem vekur mesta athygli viðskiptavina í búðinni þessa dagana er svokallaður loftgarður, en í honum er hægt að rækta kryddjurtir árið um kring heima í eldhúsi. Valur er heima að elda fylltar kjúklingabringur en hann kom hingað áðan til að sækja ferskt basilikum því við erum með einn garð hérna hjá okkur. En nú er best að reyna að fara að vinna eitthvað fyrir kaupinu sínu...

mánudagur, 18. febrúar 2008

Ljósmyndað í lyftu


Ég tók myndavélina með á Strikið en kunni svo ekki við að taka myndir þar inni, þannig að þessi mynd af þeim feðgum er tekin í lyftunni á leiðinni niður. Ísak hljóp niður stigann þannig að hann er ekki á myndinni.

sunnudagur, 17. febrúar 2008

Afmælisblogg handa Andra sem er 18 ára í dag

Til hamingju með afmælið elsku Andri minn!

Foreldrarnir voru reyndar uppteknir við málningarvinnu framan af degi en það kom ekki að sök, afmælisbarnið fékk kökur og brauð heima hjá kærustunni. Svo fórum við öll saman út að borða í kvöld á Strikið og það var virkilega gaman (vantaði bara Hrefnu og Erling sem eru í Köben).

laugardagur, 16. febrúar 2008

Málningardagur í Vinaminni

Já, eftir að hafa verið að hugsa um að mála stofuna í þónokkurn tíma drifum við í þessu í dag. Það er að segja, Valur dreif í þessu, ég þvældist meira í kringum hann heldur en að gera mikið gagn. Undirbúningsvinnan tók mestan tíma, það þurfti að bera bækur, blóm, skrautmuni og málverk út úr stofunni og sparsla og pússa áður en hægt var að hefjast handa við sjálfa málningarvinnuna. Þá kom reyndar Andri heim á heppilegum tíma, svo við vorum þrjú að mála og munaði mikið um það. Náðum að fara eina umferð fyrir myrkur og svo verður önnur farin á morgun. Þetta verður mikil breyting, stofan verður hvít eftir að hafa verið gul í ellefu ár. Gaman að breyta aðeins til. Svo vantar okkur nýjar (lágar) bókahillur og skáp undir hljómflutningstækin en það kemur bara með kalda vatninu. Nú, og af því við erum komin í málningargírinn, þá mætti nú líka mála forstofuna og svefnherbergisganginn...

miðvikudagur, 13. febrúar 2008

Að þreyja þorrann

Ég er orðin eitthvað svo agalega þreytt á því að vakna alltaf í myrkri á morgnana og get ekki beðið eftir því að vakna í björtu. Það er nú greinilega samt farið að styttast í það, a.m.k. er nánast orðið bjart um níuleytið þessa dagana. Mig langaði alveg hræðilega mikið að leggja mig eftir að Ísak var farinn í skólann í morgun og hefði í raun getað það því ég byrjaði ekki að vinna fyrr en klukkan tvö. En ég harkaði af mér, fór í sundið og eyddi svo morgninum í að ryksuga, þvo þvott, laga til og vinna í reikningum. Var svo alveg sprungin um eittleytið og henti mér inn í sófa í smá stund áður en ég fór í vinnuna. Kettirnir voru rosa glaðir að finna mig í sófanum og létu ekki segja sér það tvisvar að leggjast hjá mér. Hins vegar hafði þessi blundur minn þau áhrif að ég varð hálf svefndrukkin þegar ég ók í vinnuna og mátti ég hafa mig alla við að gera ekki einhver axarsköft undir stýri.

föstudagur, 8. febrúar 2008

Rauðir ullarsokkar

Eftir að hafa þvælst um garnbúðir bæjarins (hm, eða tvær þeirra þriggja verslana sem selja garn hér á Akureyri) og skoðað prjónablöð af miklum móð varð það niðurstaðan að næsta verkefni mitt yrði að prjóna hlýja ullarsokka handa fótköldu frúnni. Hálfkláraða peysan frá í fyrra liggur enn ofan í poka, þ.e. er komin þangað aftur, eftir að ég tók hana upp um daginn til að kanna hvernig staðan á henni væri. Komst að því að ég var búin með bakstykkið, annað framstykkið og langt komin með hitt framstykkið. Það er bara eitthvað svo agalega erfitt að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið og mér vex í augum að reyna að finna út nákvæmlega hvar ég á að byrja (þ.e. út frá leiðbeiningunum altso). Ekki vildi ég byrja á álíka "stóru" verkefni aftur, án þess að klára fyrst þessa blessaða peysu, þannig að sokkar urðu þrautalendingin. Nú verður spennandi að sjá hvort ég a) byrja yfirhöfuð á þeim, b) byrja og skil þá eftir hálfkláraða, c) næ að klára heila tvo sokka sem eru báðir nokkurnveginn jafnstórir...

miðvikudagur, 6. febrúar 2008

Ég komst að því í morgun

að það er ekkert sérstaklega gott að syngja afmælissönginn þegar maður er með fullan munninn af afæmæliskringlu og veit þar að auki ekki nafnið á afmælis"barninu".

Þegar ég var að fara út úr sundlaugarbyggingunni var kallað í mig og mér var boðin kaka (ég hafði reyndar séð að það var kaka og kaffi en ætlaði að læðast út þar sem ég hélt að þetta væri fyrst og fremst handa eldri fastagestum). Þegar maðurinn kallaði kunni ég ekki við annað en fara og óska honum til hamingju með daginn og fá mér lítinn bita af kökunni. Hafði vart stungið bitanum upp í mig þegar kona sem vinnur í sundlauginni spurði afmælisbarnið hvað það væri gamalt og hvort hefði nokkuð verið sungið fyrir hann. "75 ára" var svarið við fyrri spurningunni og "nei" var svarið við þeirri seinni. Konan beið ekki boðanna og hóf upp raust sína, um leið og hún leit ábúðarfull á okkur hinar tvær sem viðstaddar voru, og þannig í skyn að við skyldum taka undir.

Ég vissi ekki alveg hvernig ég átti að snúa mig út úr þessu en reyndi þó að humma með, svona eins og hægt var með munninn fullan, en þó kárnaði gamanið þegar átti að syngja lokalaglínuna "Hann á afmæli hann X, hann á afmæli í dag" þar sem ég hafði ekki hugmynd um nafnið á blessuðum manninum. Hef hitt hann ca. milljón sinnum í sundi og býð alltaf góðan daginn, og kinka kolli til hans ef ég sé hann á götu, en só sorrý, veit ekki hvað hann heitir. Þannig að ég fékk smá hóstakast þarna alveg í lokin, svona rétt á meðan "hann á afmæli hann X" var sungið, og söng svo hástöfum síðustu hendinguna :-)

mánudagur, 4. febrúar 2008

sunnudagur, 3. febrúar 2008

Orkidean í eldúsglugganum

Henni er greinilega sama hvort það er vetur eða sumar, hún tók sig til og blómstraði um daginn. Ekkert smá flott dama!

Enn snjóar

Ég hafði hugsað mér að fara út að ganga aðeins núna á eftir en snjórinn er svo djúpur að það er nauðsynlegt að vera í góðum skóm og snjóbuxum. Eina vandamálið er að ég lánaði Ísaki skóna mína, svo ég fer víst ekki út alveg á næstunni. Spurning að drífa sig í Bónus í staðinn. Er samt ekki að nenna því í augnablikinu. Hvað gera konur þá?

laugardagur, 2. febrúar 2008

Bjartasti tími dagsins


Vetur, originally uploaded by Guðný Pálína.

Ég tók myndavélina með mér í vinnuna í dag og smellti af nokkrum myndum eftir vinnu um tvöleytið. Var reyndar að flýta mér heim í kaffi með bóndanum, svo ég pældi nánast ekkert í myndbyggingu eða öðru. Steingleymdi t.d. að ég væri með zoomlinsu...

Já, á meðan ég man, Ísak er allur að hressast og orðinn sjálfum sér líkur á ný. Fór meira að segja út að leika sér í frostinu í gærkvöldi og á fótboltaæfingu í dag, þannig að okkur foreldrunum er mikið létt :-)

föstudagur, 1. febrúar 2008

Blindbylur og 10 stiga frost

varð til þess að ég nennti ekki að fara í sund í dag. Er greinilega ekki meiri sundfíkill en það... :-) Var komin með sunddótið í bílinn og að keyra Andra í skólann þegar veðrið snarversnaði allt í einu, svo ég ákvað að vera bara löt í dag og sleppa sundinu.

Ísak heldur áfram að vera eitthvað skrýtinn, ég þurfti að sækja hann í skólann í gær því þá var hann með dúndrandi höfuðverk, óglatt og kaldsveittur og kennaranum hans leist ekkert á blikuna. Ógleðin leið reyndar hjá í gær en höfuðverkurinn var viðvarandi og líka í morgun þegar hann vaknaði, svo ég leyfði honum að sofa áfram. Sendi hann nefnilega af stað í skólann í gær þó hann kvartaði um höfuðverk, svo ég hafði ekki brjóst í mér til að endurtaka þann leik. Svo hefur hann heldur ekki neina skó að fara í því kuldaskórnir hans voru horfnir í gær þegar ég var að sækja hann í skólann.