föstudagur, 9. desember 2011

Þrjú hjól undir bílnum - en áfram skröltir hann þó ;)

Já já, ég reyni mitt besta til að halda haus í annríkinu í desember. Ef ég á samt að vera alveg hreinskilin þá vildi ég óska að verslunin í búðinni væri aðeins jafnari yfir árið. Mætti vera svona hæfilega mikið að gera alla mánuði ársins og svo heldur meira í desember. Eins og staðan er þá stendur desember fyrir alveg ótrúlega stórum hluta heildarsölu verslana og svo eru nokkrir mánuðir á ári sem eru nánast dauðir og þá er maður sjálfur nánast dauður úr leiðindum...

Núna er það hins vegar álag, streita og þreyta sem eru aðalvandamálið. Við erum eiginlega að tala um meiriháttar dilemma/vandamál þegar kemur að annríkinu í desember. Í fyrsta lagi þá vil ég helst geta unnið sem mest, því það skiptir jú verulegu máli fyrir afkomu verslunarinnar hvernig til tekst með söluna í desember. Í öðru lagi þá vinn ég töluvert meira en ég í raun "get" útfrá ástandinu á mér og reyni að bremsa mig af, þó það takist nú ekkert alltof vel. Sem gerir það að verkum að mér finnst ég ekki vera að standa mig gagnvart Sunnu og sem verslunareigandi. Í þriðja lagi þá verð ég stundum leið á því að eiga aldrei rólegan aðventumánuð og geta bara dúllað mér við bakstur, föndur, kaffihúsaferðir og tónleika.

En svo það sé nú alveg á hreinu þá er þetta ekki bara slæmt. Það er gaman að vera í vinnunni þegar vel gengur. Fólk flest í góðu skapi og við gerum okkar besta til að panta vörur og taka frá fyrir viðskiptavini, svo allir fái nú örugglega "réttu" jólagjöfina handa hverjum og einum.

Engin ummæli: