Eftir vinnu var svo námskeið í Lightroom (forrit til að vinna myndir) í Símey. Áður en ég fór þangað skellti ég í mig enn einni verkjatöflunni og Valur bjó til espresso handa mér. Það dugði þar til rúmlega tíu en þá var ég orðin býsna framlág. Í nótt vaknaði ég svo klukkan fjögur og leið eins og ég væri orðin alveg fárveik. Illt í öllum skrokknum, illt í höfðinu, illt í hálsinum og bara alveg ónýt eitthvað. Fór að hafa áhyggjur af því að komast ekki í vinnuna í dag og ætlaði aldrei að geta sofnað aftur fyrir áhyggjum af þessu ástandi á mér.
Jæja, ég svaf til klukkan níu í morgun og þegar ég fór á fætur fann ég að ég var mun hressari en í nótt. Þannig að ég ákvað að drífa mig í vinnuna, hugsaði ég hlyti að geta haldið haus þar í fjóra tíma. En svo gerðist hið ótrúlega, ég bara hresstist eftir því sem leið á morguninn og var ótrúlega spræk. Engin veikindatilfinning og ég gat þurrkað af ryk og þrifið eins og mér væri borgað fyrir það. Svo steinsofnaði ég reyndar á sófanum þegar ég var komin heim, en það er önnur saga ... :-)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli